Þótt aðeins séu þrír dagar liðnir frá því að nýi evru-samningurinn var kynntur blasir við að hann kemur ekki til sögunnar fyrr en eftir harðar deilur hvort sem litið er til lögfræðilegra eða stjórnmálalegra þátta. Sagt er að bresk stjórnvöld undirbúi málssókn vegna hans fyrir dómstólum og franskir sósíalistar segjast ætla að kasta honum fyrir róða vinni þeir forsetakosningarnar í Frakklandi í apríl 2012.
Þetta kemur fram í yfirliti frönsku fréttastofunnar AFP um þróun mála frá því að skýrt var frá samningnum föstudaginn 9. desember að loknum fundi leiðtogaráðs ESB í Brussel. Fréttastofan segir að vegna samningsins sem miðar að því að samhæfa ríkisfjármálastjórn og efnahagsstefnu innan ESB séu menn teknir til við að ræða um „Evrópusambandið II“.
Samningurinn var samþykktur af 26 ríkjum í „ESB I“ eftir að Bretar sögðu sig frá honum. Unnið verður að útfærslu á samningnum fram að leiðtogafundi í mars 2012.
„Það eru mörg grá svæði,“ viðurkenndi ESB-stjórnarerindreki í samtali við AFP. „ESB á hins vegar marga frábæra lögfræðinga og ég er viss um að þeir hafa tekið til við að setja þetta í búning.“
Í aðdraganda leiðtogafundarins var sagt að þar yrði um þáttaskil að ræða í málefnum evrunnar. Að fundinum loknum hefur ekki komið fram nein hrifning á mörkuðum vegna hins verðandi samnings. Mörgum hrýs hugur við því að nú taki menn til við það innan ESB og aðildarríkjanna að deila um lagaákvæði og túlkun þeirra. Slíkar deilur muni ekki auka traust á evrunni eða ESB.
David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagði í neðri málstofu breska þingsins 12. desember að ríkisstjórn hans mundi fylgjast náið með því hvort aðilar hins nýja samnings hafi heimild til að nýta sér stofnanir ESB – eins og framkvæmdastjórn ESB eða ESB-dómstólinn – til að glíma við vanda á evru-svæðinu.
Háttsettur embættismaður ESB, sem vildi ekki láta nafns síns getið, sagði að innan lagaþjónustu ESB væru skiptar skoðanir um þetta. „Sumir óttast að Bretar kunni að leggja fram kvörtun vegna þessa,“ sagði hann við AFP. Cameron hefði ekki beint hótað lögsókn á leiðtogafundinum en gefið til kynna að Bretar litu á þetta sem vandamál.
Hugveitan European Policy Centre í Brussel hefur birt langa skýrslu um hinn nýja samning. Þar segir að skoða verði marga þætti varðandi „efni, lagareglur og fullgildingu/gildistöku“ hins nýja samnings, sem yrði milliríkjasamningur utan sáttmálaramma ESB, það er Lissabon-sáttmálans, að minnsta kosti í fyrstu atrennu.
Nauðsynlegt verður að taka afstöðu til þess hver verði staða allt að níu ríkja utan evru-svæðisins samkvæmt evru-samningnum, hvort þau hefðu stöðu áheyrnarfulltrúa eða þátttakenda; hvort núverandi ESB-stofnanir, þar á meðal ESB-þingið, kæmu að málum; hvernig tengja ætti samninginn Lissabon-sáttmálanum.
Framkvæmdastjórn ESB kynnti mánudaginn 12. desember ný ESB-lög um meiri aga í ríkisfjármálum. Hníga þau í sömu átt og ákvæði samningsins frá 9. desember.
Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, sagði að nýju reglurnar sem lægju fyrir frá og með þriðjudeginum 13. desember væru ekki að „öllu leyti sambærilegar“ ríkisfjármálasamningnum sem setja á í búning næstu mánuði. Hann sagði að í þeim væri ekki að finna kröfu um stjórnarskrárbundið ákvæði til að takmarka halla á fjárlögum.
Evru-samningurinn kemur ekki til sögunnar nema þjóðþing samþykki hann eða þjóðir í atkvæðagreiðslu. Talið er að deilur verði um þessi skref í mörgum ESB-ríkjum, þar á meðal Svíþjóð, Danmörku og Írlandi.
François Hollande, forsetaframbjóðandi franskra sósíalista, sem talinn er líklegur sigurvegari í kosningunum vorið 2012. segist ætla að endurskoða ríkisfjármálasamninginn sem hefur verið kynntur.
Hollande sagði að næði hann kjöri mundi hann sannfæra ríkin innan ESB um nauðsyn þess að gefa út evru-skuldabréf til að skapa sameiginlegan bakhjarl vegna skulda evru-ríkjanna, þá vildi hann að Seðlabanki Evrópu léti meira að sér kveða.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.