Sunnudagurinn 24. janúar 2021

Landbúnaður á jaðarsvæðum ESB á alls staðar undir högg að sækja

segir Ólafur R. Dýrmundsson og telur skorta „skýr samningsmarkmið“ af Íslands hálfu


23. janúar 2011 klukkan 17:01
Ólafur r. Dýrmundsson

Dr Ólafur R. Dýrmundsson, landsráðunautur Bændasamtaka Ísland í lífrænum búskap og landnýtingu, telur að of einhliða sjónarmiðum sé haldið að Íslendingum um stöðu íslensks landbúnaðar, ef til ESB-aðildar kæmi. Fjölmiðlar leiti aðeins eftir skoðunum erlendra stjórnmálamanna eða embættismanna sem hafa hagsmuni af því að tíunda ágæti Evrópusambandsins. Innan þess stefni í óefni í landbúnaðarmálum vegna „vaðandi verksmiðjuvæðingar landbúnaðarins“ . Jaðarbyggðir innan ESB eigi mjög undir högg að sækja.

Ólafur á sæti í ESB-viðræðuhópi á vegum utanríkisráðuneytisins um vörur, orku og samkeppnismál o. fl. Hann sagði þetta væru aðlögunarviðræður en ekki könnunarviðræður. Þá lægju ekki fyrir nein „skýr samningsmarkmið“ af hálfu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum.

Jón Baldur l‘Orange ræddi við Ólaf í þættinum ESB, nei eða já? á útvarpi Sögu fimmtudaginn 20. janúar. Ólafur sagði meðal annars frá heimsókn sinni til Möltu á síðasta ári, þar sem hann hefði kynnst allt öðrum sjónarmiðum hjá bændum en embættismönnum, þegar hann kynnti sér afstöðuna til ESB-aðildar. Hann hefði meðal annars hitt smábónda, sem getur ekki lengur lifað af búskap og sinni hlutastarfi sem lögreglumaður. Þegar Ólafur sagði honum að hann vildi kynna sér málin, þar eð Íslendingar hefðu sótt um aðild að ESB, fórnaði maðurinn höndum, steytti hnefa og hrópaði: „Þangað skulið þið aldrei fara!“

Ólafur sagðist einnig hafa hitt stórbónda á Möltu sem hefði góðar tekjur. Hann væri hins vegar einnig að því kominn að bregða búi. Hann væri að gefast upp á skriffinnskunni sem því fylgdi að reka búskap innan ESB. Til marks um þróunina á Möltu mætti nefna að við aðild að ESB árið 2004 hefði Maltverjum verið heimilað að rækta allt að 134 þúsund grísir innan styrkja- og framleiðslukerfis ESB. Árið 2010 væri fjöldi grísa á Möltu aðeins 60 þúsund. Maltverjar stæðust ekki samkeppni við verksmiðjubúin innan ESB, styrkir dygðu ekki til að halda lífi í landbúnaðinum auk þess fylgdi ekkert nema „skriffinnska og vesen“ styrkjakerfinu.

Eftir ferð sína til Möltu ritaði Ólafur skýrslu um stöðu landbúnaðarmála þar. Hann sagðist skömmu síðar hafa heyrt viðtal við Maltverja sem starfaði fyrir ESB á rás 2 og hefði sá látið vel af stöðu landbúnaðar á eyjunni. Þar sem Ólafi þótti hallað réttu máli sendi hann þáttarstjórnendum á rás 2 skýrslu sína. Taldi hann þá ekkert hafa gert með hana, þótt hún gæfi raunsannari mynd af ástandinu en fram kom hjá ESB-viðmælandans á RÚV.

Ólafur sagði það gefa alranga mynd af stöðu finnskra bænda eftir aðild að ESB að ræða um hana nú tæpum 20 árum eftir að til aðildar kom. Þeir hefðu mátt þola „miklar hörmungar“ enda hefði verið „hjólað yfir þá“ við gerð aðildarsamningsins, þar sem allt aðrir hagsmunir hefðu ráðið en landbúnaðarins.

Í Tékklandi hefði öll venjuleg svínarækt orðið að víkja fyrir verksmiðjubúum, sem þrifust ekki án styrkja og þar sem illa væri farið með dýr auk þess sem þau menguðu mikið. Hann sagðist hafa heimsótt Krít og Sikiley, dæmigerð ESB-jaðarsvæði. Þangað væru veittir hæstu landbúnaðarstyrkir en hefðbundinn búskapur ætti mjög undir högg að sækja og byggðirnar sjálfar, til dæmis væri 27% atvinnuleysi meðal ungs fólks á Sikiley.

Hér má hlusta á samtal þeirra Jóns Baldurs og Ólafs: http://www.utvarpsaga.is/index.php?option=com_content&view=article&id=1640&Itemid=66

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS