Krafa um brottvísun Grikkja af evri-svæðinu magnast í Þýskalandi
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í þýska þinginu miðvikudaginn 7. september, eftir að þýski stjórnlagadómstóllinn hafði hafnað kröfu um að ógilda neyðarlán Þjóðverja til að bjarga Grikklandi og evrunni, að dómurinn sýndi að ríkisstjórn sín hefði haft rétt fyrir sér og tilvist evrunnar hefði meira gildi en fælist í sameiginlegri mynt.
„Evran er trygging fyrir sameinaðri Evrópu. Falli evran, fellur Evrópa,“ sagði kanslari en innan þýsku stjórnarflokkanna verða þær raddir sífellt háværari sem krefjast þess að Grikkjum verði vísað úr evru-samstarfinu. Leiðtogi kristilegra í Bæjaralandi, stuðningsflokks Merkel, segir að hann „útiloki ekki“ brottvísun Grikkja.
Þýski stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe komst að þeirri niðurstöðu miðvikudaginn 7. september að loforð þýskra stjórnvalda um aðstoð til að takast á við vandann á evru-svæðinu stæðust lög en hvatti ríkisstjórnina jafnframt til meira samráðs við þingið áður en slík loforð eru gefin. Framvegis eigi fjárlaganefnd neðri deilar þingsins, Bundestag, að gefa grænt ljós áður en hvers konar „mjög mikilvæg“ aðstoð er samþykkt af Þýsklandi. Þjóðverjar leggja mest af mörkum til allra evrópskra neyðarlán, segir í dóminum sem beðið hafði verið með mikilli eftirvæntingu.
Í niðurstöðum dómstólsins er lagt bann við að því að ríkisstjórnin fallist á samninga um ábyrgð á skuldum þegar erfitt sé að átta sig á því til hvers ábyrgðin kunni að leiða. Talið er að orðalag dómaranna um þetta efni sé til stuðnings sjónarmiðum þeirra sem eru andvígir útgáfu sameiginlegra skuldabréfa í nafni evru-ríkjanna, evru-skuldabréfa eða eurobonds.
Málinu var skotið til lögvitringanna í Karlsruhe í maí 2010 af hópi efasemdarmanna meðal lögmanna og vísuðu þeir til atkvæðagreiðslu um fyrstu neyðaraðstoðina við Grikkland. Málshefjendur voru fimm prófessorar og einn þingmaður kristilegra í Bæjaralandi. Fimm þeirra reyndu á sínum tíma árangurslaust að hindra upptöku á sameiginlegri evrópskri mynt.
Frá því að neyðarlánið var veitt til Grikklands hafa ríkisstjórnir evru-ríkjanna veitt Írum og Portúgölum sambærilega aðstoð. Þjóðverjar sem eru ríkasta þjóðin á evru-svæðinu standa á bakvið meira en fjórðung af þessum lánum.
Andreas Vosskuhle, forseti dómsins, sagði þegar hann kynnti niðurstöðuna að ekki yrði um neinar „sjálfkrafa“ greiðslur úr ríkissjóði að ræða. Ekki mætti skilja afstöðu dómaranna á þann veg að þeir hefðu gefið út auðan tékka sem fylla mætti út eftir þörfum vegna neyðaraðstoðar. „Þingræðislegar ákvarðanir um skatta og gjöld eru kjarnaatriði í lýðræðislegri sjálfsstjórn samkvæmt stjórnarskránni,“ sagði hann. „Sem fulltrúar þjóðarinnar fara kjörnir þingmenn áfram með eftirlit með öllum fjárlagaákvörðunum.“
Neðri deild þýska þingsins, Bundestag, mun 29. september greiða atkvæði um aukið fé til evrópska neyðarsjóðsins sem hefur það hlutverk að létta undir vandræðaríkjum á evru-svæðinu.
Talið er víst að tillaga Angelu Merkel um auknar fjárheimildir í þessu skyni njóti stuðnings meirihluta þingsins enda hefur stjórnarandstaðan lýst stuðningi við hana en hart er lagt að kanslaranum að tryggja meirihluta fyrir tillögunni meðal stjórnarliða sem eru 331 af 621 þingmanni í Bundestag. Með stækkun neyðarsjóðsins verða Þjóðverjar ábyrgir fyrir 211 milljörðum evra í stað 123 milljarða núna.
Philipp Rösler, varakanslari og leiðtogi frjálsra demókrata (FDP), telur „ómögulegt“ að útiloka Grikkland frá evru-svæðinu. Hann sagði þetta blaðamannafundi miðvikudaginn 7. september og brást þannig við kröfum sem verða háværari í Þýsklandi um brottvísun þeirra evru-ríkja sem hafi ekki stjórn á eigin efnahagsmálum. Rösler sem einnig er efnahagsmálaráðherra Þýskalands snýst með þessu gegn sjónarmiðum þingmanna í eigin flokki og viðhorfum sem setja æ meiri svip á málflutning þingmanna kristilegra (CDU/CSU) í flokki Angelu Merkel.
Horst Seehofer, leiðtogi kristilegra í Bæjaralandi (CSU), segir í viðtali sem birtist í Bild miðvikudaginn 7. september að hann „útiloki ekki“ að Grikkland hverfi af evru-svæðinu. Undanfarna daga hefur þýska ríkisstjórnin hert málflutning sinn gegn stjórnvöldum í Aþenu, þar sem andstaða stjórnarþingmanna gegn frekari aðstoð til Grikkja hefur harnað.
Angela Merkel hefur lýst algjörri andstöðu við brottvísun Grikkja af evru-svæðinu og segir nú: „Falli evran, fellur Evrópa.“
Heimild: Le Monde, BBC
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.