Miðvikudagurinn 3. mars 2021

ESB tekur á sig gjörbreytta mynd eftir samþykkt miðstýringu ríkisfjár- og efnahagsmála

Fjármála­ráðherrar hafa samþykkt sex lagafrumvörp um ríkisfjármál og efnahags­stjórn


16. mars 2011 klukkan 12:29

Evrópusambandið mun taka á sig nýja mynd með aukinni miðstýringu á sviði ríkisfjármála og efnahagsstjórnar verði sex lagafrumvörp, sem samþykkt voru á fundi fjármálaráðherra ríkjanna 27 í Brussel hinn 15. mars 2011 að ESB-löggjöf. Leiðtogaráð ESB tekur afstöðu til frumvarpanna á fundi sínum í Brussel 24. og 25. mars. ESB-þingið fær frumvörpin einnig til meðferðar.

Um er að ræða tvískipta aðferðafræði. Annars vegar er um að ræða heildarreglur fyrir allar ESB-þjóðir, þótt Bretar telji sig hafa sett sinn fyrirvara, hins vegar er um að ræða refsireglur sem eiga aðeins við um evru-ríkin.

Öll ný ríki í ESB falla undir skilyrði sem sett eru evru-ríkjunum, enda er ekki unnt að sækja um aðild að ESB með fyrirvara um að taka ekki upp evru.

Hér verður endursögð skýring Leigh Phillips hjá vefsíðunni EUobserver á því, sem felst í hinum nýju reglum.

Olli Rehn, efnahagsstjóri ESB, hefur fagnað því að völd hafa verið flutt frá þjóðþingum ESB-ríkjanna til stofnana ESB og þar með hefur það sem á ESB-máli er kallað „policy space“ eða „svigrúm til stefnumótunar“ með lögum einstakra aðildarríkja minnkað. Fjármálaráðherrar ESB-ríkjanna samþykktu 15. mars sex lagafrumvörp framkvæmdastjórnar ESB sem ganga í þessa átt. Rehn sagði að þetta mundi valda þáttaskilum í efnahagslegu eftirliti innan ESB.

Hér er ekki um tæknileg fjárhagsleg málefni að ræða heldur djúpstæða breytingu á samstarfinu innan ESB.

„Hér er um þögula byltingu að ræða – þögula byltingu í þágu styrkari efnahagsstjórnar sem kemur til sögunnar skref fyrir skref,“ sagði José Manuel Barroso í júní 2010 eftir að leiðtogaráð ESB hafði gefið fyrsta vink um að það féllist á frumhugmyndir framkvæmdastjórnar ESB sem nú eru orðnar að frumvörpunum sex. Barroso sagði þá:

„Aðildarríkin hafa samþykkt – og ég vona að þau hafi skilið það rétt – en þau hafa samþykkt að veita ESB-stofnunum mjög mikilvægt vald til að halda uppi eftirliti og fylgja fram mun strangari kröfum varðandi ríkisfjármál,“ sagði hann þá.

Fjármálaráðherrarnir hafa (15. mars) fyrir sitt leyti fallist á þessi sex frumvörp, leiðtogaráð ESB á enn eftir að ræða þau og ESB-þingið að samþykkja fyrir sitt leyti. Pólitískt samkomulag fjármálaráðherra skiptir lykilmáli fyrir framvindu málsins. „Þetta er vissulega mjög mikilvægt skref,“ sagði Rehn.

Nýju reglurnar snúast um að haft sé eftirlit með tveimur meginþáttum: í fyrsta lagi ríkisfjárlögum hvers árs og í öðru lagi efnahagsstefnu viðkomandi ríkis, ekki aðeins eitt ár í senn heldur til langs tíma.

Fyrri þátturinn snýr að framkvæmd stöðugleika og vaxtarsáttmála evru-svæðisins sem kom fyrst til sögunnar árið 1997 en samkvæmt honum ber ríkjum að takmarka fjárlagahalla við 3% af landsframleiðslu og heildarhlutfall opinberra skulda við 60% af landsframleiðslu.

Sáttmálinn hefur um langan tíma sætt gagnrýni vegna þess hver erfitt er að framfylgja honum auk þess hafa mörg ríki, einkum stærri ríkin innan ESB eins og Frakkland og Þýskaland losað um sáttmálann eftir eigin þörfum.

Nýju reglurnar snúa meira að skuldsöfnun en ríkissjóðshallanum. Fari skuldasöfnun yfir 60% af landsframleiðslu ber ríkjum að lækka skuldir sína um 5% ári í þrjú ár. Séu ríki á evru-svæðinu fylgja nýjar markvissar refsiaðgerðir verði skuldabyrðin of þung. Þessi ríki verða að leggja til hliðar 0,2% af landsframleiðslu og geyma á vaxtalausum biðreikningi. Taki ríki sig ekki á í samræmi við kröfur framkvæmdastjórnarinnar og ráðsins verða þessir fjármunir gerðir upptækir sem sekt. Unnt er að endurtaka þetta uns fjárhæðin nemur 0,5% af landsframleiðslu.

Sé litið til þess hvað þetta þýðir í raun má taka Spán sem dæmi. Sekt af þessu tagi mundi nema 5,25 milljörðum evra fyrir Spánverja. Í Vigo í Galasíu á Spáni er nú verið að reisa nýjan spítala fyrir 315 milljónir evra. Alls væri unnt að reisa 16 slík sjúkrahús fyrir það fé, sem ESB-stofnanir í Brussel mundu hrifsa til sín ef Spánverjar næðu ekki tökum á skuldavanda sínum.

Samkvæmt upphaflegum reglum evru-svæðisins var aðeins unnt að beita fjárhagslegum refsingum ef meirihluti ráðherraráðsins samþykkti þær. Vegna hrossakaupa innan ráðsins vissu allir að hótanir um refsingu höfðu lítið gildi. Samkvæmt nýju reglunum verður sjálfkrafa gripið til refisaðgerða og þeim ekki hætt nema ráðherraráðið samþykki að hverfa frá þeim.

Benelux-löndunum þótti þessi regla ekki nógu ströng, hún beindist einkum að smáríkjum, því að hinir stóru gætu alltaf fundið leið til að losna undan refsingu. Didier Reynders, fjármálaráðherra Belga, sagði á blaðamannafundi að hann vonaði að ESB-þingið sæi til þess að meiri „sjálfvirkni“ gilti um refsingarnar.

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri evrunnar, lét einnig í ljós óánægju sína og sagði eftir fjármálaráðherrafundinn: „Umbætur á efnahagsstjórninni eru að okkar mati ónógar.“

Að því er varðar eftirlit með efnahagsstefnu einstakra ríkja og framkvæmd hennar mæla fjármálráðherrarnir með því að fylgst sé með nokkrum meginþáttum. Þar er um að ræða viðskiptahalla, „of há“ laun, skuldir einkaaðila og opinberar skuldir, fasteignabólur, „losaralega meðferð fjármuna“ og „ósjálfbæra neyslu“.

Hér kemur í raun allt til álita. Í textunum sem hafa verið kynntir er ekki um nákvæma skilgreiningu að ræða og framkvæmdastjórnin segir að ólík viðfangsefni kunni að krefjast athugunar á hverjum tíma. Það verður hlutverk framkvæmdastjórnarinnar í samvinnu við ráðherraráðið að ákveða hverju sinni að hverju skuli beina athygli innan viðkomandi ríkis.

Brjóti evru-ríki af sér getur það leitt til sekta, að þessu sinni 0,1% af landsframleiðslu árlega.

Málsvarar gegnsæis hafa þegar varað við hættunni af þessum áformum. Þeir hafa áhyggjur af því að almennir borgarar og fjölmiðlamenn fyrir utan þá sem sinna stjórnmálum í einstökum ríkjum hafi engin tök á að hafa auga með eftirliti af þessu tagi, tillögum um refsingu og síðan sektum, sem hafi svo djúpstæð áhrif á líf hundruð milljóna manna. Þessi vinna verði unnin af sérfræðingum og lögfræðingum bakvið luktar dyr framkvæmdastjórnarinnar og ráðsins.

Þá eru ekki allir hrifnir af frumvörpunum sex. Sony Kapoor, er einn af forstöðumönnum Re-Define, sem er hugveita á sviði hagfræði. Hann bar nýja eftirlits- og refsikerfið saman við það sem tíðkast á þessu sviði í Kína og sagði: „Leið ráðherraráðsins í því skyni að segja fyrir um efhagasþróunina gerir ráð fyrir svo miklum ríkisafskiptum af framvindu efnahagsmála að þau tíðkast ekki einu sinni í Kína, svo að ekki sé minnst á hin frjálsu markaðshagkerfi Evrópu.“

Staða ríkja innan ESB en utan evru-svæðisins eins og Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar hefur verið mjög til umræðu vegna þessara djúpstæðu breytinga. Á einu stigi málsins var staðan sú að evru-ríkin ræddu um sjálfstæða einingu sína innan ESB, þar sem framkvæmdastjórn ESB kæmi ekki einu sinni að málum. Þetta var eitur í beinum embættismanna framkvæmdastjórnarinnar og frumvörpin sex, sem koma frá henni gera að sjálfsögðu ráð fyrir lykilhlutverki hennar, enda sátu fjármálaráðherrar ESB-ríkjanna 27 fundinn í Brussel sem samþykkti frumvörpin sex hinn 15. mars.

Á breska þinginu og sérstaklega innan Íhaldsflokksins hafa þingmenn risið gegn öllum hugmyndum um að embættismenn frá Brussel hafi eitthvað um bresk fjárlög eða gerð þeirra að segja. Hvað sem því líður er litið þannig á að reglurnar í frumvöpunum sex, sem ekki snerta sektir og aðrar refsingar gagnvart evru-ríkjum, eigi við um Bretland. Breska þingið verði því að sætta sig við eftirlit frá Brussel með gerð og efni fjárlaga í Bretlandi. Að mati breskra stjórnarerindreka takmarka hinar nýju reglur fullveldi Bretlands.

Innan breska stjórnkerfisins starfar sjálfstæð stofnun, Office of Budget Responsibility, sem skal fylgjast með framkvæmd fjárlaga á sama hátt og mælt er fyrir um í nýju ESB-reglunum. Bresk stjórnvöld segja því að þau gefi ekkert vald frá sér, þrátt fyrir ESB-afskipti. Þau séu þegar háð ströngu eftirliti og starfi í samræmi við reglur þess. Á það er hins vegar bent, að málið snúist ekki um þetta heldur grundvallarviðhorf: „Við samþykkjum ekki að ESB gefi okkur fyrirmæli,“ segir heimildarmaður í London.

Breskir stjórnarerindrekar telja að þeir hafi náð markverðum árangri við hagsmunagæslu í þágu Bretlands með því að koma sögninni „endeavour“ eða „kappkosta, leggja sig fram um“ inn í texta sem snýr að Bretlandi. ESB-ríki verða almennt að „avoid“ eða „forðast, komast hjá“ halla á ríkisfjármálum umfram ESB-reglur. Bretar þurfa hins vegar aðeins að „endeavour to avoid“ eða „leggja sig fram um að komast hjá“ fjárlagahallanum. Þetta túlka Bretar á þann veg að þeir séu lausir undan fjárlagaeftirliti ESB.

Talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar sagði við EUobserver: „Við fengum nákvæmlega það sem við vildum, framkvæmd í samræmi við nýjar fjárlagareglur ESB, án þess að hún bindi Bretland.“

Staðan er hins vegar flóknari í Danmörku. Danir eru utan evru-svæðisins eins og Bretar og þeir hafa einnig sett fyrirvara gagnvart ákvörðunum ESB á ýmsum sviðum. Danir virðast hins vegar ekki hafa gert neina tilraun til að ná fram „sérlausn“ að þessu sinni, ef marka má danskan stjórnarerindreka.

Svíar, Pólverjar og þjóðir í A-Evrópu utan evru-svæðisins eru á sama báti og evru-ríkin að öðru leyti en því að þær verða ekki beittar sektum.

„Leiðtogar ESB-ríkjanna og ESB-þingið hafa ekki enn samþykkt frumvörpin sex, ESB hefur gjörbreyst nema gerðar verði óvæntar breytingar á frumvarpstextunum,“ segir Leigh Phillips hjá EUobserver í lok greinar sinnar.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS