Christian Wulff, forseti Þýskalands, á mjög í vök að verjast vegna ásakana um óeðlileg tengsl hans við fésýslumenn áður en hann var kjörinn forseti. Þriðjudaginn 20. desember birtust nýjar ásakanir á forsetann í þessa veru.
Undanfarna daga hefur forsetinn sætt gagnrýni fyrir að hafa tekið á laun einkalán hjá auðugum hjónum til að fjármagna húsnæðiskaup sín. Nú hefur fjöldablaðið Bild birt frétt þess efnis að Carsten Maschmeyer, þjóðkunnur auðmaður, hafi fjármagnað kynningu á bók sem forsetinn skrifaði.
Carsten Maschmeyer er sagður hafa greitt 43.000 evrur árið 2008 til að kosta auglýsingar á bókinni „Betra að segja sannleikann“ sem skipti miklu um afstöðu kjósenda þegar Wulff náði endurkjöri sem forsætisráðherra í Neðra-Saxlandi. Carsten Maschmeyer segir að forsetinn hafi ekki vitað um fjárstuðninginn við bókarkynninguna en í bókinni lýsir Wulff þáttum í einkalífi sínu og opinberum störfum.
Wulff hefur staðið í ströngu við að verjast ágjöf eftir að hann viðurkenndi að hafa látið undir höfuð leggjast að skýra frá 500.000 evra láni sem hann fékk frá eiginkonu auðugs, þýsks athafnamanns, Egon Geerkens, árið 2008 til að fjármagna kaup á einbýlishúsi sínu. Geerkens er gamall fjölskylduvinur.
Erwin Lotter, þingmaður frjálslyndra, hvatti Wulff til að segja af sér forsetaembætti sunnudaginn 18. desember. Angela Merkel kanslari hefur á hinn bóginn lýst stuðningi við Þýskalandsforseta. Sabine Leutheusser-Schnarrenberger dómsmálaráðherra sagði við ARD-sjónvarpsstöðina þriðjudaginn 20. desember að hún væri viss um að forsetinn gæti gefið fullnægjandi skýringar vegna nýjustu ásakananna.
Landsþing Neðra-Saxlands kallaði þriðjudaginn 20. desember saman sérstakan fund í öldungaráði sínu til að kanna hvort Wulff hefði brotið lög um ráðherra sem banna þeim að taka á móti gjöfum í tengslum við embættissetu sína. Ráðið komst ekki að neinni niðurstöðu.
Fimmtudaginn 15. desember viðurkenndi Wulff að hann hefði gefið „ranga hugmynd“ um fjármálatengsl sín við Egon Geerkens og konu hans þegar hann svarði spurningum þingmanna græningja sem sátu í stjórnarandstöðu árið 2010. Þá neitaði hann að hafa átt nokkur viðskiptatengsl við Geerkens.
Lögfræðingur í Berlín hefur nú veitt fjölmiðlamönnum aðgang að skjölum vegna lánsins.
Öldungaráðið ætlaði einnig að kanna hvort eitthvað athugavert væri við frídaga sem forsetinn naut í heimilum auðugra athafnamanna á sama tíma og hann gegndi embætti forsætisráðherra Neðra Saxlands. Forsetinn sendi sunnudaginn 18. desember frá sér skrá sem sýndi að hann hefði varið sex frídögum á Spáni, Ítalíu, í Flórída og á þýsku eyjunni Norderney á árunum 2003 til 2010.
Þrátt fyrir ásakanir í garð þýska forsetann sýnir könnun á vegum ARD-sjónvarpsstöðvarinnar sem sagt var frá mánudaginn 19. desember að 70% Þjóðverja telja ástæðulaus fyrir Wulff að segja af sér embætti, þótt aðeins 51% töldu hann „trúverðugan“.
Heimild: Deutsche Welle, Charlotte Chelsom-Pill.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.