Hertoginn af York, öðru nafni Andrew Bretaprins, liggur nú undir ásökunum um að hafa gert Rowland-fjölskyldunni í Bretlandi greiða en á móti (cash-for-favours) hafi David Rowland, höfuð fjölskyldunnar greitt 50 þúsund sterlingspund af skuldum fyrrverandi eiginkonu hertogans, hertogaynjunnar af York, öðru nafni Söruh Ferguson. Greiði sá, sem hertoginn af York er sakaður um er að hafa opnað nýjan banka fjölskyldunnar í Lúxemborg, Banque Havilland, í krafti embættis síns, sem Sérstakur fulltrúi fyrir alþjóðleg viðskipti og fjárfestingar (Special representative for international trade and investment). Banque Havilland var áður Kaupþing í Lúxemborg. Þátttaka hertogans af York í opnun bankans var ekki samþykkt af því ráðuneyti í Bretlandi, sem vinnur að framgangi brezkra viðskipta í öðrum löndum.
Frá þessu er sagt í brezka blaðinu The Sunday Telegraph í dag. Meðal þeirra, sem viðstaddir voru opnun bankans var Stefán Haukur Jóhannesson, þáverandi sendiherra Íslands í Belgíu.
Áður hafði Sunday Telegraph upplýst að annar vinur hertogans, Jeffrey Epstein, dæmdur barnaníðingur („convicted paedophile“) að sögn blaðsins hjálpað við að greiða aðrar skuldir hertogaynjunnar.
Brezka blaðið segir að David Rowland hafi verið lýst í brezka þinginu sem „skuggalegum“ (shady) kaupsýslumanni. Blaðið segir að hertoginn og David Rowland hafi verið nánir vinir í nokkur ár. Á árinu 2005 hafi hertoginn flogið til Guernseyjar þar sem hann hafi afhjúpað stóra bronsstyttu af Rowland fyrir framan setur hans þar, sem blaðið lýsir á þann veg að það sé í ætt við höll (palatial home). Styttan minni á Winston Churchill og sýni Rowland reykja stóran vindil.
Brezka blaðið segir að Rowland, sem er 65 ára gamall hafi verið sakaður um að hafa náð milljónum dollara („looting“) út úr bandarísku fyrirtæki en þá peninga hafi átt að nota til umhverfishreinsunar. Talsmaður Rowland sagði að sú staðhæfing væri röng og órökstudd. Ásökun í brezka þinginu um að Rowland væri „skuggalegur“ kaupsýslumaður tengdist viðskiptum vegna skozks fótboltafélags, Hibernian, sem fóru út um þúfur.
Yfirleitt er ferðakostnaður hertogans af York í þágu brezkra viðskipta greiddur af viðskiptaráðuneytinu í Bretlandi en Buckinghamhöll hefur viðurkennt að ferðakostnaður hertogans til Lúxemborgar til að opna hinn nýja banka hafi verið greiddur af honum sjálfum.
Þegar hertoginn opnaði Banque Havilland sagði hann m.a.:
„Ég fagna frumkvæði enskrar fjölskyldu, sem tók þá áhættu að fjárfesta utan landamæra Bretlands...Ég hef áður haft tækifæri til að hitta og starfa með Rowlandfjölskyldunni og óska fjölskyldunni alls hins bezta í þessum nýju viðskiptum“
Í tilkynningu frá konungshöllinni á sínum tíma var þess ekki getið að bankinn væri í eigu Rowland-fjölskyldunnar.
David Rowland er að sögn The Sunday Telegraph metinn á 730 milljónir sterlingspunda og er þar með talinn 25. ríkasti maður í Bretlandi. Til stóð á síðasta ári, að hann yrði skipaður gjaldkeri brezka Íhaldsflokksins en sagði því starfi af sér áður en hann tók við því eftir að upplýsingar komu fram um viðskipti hans, sem talin voru skaðleg.
Talsmaður Buckinghamhallar sagði við blaðamann brezka blaðsins:
„Hertoginn af York sinnti ýmsum verkefnum í heimsókn sinni til Lúxemborgar í september 2009, hann átti fund með fjármálaráðherra Lúxemborgar og stórhertoganum og tók þátt í viðskiptahádegisverði. Hann var viðstaddur opnun Banque Havilland í boði bankans. Heimsókn hans tengdist engu öðru né var hún skilyrt öðru.“
Heimildarmaður blaðsins í viðskiptaráðuneytinu brezka segir að starfsemi Hertogans af York hafi nýtzt brezkum viðskiptaaðilum í Miðausturlöndum og á Kákasussvæðinu en ekki væri litið á Lúxemborg sem forgangsverkefni. „Við mundum ekki vilja borga kostnað hans við ferðir þangað“.
Brezka utanríkisráðuneytið hefur líka lýst þeirri skoðun að ekki hefði verið eðlilegt að brezkir skattgreiðendur borguðu fyrir ferðina til Lúxemborgar.
Peningarnir frá David Rowland voru að sögn brezka blaðsins notaðir til að greiða fyrrverandi talsmanni hertogaynjunnar, Kate Waddington gamla skuld og segir blaðið að henni hafi borizt peningarnir fyrir nokkrum dögum.
Rowlandfjölskyldan hefur verið í fréttum íslenzkra fjölmiðla. Hinn 14. maí 2009 sagði í Viðskiptablaði Morgunblaðsins:
„Brezkur banki, Blackfish Capital í eigu Rowlandfjölskyldunnar, hyggst kaupa Kaupþing í Lúxemborg. Þetta er samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Fjölskyldan hefur gert bindandi kauptilboð í bankann, sem talið er mun hagstæðara en líbíski fjárfestingarsjóðurinn hafði gert.“
Hinn 14. júlí 2009 sagði Morgunblaðið:
„Búið er að endurskipuleggja Kaupþing í Lúxemborg og mun hann héðan í frá heita Banque Havilland S.A.....Magnús Guðmundsson mun áfram stýra bankanum en hann var lykilmaður í gamla Kaupþingi fyrir bankahrun. Starfssvæði bankans er Evrópa, Mið-Austurlönd og Asía.“
Hinn 15. júlí 2009 sagði Morgunblaðið:
„Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir að skattayfirvöld hafi verið fullvissuð um að yfirtaka Rowland-fjölskyldunnar á Kaupþingi í Lúxemborg muni ekki hafa slæm áhrif á upplýsingagjöf til embættisins en í Lúxemborg er mikil bankaleynd.“
Hinn 1. október 2009 sagði Morgunblaðið:
„Andrés Bretaprins opnaði í vikunni formlega Banque Havilland S.A. í húsnæðinu í Lúxemborg þar sem Kaupþing var áður með rekstur....Í tilkynningunni kemur fram að auk prinsins og fulltrúa bankans hafi ráðherrar í Lúxemborg og Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, meðal annars verið viðstaddir. Haft er eftir Jonathan Rowland, stjórnarformanni Banque Havilland að bankinn verði rekinn á íhaldssömum grunni þar sem fjölskyldan hafi alltaf haft varfærni í fjármálum að leiðarljósi.“
Hinn 25. nóvember 2010 sagði í Morgunblaðinu:
„Þrotabú Straums Burðaráss hefur höfðað mál gegn fjárfestingarfélagi í eigu David Rowland ....Sonur David Rowland, Jonathan, tók við sem forstjóri bankans eftir að Magnús Guðmundsson var leystur frá störfum vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknara...Gerir þrotabú Straums kröfu um að Rowland greiði fyrir hlutabréf, sem keypt voru í tæknifyrirtækinu XG Technology fyrir tvær milljónir punda....Í málshöfðuninni kemur fram að Straumur hafi sent Jonathan Rowland tölvupóst, þar sem óskað var eftir greiðslu í desember 2008. Eitt svar barst frá honum þar sem fram kemur að Rowland samsteypan hafi nýverið tekið skrifstofu sína í gegn og flutt á nýjan stað. Það sé ástæðan fyrir þeim töfum, sem orðið hafi á greiðslunni. Eins hafi skrifstofan verið fáliðuð. Hann hafi nú tekið málið í sínar hendur. Þrátt fyrir það hafa peningarnir ekki enn borizt samkvæmt frétt Telegraph.“
Hinn 2. janúar 2011 segir í Morgunblaðinu:
„Brezka Rowland fjölskyldan, sem á Havilland-banka í Lúxemborg, áður Kaupþing Lúxemborg, reynir nú að koma í veg fyrir að embætti sérstaks saksóknara fái afhent gögn, sem fundust við húsleit í bankanum í Lúxemborg. Telja þeir, sem vinna að rannsókninni að gögnin geti veitt mikilvægar upplýsingar um fall Kaupþings...“
Og ennfremur:
„Þegar húsleitin var gerð í Lúxemborg í fyrra sendi Havilland bankinn frá sér yfirlýsingu, þar sem fram kom, að rannsóknin tengdist bankanum ekki á nokkurn hátt heldur einungis Kaupþingi. Sagði jafnframt að Havilland-bankinn mundi aðstoða eins og honum væri frekast unnt við rannsóknina.“
Þess skal getið að embætti sérstaks saksóknara bárust gögnin frá Lúxemborg fyrir skömmu.
+Hér birtist í heild bréf sem Víglundur Þorsteinsson afhenti í Alþingishúsinu mánudaginn 10. febrúar. Áður hafði Víglundur skrifað Einari K. Guðfinnssyni forseta Alþingis um sama efni.+ Bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, Hr. formaður Ögmundur Jónasson Í framhaldi af b...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.