Mánudagurinn 27. júní 2022

Framkvæmda­stjórnin vill koma böndum á útgjöld aðildarríkja-búizt við átökum


27. september 2010 klukkan 08:57

Á miðvikudag leggur framkvæmdastjórn ESB fram tillögur, sem miða að því að koma böndum á útgjöld einstakra aðildarríkja. Og í dag kemur sérstakur verkefnahópur um sama efni saman til fundar í Brussel. Gert er ráð fyrir töluverðum átökum á milli aðildarríkja um þessar tillögur á sama tíma og vaxandi óánægju gætir hjá almenningi vegna stóraukins aðhalds. Að sögn euobserver í morgun hefur Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýzkalands, lýst yfir stuðningi við tillögur framkvæmdastjórnarinnar en Frakkar og Ítalir eru ekki jafn hrifnir af þeim, sérstaklega ekki þeim hluta þeirra, sem fela í sér sjálfkrafa refsiaðgerðir gagnvart aðildarríkjum, sem brjóta settar reglur um hlutfall hallareksturs af fjárlögum og hlutfall þjóðarskulda af vergri landsframleiðslu.

Þær tillögur mundu þýða, að í stað þess að nú þarf tiltekinn meirirhluta til þess að samþykkja refsiaðgerðir gera tillögur framkvæmdastjórnarinnar ráð fyrir, að ákveðinn meirihluta þurfi til að hafna sjálfkrafa refsiaðgerðum.

Financial Times segir í dag, að tillögurnar séu víðtækari en þetta. Þannig sé gert ráð fyrir stöðvun á greiðslum úr þróunar- og landbúnaðarsjóðum til þeirra, sem brjóti ítrekað reglur ESB og atkvæðisréttur verði tekinn tímabundinn af ráðherrum í ráðherraráði ESB frá ríkjum, sem standi ekki við sitt.

Blaðið segir, að Hollendingar og Bretar styðji afstöðu Þjóðverja en Belgar styðji Frakka og Ítali. Finnska dagblaðið Helsingin Sanomat segir í dag að Finnar styðji sjónarmið Þjóðverja. Blaðið segir ennfremur að við núverandi aðstæður mundu sektargreiðslur Finna nema um 340 milljónum evra.

Embættismenn í Brussel segja, að til sé að verða blokk ríkja í suðurhluta Evrópu, sem standi gegn tillögum framkvæmdastjórnarinnar.

Frakkar hafa sérstakar áhyggjur af þeirri áherzlu, sem framkvæmdastjórnin leggur á að skuldir verði lækkaðar. Slíkar aðgerðir mundu t.d. valda Ítölum miklum erfiðleikum en gert er ráð fyrir að skuldir Ítala muni á þessu ári nema 116% af vergri landsframleiðslu.

Humyndir framkvæmdastjórnarinnar um refsiaðgerðir eru þær, að ríki, sem ekki fari að reglum verði að leggja 0,2% af vergri landsframleiðslu inn á sérstakan bankareikning , sem engir vextir yrðu greiddir af og í sumum tilvikum gætu sektir numið 1% af vergri landsframleiðslu.

Á sama tíma og framkvæmdastjórnin ætlar að herða að einstökum ríkjum standa ríkisstjórnir þeirra ríkja, sem verst eru sett frammi fyrir verulegum þjóðfélagsóróa. Á miðvikudag er gert ráð fyrir víðtækum verkföllum á Spáni og búast má við mótmælum í Brussel.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS