Laugardagurinn 27. febrúar 2021

Meirihluti íbúa helstu evru-ríkja á móti evrunni - vilja eigin efnahags­stjórn


15. september 2010 klukkan 18:29

Ný skoðanakönnun sýnir, að meirihluti íbúa í helstu evru-ríkjunum telur, að upptaka evrunnar hafi haft slæm áhrif á efnahag sinn. Þeir treysta ríkisstjórnum landa sinna betur en ESB til að takast á við efnahagsvandann.

Um 60% Frakka og meira en helmingur Þjóðverja, Spánverja og Potrúgala segja, að það hafi verið „slæmt fyrir efnahag þeirra“ að búa við evru. Þetta kemur fram í könnuninni Transatlantic Trends, sem Þýski Marshall-sjóðurinn í Bandaríkjunum birti 15. september.

Bandaríska hugveitan framkvæmdi könnunina í júní í ellefu ESB-löndum og komst að raun um, að aðeins Hollendingar og Slóvakar eru að meirihluta hlynntir evru.

Utan evru-svæðisins eru 83% Breta, 53% Pólverja og 42% Búlgara þeirrar skoðunar, að evra yrði slæm fyrir efnahag þjóða þeirra. Rúmenar eru hinir einu, þar sem meirihluti er hlynntur evru.

Könnunin sýnir, að flestir meðal almennings eru hlynntir ESB-aðild, en meirhlutinn vilji jafnframt, að ríkisstjórnir landa sinna takist á við efnahagsmál þjóðanna en ekki ESB-stofnanir.

Þjóðverjar skáru sig úr, þegar spurt var um efnhagsstjórn í höndum ESB. Þar hafa stjórnvöld krafist þess, að innan ESB sé fylgt strangari sameiginlegum reglum. 54% Þjóðverja telja, að ESB eigi að gegna meginhlutverki við töku efnahagsákvarðana.

Bretar hafa minnstan áhuga á ESB-efnahagsstjórn (25%) og sömu sögu eru að segja um nýju ríkin, Búlgaría (24%), Slóvakía (22%) og Rúmenía (15%), þótt í nýju ríkjunum sé almennt áhugi á að flytja völd af heimavelli til Brussel. Í Frakklandi segja 47%, að ríkisstjórnin skuli eiga síðasta orð um efnahagsstjórn, en 43%, að höfuðábyrgðin eigi að vera hjá ESB.

Niðurstaða þessarar könnunar er í hróplegri andstöðu við nýlega könnun á vegum framkvæmdastjórnar ESB, sem túlkuð var á þann veg í Brussel, að Evrópubúar væru hlynntir „evrópskri efnahagsstjórn“. Inntak hugtaksins er óljóst að sögn vefsíðunnar EUobserver en um það verður rætt á leiðtogaráðsfundi ESB fimmtudaginn 16. september.

Þegar litið er til framtíðar, telur meira en helmingur allra Evrópubúa, að efnahagserfiðleikar eigi að leiða til meira samstarfs innan ESB. Ítalir, Portúgalir, Búlgarar, Spánverjar og Slóvakar eru sérstaklega áhugasamir um frekari samruna.

72% Evrópubúa og 90% Bandaríkjamanna telja, að hag þjóðar sé best borgið í frjálsu markaðshagkerfi. Stuðningur við þessa skipan efnahagsmála var mestur í Bretlandi (81%) og Þýskalandi (78%). Aðeins 36% Tyrkja telja kapítalisma sér fyrir bestu, tíu stigum færri en á síðasta ári.

Meira en 80% Evrópubúa spáðu því, að Bandaríkin mundu veita sterka forystu í framtíðinni, en 75% töldu ESB einnig hafa forystuhlutverki að gegna.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS