Fimmtudagurinn 4. mars 2021

Duga tvær setningar í Lissabon-sáttmálann til að bjarga evrunni?


17. desember 2010 klukkan 10:39

Leiðtogaráð ESB samþykkti á fundi sínum aðfaranótt föstudags 17. desember breytingu á Lissabon-sáttmálanum sem heimilar evru-ríkjunum að koma á fót varanlegum björgunarsjóði í þágu evrunnar frá og með árinu 2103. Bráðabirgða-sjóðurinn sem komið var á fót sl. vor stækkar ekki.

Consilium. europa.com
Standandi frá vinstri: Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands á fundi leiðtogaráðsins 16. desember 2010

Textinn sem settur verður í Lissabon sáttmálann er á þessa leið: „Aðildarríkjum [ESB] með evru sem gjaldmiðil er heimilt að koma á fót stöðugleikasjóði sem verði virkjaður ef það er óhjákvæmilegt til að vernda stöðugleika á öllu evru-svæðinu. Fjárhagsleg aðstoð verður ekki veitt úr sjóðnum nema með ströngum skilyrðum.“

Markmiðið við gerð textans var að hann yrði eins einfaldur og kostur væri svo að unnt yrði að fara stutta formlega leið við staðfestingu hans, það er að ná samstöðu allra leiðtoga ESB-ríkjanna um stuðning við hann, en með því er tryggt að ekki verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytinguna í neinu aðildarríkjanna. Síðast þegar stofnsáttmála ESB var breytt tók staðfestingarferlið um 10 ár. Nú dugar að leggja málið fyrir þjóðþing ESB-ríkjanna.

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði að breytingarnar ættu að duga til að sannfæra markaði um að evran væri örugg. „Hlutverk okkar núna er að ganga fram á réttan hátt og hætta öllu málæði, og sýna að þeir hafa rangt fyrir sér sem spá því að sameiginlegur gjaldmiðill okkar standist ekki áraunina.“

Leiðtogarnir féllust ekki á tillögu frá Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar og formanni ráðherraráðs evru-ríkjanna, sem vildi að 440 milljarða evru sjóðurinn sem var stofnaður sl. vor til að bjarga stórskuldugum evru-ríkjum yrði stækkaður.

Á vefsíðunni EUobserver er bent á að í breytingunni á Lissabon-sáttmálanum sé þess ekki getið að fjárfestar taki á sig kostnað vegna björgunaraðgerða í þágu evrunnar. Hins vegar segir jafnframt á síðunni að skilningur sé um það meðal leiðtoganna að slíkar skyldur verði lagðar á fjárfesta en þær verði ákvarðaðar í hvert skipti fyrir sig.

Í aðdraganda leiðtogafundarins hafði Juncker einnig hvatt til þess að gefin yrðu út evru-skuldabréf, en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lagðist eindregið gegn hugmyndinni. Óttast hún að lántökukostnaður Þjóðverja hækki ef sameiginleg evru-bréf koma til sögunnar.

Heimild: EUobserver

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS