Miðvikudagurinn 21. apríl 2021

ESB-þingmaður: Við erum að skapa ófreskju með evru-samningnum


21. desember 2011 klukkan 10:03

„Við erum á góðri leið með að skapa ófreskju,“ sagði ESB-þingmaður sem sat sérfræðingafund í Brussel þriðjudaginn 20. desember um hinn nýja evru-samning. Boðað hefur verið til leiðtogafundar ESB-ríkjanna í Brussel 30. janúar 2012 til að fara yfir stöðuna í viðræðum um ríkisfjármálasambandið sem er í mótun.

Sylvie Goulard

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, kynnti næsta leiðtogafund í myndávarpi sem sent var til ESB-ríkjanna 27 eftir að sérfræðingar landanna höfðu setið yfir textum hins nýja evru-samnings.

Um 100 fulltrúar hafa verið tilnefndir af aðildarríkjunum og ESB-þinginu ( 3 frá hverjum aðila) til að ræða nýja samninginn. Meðal þátttakenda eru „áheyrnarfulltrúar“ frá Bretlandi en ríkisstjórn Davids Camerons sagði skilið við evru-ríkin vegna hins nýja samnings hinn 9. desember. Hlutverk bresku fulltrúanna er að gæta þess að ekki sé farið inn á hið sameiginlega svið ESB-ríkjanna með hinum nýja samningi.

Sylvie Goulard, ESB-þingmaður frá Frakklandi, fulltrúi þingflokks frjálslyndra, sagði að viðræðurnar hefðu ekki farið vel af stað. Hún sagði: „Að breyta Evrópusambandinu í reiðan föður sem skammar börnin sín er reginvitleysa.“ Meðan þetta væri stefnan mundi hún ekki samþykkja þá texta sem kæmu frá Van Rompuy og starfsmönnum hans.

Í textunum er gert ráð fyrir því að hvert ESB-ríki sem gerist aðili að samningnum geti kært annað ríki að samningnum fyrir ESB-dómstólnum ef viðkomandi ríki fullnægir ekki þeim skilyrðum sem öllum ríkjunum eru sett með kröfu um jafnvægi í ríkisfjármálum.

„Ég sé mig ekki í þeim sporum að ég muni kæra samaðila mína að ESB sem haga sér á þennan hátt;“ sagði Goulard. „Sé sagt ‚annað hvort ESB eða lýðræði‘ mótmæli ég. Við erum á góðri leið með að skapa ófreskju. Mun samningur af þessu tagi vekja traust hjá nokkrum Kínverja eða Bandaríkjamanni?“

Í frétt AFP um fundinn í Brussel segir að ESB sæti vaxandi gagnrýni frá lýðræðissinnum sem segi að sambandið hafi lýðræðisreglur og eftirlit að engu. Því til staðfestingar megi benda á ríkisstjórnir Girkklands og Ítalíu þar sem embættismenn hafi sest að völdum til að hrinda niðurskurðarkröfum Brussel-valdsins í framkvæmd

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS