Föstudagurinn 22. janúar 2021

Diana Wallis hættir á ESB-þinginu - hvatti mjög til ESB-aðildar Íslands - eiginmaðurinn tekur sæti hennar


20. janúar 2012 klukkan 17:47

Diana Wallis, ESB-þingmaður frá Bretlandi, hefur sagt af sér þingmennsku eftir að hún varð undir í forsetakjöri á þinginu þriðjudaginn 17. janúar. Afsagnaryfirlýsing hennar kom samflokksmönnum hennar og öðrum ESB-þingmönnum í opna skjöldu fimmtudaginn 19. janúar.

Össur Skarphéðinsson og Diana Wallis.

Diana Wallis hefur látið sig aðild Íslands að ESB miklu skipta og komið hingað til lands oftar en einu sinni. Hún var til dæmis gestur Smáríkjastofnunar Háskóla Íslands í febrúar 2010 og flutti þá erindi um stöðu smáríkja innan ESB eftir gildistöku Lissabon-sáttmálans. Lýsti hún jafnframt stuðningi við aðild Íslands að ESB með heimsókn til samtakanna Sterkara Ísland sem berjast fyrir ESB-aðild.

Eftir að alþingi samþykkti ESB-aðildarumsóknina 16. júlí 2009 sendi Diana Wallis frá sér fréttatilkynningu þar sem hún fagnaði niðurstöðunni enda hefði hún í mörg ár hvatt EES-ríki til að ganga í ESB. Hún sagði að fjármálakreppan leiddi fram bestu rökin til að leita öryggis innan ESB: „Þegar hnattrænir fjármálastormar geysa um alla jarðarkringluna borgar sig að vera hluti af stærra gjaldmiðlasvæði þar samstaða og sameiginlegur ríkisfjármálaagi ríkir,“ sagði í yfirlýsingu hennar. Nú hljómar boðskapur eins og þessi sem öfugmæli í ljósi evru-vandans. Taldi Wallis að veiking íslensku krónunnar hefði ráðið úrslitum um að meirihluti alþingismanna ákvað að samþykkja aðildarumsóknina. Spáði hún að Ísland yrði aðili að ESB árið 2012.

Diana Wallis var ein af varaforsetum ESB-þingsins og bauð sig fram til forseta fyrir hönd þingflokks frjálslyndra þegar þýski jafnaðamaðurinn Martin Schulz náði kjöri vegna samnings milli jafnaðarmanna og mið-hægrimanna á þinginu.

Wallis hefur setið á ESB-þinginu í 12 ár kjörin á lista Frjálslynda flokksins í Yorkshire og á Humber-svæðinu í Englandi. Við sæti hennar á þinginu tekur annar maður á lista flokksins, það er enginn annar en eiginmaður hennar, Stewart Arnold.

Godfrey Bloom, ESB-þingmaður breskra sjálfstæðissinna, UKIP, hefur kennt ákvörðun Wallis við „nepótisma“, það er að hún sé að hygla eigin fjölskyldu.

Í tilkynningu sem Wallis birti á vefsíðu sinni um afsögnina sagði hún það hafa verið „gífurleg sérréttindi“ að njóta þess trausts að sitja á ESB-þinginu. Allir yrðu þó jafnan að huga að breytingum. Nú væri rétti tíminn fyrir sig að huga að eigin stöðu eftir að hafa tapað í forsetakjörinu en að því embætti hefði hún stefnt af djúpri sannfæringu.

Hún situr sem þingmaður til 31. janúar þegar eiginmaður hennar tekur sæti hennar. Hann gerir það samkvæmt þeirri reglu að næsti maður á framboðslista taki við af þeim sem framar er á listanum þurfi hann að víkja af þingi hverjar sem ástæður þess eru.

Godfrey Bloom minnti á að frjálslyndir létu aldrei hjá líða að tala um kvennakvóta en ekki væri minnst einu orði á hann núna við brottför Diönu Wallis.

Denis MacShane, sem situr nú sem óháður þingmaður á breska þinginu en var áður Evrópumálaráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins, sagði vegna afsagnar Wallis: „Hvaða mat sem lagt er á aðferðir við að hygla eigin fjölskyldu er með öllu óviðunandi að einn þingmaður frjálslyndra strunsi út af ESB-þinginu eftir misheppnaða sjálfsupphafningu með framboði til þingforseta og losi á þann hátt þingsæti fyrir eiginmann sinn. Seta hans og hennar í vellaunuðu ESB-þingsæti breytir í farsa rétti Yorkshire-búa til velja sér þingmann.“

MacShane hvatti Nick Clegg, varaforsætisráðherra og leiðtoga frjálslyndra, til að „uppræta þessa vitleysu“.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS