Laugardagurinn 16. janúar 2021

Þolinmæði ESB í garð Íslendinga vegna markríls á þrotum - niðurstöðu krafist í október


Björn Bjarnason
17. október 2011 klukkan 18:04

Evrópusambandið leggur hart að Íslendingum að semja um makrílveiðar. Að mati sjávarútvegsdeildar framkvæmdastjórnar ESB eru síðustu forvöð að semja um vernd makrílsins nú í október annars er hætta á að gengið verði svo nærri stofninum að hann beri af því varanlegan skaða. Þolinmæði garð Íslendinga vegna makríls er á þrotum í Brussel.

ESB telur að Íslendingar hafi vísindalega ráðgjöf um verndun og viðgang makrílstofnsins að engu. Þeir ætli að eyðileggja hann á sama hátt og þeir eyðilögðu kolmunnastofninn á sínum tíma. Í samtölum við sérfróða menn og háttsetta innan stjórnkerfis ESB í Brussel hvort heldur hjá framkvæmdastjórninni eða ráðherraráðinu kemur fram að með framgöngu sinni við makrílveiðarnar spilli Íslendingar fyrir því áliti sem þeir vilji hafa um að þeir gangi betur um fiskstofna en aðrar þjóðir.

Einn viðmælanda minna sagði að miðað við þann vanda sem glímt væri við meðal fjögurra og fimm milljón manna þjóða eða stærri við vernd fiskstofna og stjórnun veiða þætti engum sérstaklega merkilegt að rúmlega 300 þúsund manna þjóð tækist að stjórna veiðum á þann veg að fiskstofnar eyddust ekki. Nú blasti hins vegar við á viðkvæmu stigi í aðildar- og aðlögunarferli Íslands að ESB að Íslendingar ætluðu að ganga að makrílstofninum dauðum. Þetta drægi úr áliti á þeim og græfi undan gildi yfirlýsinga um að þeir kynnu betur en aðrir að standa að verndun.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, er um þessar mundir á leið til Noregs til viðræðna við norsk yfirvöld um samstarf í sjávarútvegsmálum. Þegar ég spurði hvers vegna hún hefði ekki lagt leið sína til Íslands þótt hún hefði boðað heimsókn sína sumarið 2010 var svarað að við skyldum sjá hvað gerðist ef makríl-deilan leystist.

Ég vakti máls á því að fyrir ráðherrafundi sjávarútvegsráðherra ESB-ríkjanna mætti heyra yfirlýsingar frá Skotlandi, Írlandi og jafnvel Bretlandi um að ráðherrar þessara landa mundu krefjast þess á fundinum að gripið yrði til refsiaðgerða gegn Íslendingum og þeir ætluðu að sækja fast að Mariu Damanaki um aðgerðir af hálfu framkvæmdastjórnarinnar. Síðan gerðist lítið sem ekkert og sendiherra Íslands gagnvart ESB kæmi skömmu síðar af fundi með Mariu Damanaki og léti sem ástæðulaust væri að hafa áhyggjur af neinu varðandi makrílinn.

Viðbrögð við ummælum mínum í þessa veru voru að til þessa hefði verið sýnd þolinmæði í von um að Íslendingar sæju að sér. Nú væri hún á þrotum af því að Íslendingar ynnu varanlegt tjón á makrílstofninum og hefðu vísindalega ráðgjöf til verndar honum að engu. Það væri í raun óskiljanlegt að íslenskir stjórnmálamenn fylgdu þeirri stefnu sem þeir gerðu varðandi makrílveiðar, jafnvel heyrðust raddir frá íslenskum útgerðarmönnum sem teldu ranglega að málum staðið.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS