Þriðjudagurinn 26. janúar 2021

„Agnar-áhugaverðar“ norðurslóðir fyrir ESB - aðild Íslands ekki beint guðsgjöf


29. janúar 2011 klukkan 11:48

Í ályktunum leiðtogaráðs ESB, framkvæmdastjórnar ESB og ESB-þingsins þar sem getið er um aðildarviðræðurnar við Ísland er þess alls staðar látið getið, að aðildin skipti miklu fyrir ESB, þar sem með henni stækki ESB-yfirráðasvæðið og brúarsporður fáist inn á norðurslóðir. Í viðali við Fréttablaðið 29. janúar gefur Jean-Claude Piris, fyrrverandi yfirmaður lagasviðs ráðherraráðs ESB, til kynna, að ekki beri að taka þessar yfirlýsingar alvarlega. „Norðurslóðir eru kannski agnar-áhugaverðar en ekki svo mjög, ef ég á að vera heiðarlegur,“ segir hann.

baruch.cuny.edu
Jean-Claude Piris

Jean-Claude Piris flutti föstudaginn 28. janúar erindi á ráðstefnu í Háskóla Íslands um mannréttindi og sáttamála ESB. Í tilefni af komu hans hingað til lands ræddi Klemens Ólafur Þrastarson, blaðamaður á Fréttablaðinu, við hann. Þar eru þessi orðaskipti:

Sumir segja að ESB vilji komast á norðurslóðir?…

Og gera hvað? Hvað þýðir það „að komast á norðurslóðir“? Við erum ekki hernaðarbandalag og Ísland er hvort sem er stofnfélagi í NATO. Þið finnið vonandi olíu, en við eigum ekki þær auðlindir sem eru í aðildarríkjunum, eða stjórnum siglingaleiðunum eða þess háttar. Á hverju nákvæmlega ættum við að hafa áhuga? Norðurslóðir eru kannski agnar-áhugaverðar en ekki svo mjög, ef ég á að vera heiðarlegur. Svo ná ESB-ríkin Svíþjóð og Finnland fyrir ofan norðurheimskautsbaug líka.

Þegar Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, tók við aðildarumsókn Íslands úr hendi Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, í Stokkhólmi undir lok júlí 2009 lét hann orð falla um mikilvægi aðildar Íslands að ESB vegna áhuga á auknum afskiptum sambandsins af málefnum norðurslóða.

Á ráðstefnu um norðurslóðir í Tromsö 24. janúar sl. sagði Össur Skarphéðinsson að aðild að ESB mundi ekki breyta stöðu Íslands þegar litið væri til stjórnmála og landafræði (geópólitíkur) á Norðurskautinu. Þvert á móti mundi hún styrkja framlag Íslendinga til norðurskautssamstarfs. Þeir mundu leggja sinn skerf af mörkum til stefnumörkunar ESB á Norðurskautinu og til að þróa trausta og skynsamlega afstöðu ESB til málefna norðurskautsins. Hann sagði: „Aðild Íslands mun auka nauðsyn þess fyrir ESB að taka tillit til norðurskautssvæðisins og Norður-Atlantshafs við mörkun og framkvæmd stefnu sinnar.“

Jean-Claude Piris segir að staða Íslendinga í aðildarviðræðum við ESB sé veikari nú en fyrir nokkrum árum vegna ágreinings innan sambandsins um aðild Balkanlanda að því. Gefur hann til kynna að vinaríki þeirra landa kunni að taka aðildarviðræðurnar við Ísland í gíslingu til að knýja fram ákvarðanir varðandi aðild Balkanlandanna.

Klemens Ólafur segir frá því sjónarmiði, að þar sem ESB standi höllum fæti vegna efnahagskreppunnar kæmi illa út fyrir það ef aðild væri hafnað af Íslendingum. Hann segir sér heyrast að Piris taki ekki undir þetta sjónarmið. Piris svarar:

„Það er kannski eitthvað til í því að ESB sé veikt núna en heldurðu að með Íslandi yrði það sterkara? [Hlær]. ESB er ekki að sækja um aðild að Íslandi heldur öfugt. Nei, ég er ekki svo viss um að þetta sé rétt kenning. Höfnun væri kannski hnekkir fyrir ESB, ef Ísland nálgaðist sambandið hlaðið kostum og gjöfum sem myndu bæta sambandið, en hvað eruð þið að bjóða, hvað takið þið með ykkur í ESB?

Ef maður er hlutlaus og raunsær þá breytir það ekki miklu fyrir ESB að Ísland gangi inn. Nema hvað að ákvarðanataka í mikilvægustu málunum verður þyngri í vöfum, því einu atkvæði með neitunarvald verður bætt við og enn einu tungumáli til að þýða öll skjölin á og svo framvegis. Það er ekki beint guðsgjöf. Þið hafið reyndar eitt að bjóða og það er fiskurinn. Og samningaviðræðurnar verða mjög erfiðar því þið munið ekki vilja gefa neitt eftir af honum, eða eins lítið og hægt er. Þannig að það er einn hlutur og um hann má ekki semja. Afstaða Íslands er sú að semja um hvað ESB hefur að gefa Íslandi. Þetta er skiljanlegt, en ekki halda að ESB sé hrætt við að Ísland hafni ESB því ESB er ekki að biðja um Ísland.“

Sjá einnig leiðara hér á síðunni dag um viðtalið við Jean-Claude Piris.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS