Miðvikudagurinn 24. febrúar 2021

Þorskveiðar skornar niður í Norðursjó - Skotar reiðir


15. desember 2010 klukkan 18:08

Evrópusambandið ákvað miðvikudaginn 15. desember að skera niður aflaheimildir, einkum á þorski, á miðum undan ströndum Englands, Skotlands og Norðurlanda. Eftir margra klukkustunda samningafund í Brussel var ákveðið að skera heildar aflaheimildir á þorski úr 40.219 tonnum árið 2010 í 32.912 tonn árið 2011 eða um 18%.

Maria Damanaki

Í Norðursjó undan ströndum Skotlands og Englands er leyfilegur heildarafli á þorski skorinn niður um 20%, úr 27.848 tonnum í 22.279 tonn. Mestur er þó niðurskurðurinn í Kattegat á milli Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, það er 50% úr 379 tonnum í 190 tonn árið 2011. Í Skagerrak er niðurskurðurinn 20% úr 4.638 í 3.711 tonn.

Veiðiheimildir á þorski undan strönd Portúgals eru óbreyttar á milli ára, 4.023 tonn.

Niðurstaða ráðherranna var almennt í samræmi við tillögur framkvæmdastjórnar ESB, þótt hún hafi viljað meiri niðurskurð á þorskheimildum.

Saskia Richartz, sem fylgist með sjávarstefnu ESB fyrir hönd Greenpeace umhverfissamtakanna, taldi veiðiheimildir ESB fyrir þorsk og túnafisk enn of háar.

„Það er augljóst að ESB getur ekki haft stjórn á fiskveiðum samkvæmt núgildandi reglum. Ná verður tökum á hömlulausri ofveiði og endurskoða fiskveiðistefnuna til að gefa fiskstofnum færi á að ná sér aftur á strik,“ sagði Richartz við AFP-fréttastofuna.

Struan Stevenson, ESB-þingmaður frá Skotlandi og varaformaður sjávarútvegsnefndar ESB-þingsins, lýsti megnri óánægju með niðurstöðu ráðherrafundarins og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um aflaheimildir. Hann sagði:

„Skoskir sjómenn eru innilokaðir. Annars vegar hirða Íslendingar og Færeyingar óheyrilega risakvóta af hinum sameiginlega makrílstofni. Hins vegar er Brussel-valdið sem virðist staðráðið í því að murka hægt úr þeim lífið.“

Hann sagði að sú staðreynd að samningaviðræðum ráðherranna hefði ekki lokið fyrr en klukkan 05.00 að morgni 15. desember þegar allir hafi verið dauðuppgefnir sýni best að núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé úr sér gengið. Því verði að kollvarpa. Ofurvaldi embættismanna í Brussel verði að ýta til hliðar, niðurskurður á valdi þeirra kunni hins vegar að koma of seint fyrir suma skoska sjómenn.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, sagði að fiskveiðiákvarðanir ESB fyrir árið 2011 lofuðu góðu um að það markmið næðist, að allar veiðar í lögsögu ESB yrðu sjálfbærar árið 2015.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS