Fréttastofa RÚV segir að meirihluti félagsmanna VG, sem sitji málefnaþing um utanríkismál virðist vera á móti þeirri vegferð, sem þingflokkurinn sé í varðandi aðild að Evrópasambandinu. Svohljóðandi frétt birtist á fréttavef RÚV:
„Nauðsynlegt að leita útgönguleiða“
„ Málefnaþing Vinstri Grænna um utanríkismál, sem hófst seinnipartinn í gær, hélt áfram í Hagaskóla í morgun. Meirihluti félagsmanna Vinstri grænna sem sitja þingið virðist vera á móti þeirri vegferð sem þingflokkurinn sé í, það er, að sækja um aðild að Evrópusambandinu.
Fram hefur komið sú skoðun að hlutur Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu sé óþarflega mikill. Í pallborði sátu Bjarni Harðarson, Steingrímur J. Sigfússon, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Álfheiður Ingadóttir. Formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, ítrekaði afstöðu Vinstri grænna að það væri ekki grundvallarágreiningur um stefnu Vg um Evrópusambandið – Vinstri græn vilji ekki í Evrópusambandið. Hann sagði félagsmenn Vg ættu ekki að gera hvort annað að andstæðingum, heldur halda hópinn. Ragnar Arnalds, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, sagði málið hinsvegar ekki flókið. Það væri núverandi ríkisstjórn sem myndi gera samninginn við ESB og svo væri það ekki fyrr en á lokasprettinum sem þjóðin fengi að ýta á neyðarhnappinn og segja nei.
Í samtali við fréttastofu segir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, það vera staðreynd að andstaða við Evrópusambandið birtist í reynd sem hrein andstaða við forystu Vg, og sérstaklega formanninn Steingrím J. Sigfússon. Markmið hægri manna sé að grafa undan styrkri stöðu Steingríms og flokksins. Hún hafi bent á að ekki ætti að leyfa mönnum eins og Styrmi Gunnarssyni og Birni Bjarnasyni að leiða þessa umræðu með slíkum hætti og láta hana á köflum snúast um tæknileg atriði. Álfheiður telur að Ísland eigi að klára umsóknarferlið, sem taka muni nokkur ár, og sjái hún það fyrir sér að andstaðan við aðild Íslands að Evrópusambandinu muni með tímanum vaxa – meirihluti þjóðarinnar sé á móti aðild.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður og formaður Heimssýnar, telur málið um ESB vera komið í slíkar ógöngur að nauðsynlegt sé að leita útgönguleiða. Komið hafi fram á þinginu að um sé að ræða klára aðlögun. Kröfur séu gerðar að Ísland breyti regluverki sínu og setja upp nýjar stofnanir. Ásmundur segir hingað streyma ótakmarkað fjármagn frá ESB til áróðursstarfsemi, og sé málið komið í slíkar ógöngur að snúa verði ofan af því.
Málefnaþingið heldur áfram í dag og lýkur með ávarpi formannsins síðdegis.“
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.