Laugardagurinn 27. febrúar 2021

Leiðtogar evru-ríkja auka lán til Grikkja, rýmka svigrúm neyðar­sjóðs og knýja banka til að afskrifa lán


21. júlí 2011 klukkan 21:21

Leiðtogar evru-ríkjanna hafa komist að nýju samkomulagi um lausn á skuldavanda Grikkja og til bjargar evrunni á fundi sínum í Brussel fimmtudaginn 21. júlí. Niðurstaða fundarins felur í sér afskrift á skuldum og að valdsvið neyðarsjóðs evrunnar aukist.

George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, fagna niðurstöðu leiðtogaráðs ESB 21. júlí 2011.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, segir að nýju aðgerðirnar feli í fyrsta sinn í sér að bankar og aðrar einkareknar lánastofnanir taka þátt í þeim. Með því hafa Frakkar og Seðlabanki Evrópu látið undan kröfum Þjóðverja um það efni.

Gert er ráð fyrir að vextir á lánum Grikkja verði 3,5% og lánstími verði lengdur úr 7,5 árum í 15 ár og jafnvel allt að 30 árum. Nú greiða 4,5 til 5,8% af lánum sem þeim hafa verið veitt til að leysa skuldavanda þeirra. Leiðtogarnir samþykktu að veita Grikkjum nýtt 109 milljarða evra neyðarlán. Að auki leggja bankar 50 milljarða evra af mörkum þannig að alls fá Grikkir 159 milljarða evra.

Hin nýju og betri lánskjör verða látin gilda um fyrra neyðarlán Grikkja og einnig neyðarlán sem hafa verið veitt til Írlands og Portúgals.

Eitt lykilatriða samþykktar leiðtoganna er að Evrópski neyðarsjóðurinn (European Financial Stability Facility (EFSF)) fái víðtækara hlutverk en áður svo að hann hafi meira svigrúm til aðgerða en áður. Nú er heimild til að veita lán úr sjóðnum til að koma í veg fyrir skuldakreppu, kaupa ríkisskuldabréf á almennum markaði til að halda vöxtum í skefjum og endurfjármagna banka á evrusvæðinu sem lenda í vandræðum.

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði: „Umbætur á EFSF gera sjóðinn sveigjanlegri og virkari en áður. Við þurfum ekki lengur að bíða eftir að umtalsvert tjón verði áður við látum að okkur kveða.“

Stóru matsfyrirtækin hafa varað við því að það jafngildi takmörkuðu greiðslufalli hjá Grikkjum ef bankar og aðrar einkareknar lánastofnanir verði látnar taka þátt í að leysa skuldavanda Grikkja. Þá óttast jafnframt margir að bankar verði neyddir til að leggja fé af mörkum til að bjarga öðrum skuldsettum evru-löndum.

Í yfirlýsingu fundarins segir: „Grikkland er í einstaklega erfiðri stöðu á evru-svæðinu.“ Með vísan til þessa rökstyðja ráðherrarnir sérstakar ráðstafanir til að bjarga Grikklandi. Herman van Rompuy sagði: „Þátttaka einkaaðila einskorðast við Grikkland og aðeins Grikkland.“

Fjármálamarkaðir styrktust vegna niðurstöðu fundarins. Hlutabréf í bönkum hækkuðu.

Jan Kees de Jager, fjármálaráðherra Hollands, hafði hvatt til þess ásamt Þjóðverjum að bankar og lánastofnanir tækju á sig „takmarkaðan hluta“ kostnaðarins við að leysa skuldavanda Grikkja. Hann sagði að andmælum Frakka við þeim aðgerðum hefði verið „sópað undir teppið“.

Frakkar og Seðlabanki Evrópu hafa til þessa lagst gegn afskriftum á lánum einkaaðila af ótta við að það mundi leiða til keðjuverkana innan evrópska bankakerfisins og ýta Spáni og hugsanlega Ítalíu fram af brúninni og jafnvel ógnað greiðslugetu sjálfs Seðlabanka Evrópu.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS