Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakka, sætir nú lögreglurannsókn vegna afskipta sinna af uppgjöri franska ríkisins við Bernard Tapie, einn umdeildasta stjórnmála- og kaupsýslumann í Frakklandi.
Eva Joly, ESB-þingmaður og hugsanlegur forsetaframbjóðandi franskra græningja í forsetakosningunum 2012, segir að Lagarde kunni að hafa fengið „fyrirmæli“ frá Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, um að gera upp við Tapie. Hún segir að samkomulagið við Tapie hafi verið óeðlilegt og rannsaka verði tildrög þess. „Þetta gæti verið spillingarmál,“ segir Joly.
Christine Lagarde (55 ára) nýtur virðingar fyrir störf sín sem fjármálaráðherra langt út fyrir Frakkland. Hún birtist oft í sjónvarpsviðtölum í Bandaríkjunum og Bretlandi. Enskukunnátta hennar mótast meðal annars af því að hún starfaði á sínum tíma sem lögfræðingur í Chicago. Í minningum sínum um bankahrunið 2008 ber Árni M. Mathiesen, þáv. fjármálaráðherra, Lagarde vel söguna. Hún gegndi þá formennsku í hópi fjármálaráðherra ESB-ríkjanna.
Bernard Tapie á að baki ævintýranlegan feril í viðskiptum og stjórnmálum og hefur löngum verið meðal þeirra sem setja mestan svip á fréttir franskra fjölmiðla. Hann var um tíma eigandi knattspyrnufélagsins Marseille, forstjóri Adidas og ráðherra þéttbýlismála í vinstristjórn Francois Mitterrand. Hann sat sjö mánuði í fangelsi fyrir að semja um úrslit í kappleik, hefur verið sakfelldur fyrir skattsvik en hefur náð því að komast að nýju í sviðsljósið sem leikari, söngvari, stjórnandi spjallþátta og stuðningsmaður Nicolas Sarkozys.
Tapie hélt því fram að Credit Lyonnais-bankinn hefði svindlað á sér árið 1993 í tengslum við söluna á Adidas. Credit Lyonnais var í eigu ríkisins, bankanum var lokað og skuldbindingar hans féllu undir aðila á vegum ríkisins.
Lagarde hóf afskipti af deilum Tapies við franska ríkið árið 2007 og batt enda á málaferli með því að fela gerðardómi að fjalla um málið. Hann komst að þeirri niðurstöðu árið 2008 að Tapie skyldu greiddar 285 milljónir evra, um 5,4 milljarðar króna, í skaðabætur. Stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu niðurstöðuna og töldu hana hneyksli. Lagarde reyndi að slá á gagnrýnina með því að segja að eftir skatta og uppgjör skulda fengi Tapie ekki meira en 30 milljónir evra, 560 milljónir kóna, í sinn hlut. Síðar hefur komið í ljós að fjárhæðin er nær 200 milljónum evra, um fjórir milljarðar króna.
Sósíalistar sökuðu Lagarde um að hafa haldið rangt á málum með afskiptum sínum og kröfðust alhliða rannsóknar. Jean-Louis Nadal saksóknari hefur nú gefið fyrirmæli um lögreglurannsókn á hlut Lagarde. Hann segir að ýmislegt veki grunsemdir um ranga málsmeðferð við lausn deilunnar við Tapie sem gæti jafngilt „valdníðslu“. Hann telur að ekki hefði átt að leysa málið sem einkamál þar sem um opinbera fjármuni hafi verið um að ræða.
Christine Lagarde telur að vegið sé að mannorði sínu að ósekju. Hún sagði við Le Figaro í París: „Þetta er tilraun til að sverta orspor mitt.“ Sósíalistar reyndu að strika yfir þá staðreynd að Tapie-málið ætti rætur í Mitterrand-tímanum þegar þeir voru viö völd. Hún sagði: „Ég hef ávallt gætt aðhalds og gegnsæis með eitt að leiðarljósi: almannahagsmuni.“ Málið raskaði ekki ró sinni frekar en annað sem við væri að fást. Hún ætti „óskoraðan“ stuðning ríkisstjórnarinnar.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.