Föstudagurinn 15. janúar 2021

Er Merkel að takast það sem Bismarck, keisaranum og Hitler mistókst? spyr breskur kauphallarprestur


15. nóvember 2011 klukkan 21:40

Hvarvetna innan Evrópusambandsins verður vart gagnrýni á framgöngu forystumanna Þjóðverja og Frakka. Þeir þykja ganga fram með of mikilli afskiptasemi af innri málum annarra ríkja. Í franska blaðinu Le Monde kemur einnig fram 15. nóvember að stjórnarherrunum í Brussel, Herman Van Rompuy í leiðtogaráðinu og José Manuel Barroso í framkvæmdastjórninni, þyki orðið nóg um og að sér og völdum sínum vegið.

Til dæmis um tóninn í umræðunum í Bretlandi birtist hér grein eftir séra dr. Peter Mullen, rektor St Michael, Cornhill and St Sepulchre-without-Newgate í City of London. Hann er prestur kauphallarinnar, London Stock Exchange, og skrifar oft í blöð meðal annars The Wall Street Journal. Þessi grein hans birtist á vefsíðu breska blaðsins The Daily Telegraph 15. nóvember 2011.

Peter Mullen

„Eitt er að David Cameron segi, eins og hann gerði í kvöldverði hjá Lord Mayor [borgarstjóra City of London] að það “þjóni hagsmunum okkar„ að vera áfram í ESB. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort hann mundi segja að það þjónaði hagsmunum okkar að verða hluti af stærra Þýskalandi?

Eins og mál eru að þróast verður brátt um sama hlutinn að ræða. Angela Merkel sagði á mánudaginn að í Evrópu tækjust menn á við mesta vanda „frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar“. Hún sagði lausnina felast í „meira ESB ekki minna“.

Það þarf með öðrum orðum ekki að efast um markmið Þjóðverja: í orðum Angelu Merkel felst ósk um sameinaða Evrópu, yfirríki, þar sem valdamesta og þar með ráðandi þjóðin yrði Þjóðverjar. Yfirríkið hefur verið í spilum boðenda þess og stofnenda frá upphafi – þrátt fyrir ósannindin sem við höfum mátt heyra í áranna rás frá mönnum eins og Edward Heath, Neil Kinnock og Michael Heseltine. Þessir föðurlegu Evrukratar sáu þó vissulega ekki fyrir sér að þessari róttæku nýsköpun yrði stjórnað af Þjóðverjum. Hið kaldhæðnislega er að þeir hafa einmitt náð því sem þeir reyndu svo ákaft að hindra.

Þrisvar sinnum í síðari tíma sögu hefur Þjóðverjum næstum tekist að ná yfirráðum í Evrópu: árið 1870 undir Bismarck, 1914 undir keisaranum og enn á ný 1939 undir Adolf Hitler. Er Angelu Merkel að takast að beita fjármálalegu og efnahagslegu valdi á þann veg að hún nái því takmarki sem þessum mönnum mistókst að ná með vopnavaldi?

Ég minnist samtals sem ég átti við fall Berlínarmúrsins við skáldið og fyrrverandi háttsetta embættismanninn C H Sisson. Ég spurði hvað honum þætti um fall Sovétríkjanna og hann svaraði: „Góðar fréttir. Hitt er annað mál hvers vegna við höfum tekið okkur fyrir hendur að reisa eitthvað svipað í vestri og við erum nú einmitt að losna við í austri.“

Við höfum einmitt verið að gera þetta.

Evrukratarnir lofuðu okkur vörnum um alla álfuna gegn einræði fasista, við stefnum hins vegar hraðbyri til slíks einræðis. Allt bendir til þess að staðan verði mjög svipuð því sem var í sovéska hluta álfunnar í marga áratugi: við völd sitji ríkisstjórn sem ekki er skipuð kjörnum stjórnmálamönnum heldur kommissörum og teknókrötum sem enginn hefur kosið. Á hvern annan hátt eigum við að skilja valið á þeim kerfiskörlum sem tilnefndir hafa verið í embætti forsætisráðherra í Grikklandi og Ítalíu?

Þegar þetta er að gerast notar Dave kvöldverðinn til að þvaðra um þörfina á því að pólitískt vald „flæði aftur“ til Bretlands frá ESB – eins og það muni gerast á jafn eðlilegan hátt og flóð og fjara. Meginkennisetning ESB er hins vegar sú að völd sem einu sinni hafa verið tekin af þjóðríki í Evrópu megi aldrei hverfa til þess aftur.

Enn á ný standa Bretar einir. Við þörfnumst ekki núna – að minnsta kosti ekki enn þá – Spitfire-flugvéla: við þörfnumst þjóðaratkvæðagreiðslu um þátttöku okkar í þessu einræði skriffinnskunnar.“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS