Sunnudagurinn 28. febrúar 2021

Óheiðarlegt að fórna tíma og peningum í ESB-viðræður

segir Sindri Sigurgeirsson, formaður Lands­samtaka sauðfjárbænda


7. apríl 2011 klukkan 16:13
Sindri Sigurgeirsson

„Það er óheiðarlegt af okkur Íslendingum gagnvart aðildarríkjum ESB að fórna tíma og peningum okkar og þeirra í könnunarviðræður um samning sem þjóðin kærir sig ekki um,“ sagði Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, í setningarræðu á aðalfundi samtakanna í Bændahöllinni 7. apríl. hann taldi að vísu rangnefni að segja að í viðræðunum fælist „könnun“ því að ESB gerði kröfu um aðlögun að skilyrðum þess á viðræðutímanum.

Sindri taldi ekki óeðlilegt að ESB setti fram slíkt skilyrði gagnvart umsóknarríki. Hitt væri verra ef stjórnvöld viðkomandi ríkis stunduðu blekkingarleik í tengslum við umsóknina. Hann sagði:

„Enda er ekki óeðlilegt af hálfu ESB að gera kröfur um aðlögun ríkja sem hafa sótt um aðild, enda gera þeir ráð fyrir því að slíkri aðildarumsókn fylgi þjóðarvilji um að ganga inni í ESB eins og það er hverju sinni. Slíkt á ekki við um Íslendinga sem vilja kíkja í pakkann og sjá svo til. Þjóðinni er svo talin trú um að hægt sé að fá varanlegar undanþágur alveg hægri vinstri.“

Sindri vék orðum að ríkisstjórninni og sagði:

„Hún nefnir sig norræna velferðarstjórn og er laustengt bandalag þingmanna Samfylkingar og hluta þingmanna Vinstri grænna. Þessir lýðsins leiðsögumenn hafa kosið að breiða yfir eigið úrræðaleysi með því að benda á betri tíð og blóm í haga í örmum Evrópusambandsins. Vandamálið er hins vegar að þjóðin er ósammála og er andsnúin aðild að ESB, slíkt hafa allar skoðanakannanir síðustu missera sýnt. En allt kemur fyrir ekki! Utanríkisráðherra rekur málið áfram, enda að eigin sögn, vanur að reka Rauðaneskýrnar á sínum yngri árum.

Það er fróðlegt að sjá hæstvirtan utanríkisráðherra gera tilraunir til að neita því að aðlögun sé nauðsynlegur hluti af viðræðuferlinu.“

Í ræðu Sindra kom fram, að Bændasamtök Íslands hefðu tekið á móti nokkrum sendinefndum frá framkvæmdastjórn ESB, meðal annarra forstöðumönnum sænsku og þýsku landbúnaðarstofnananna. Þeir hefðu báðir sagt að umsóknarríki yrði að hafa allt í stjórnkerfi sínu að ósk ESB frá fyrsta degi aðildar. Svíinn hafi talið óhjákvæmilegt að hefja aðlögun hér á landi þegar í stað og þyrfti til dæmis að koma fót landupplýsingakerfi í samræmi við ESB-kröfur. Þjóðverjinn sagði að án slíks kerfis fengist ekkert fé úr landbúnaðarsjóðum ESB. „Ekkert system, enginn peningur“ málið væri ekki flóknara.

Sindri minnti á að Bændasamtök Íslands hefðu lagt fram varnarlínur sem einskonar samningsmarkmið í landbúnaðarmálum. Stjórnvöldum væri því ekkert að „vanbúnaði að láta reyna á samninga um landbúnaðarmál“ væri þeim „einhver alvara um að standa vörð um hagsmuni landbúnaðar“.

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda sagðist því miður ekki bjartsýnn á að hugur fylgdi máli hjá ríkisstjórninni. Skýrasta vísbendingin um það væri skipun samningahóps um landbúnaðarmál. Hann væri ekki líklegur til að standa allur og samstiga vörð um íslenskan landbúnað. Af nærri þrjátíu fulltrúum væru aðeins þrír frá Bændasamtökum Íslands en aðrir væru ýmist fulltrúar ríkisstofnana, ráðuneyta, sveitarfélaga eða hagsmunasamtaka eins og Neytendasamtaka Íslands og Alþýðusambands Íslands.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS