Ágreiningur er innan ríkisstjórnarinnar hvernig standa beri að viðræðum við ESB fram til þingkosninga í apríl 2013. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hvatti til þess á fundi flokksráðs vinstri-grænna (VG) föstudaginn 24. febrúar að viðræðum við ESB yrði hraðað og þeim lokið fyrir lok kjörtímabilsins. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, tekur undir með Ögmundi. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra leggst hins vegar gegn því að viðræðunum við ESB verði hraðað. Sendiherra Íslands gagnvart ESB telur hraðan í viðræðunum „sanngjarnan“.
Ögmundur Jónasson segir í samtali við Morgunblaðið mánudaginn 27. febrúar að hann finni „fyrir gríðarlegum meðbyr“ með skoðun sinni um að ljúka ESB-viðræðunum fyrir lok kjörtímabilsins. „Meira að segja mjög ákafir aðildarsinnar segjast vera tilbúnir að skoða þessa leið ef hún gæti orðið til þess að setja niður deilur í landinu og verja betur íslenska hagsmuni,“ segir Ögmundur við Morgunblaðið.
Össur Skarphéðinsson bregst á hinn bóginn illa við skoðun Ögmundar. Hann sakar hann annars vegar um að hafa ekki komið í veg fyrir að „villikettir“ innan VG tefðu ekki málið og hins vegar um að vinna beinlínis gegn hagsmunnum þjóðarinnar. Össur segir í samtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu:
„Fyrst Ögmundur reisir þessa kröfu nú af svo miklum krafti þá hefði hann betur beitt sér innan villikattavængsins í VG ásamt vini sínum í utanríkisráðuneytinu til að flýta viðræðunum þannig að það væri hægt að ljúka þeim fyrir lok kjörtímabilsins. Satt að segja er það ekki í þágu hagsmuna Íslendinga þegar einn öflugasti ráðherra ríkisstjórnarinnar sendir ESB þau boð að ríkisstjórn Íslands sé til í að setja nafnið sitt undir nánast hvað sem er og henda því í þjóðaratkvæði. […]Jafnvel menn eins og Ögmundur verða að gera ráð fyrir þeim möguleika að samningurinn verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu - og þá þarf hann vitaskuld að vera sem allra bestur. Þyki Ögmundi seint ganga þekkir hann manna best ástæðuna fyrir því.“
Ummæli utanríkisráðherra um að tafir á ESB-viðræðum séu „villikötum“ innan VG að kenna ríma ekki við orð Þóris Ibsens, sendiherra Íslands gagnvart ESB, sem sagði við vefsíðuna EurAktiv föstudaginn 24. febrúar 2012 að Ísland væri ekki á hraðleið heldur „sanngjarnri leið“ inn í ESB.
Formaður ESB-viðræðunefndar Íslands, Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra, sagði í þættinum ESB: Nei eða já? á Útvarpi Sögu fimmtudaginn 23. febrúar 2012 að hann gæti engu spáð um lyktir viðræðnanna, þær réðust meðal annars af því hvort unnt yrði að hefja viðræður við ESB um sjávarútvegsmál haustið 2012, það væri hins vegar „mjög metnaðarfullt“ að stefna að lyktum viðræðnanna fyrir kosningar. ESB hefur mótað þá afstöðu að ræða ekki sjávarútvegsmál við Íslendinga fyrr en samkomulag hefði tekist innan ESB um nýja, sameiginlega sjávarútvegsstefnu.
Steingrímur J. Sigfússon sagði við RÚV 26. febrúar að mikilvægt væri að vita sem mest um það hvernig viðræðurnar stæðu tímanlega fyrir næstu alþingiskosningar. Hann sagði:
„Ég held að þeir [ESB] hafi skilning á því. Þetta er stóra málið í þessu að opna og fara í kaflana um landbúnað, sjávarútveg, byggðamál, efnahags og gjaldeyrismál og fleira því tengt. Og við erum í sjálfu sér ekkert ánægð með það hvað það hefur dregist. Þannig að ég er algjörlega sammála því að því fyrr, sem þetta verða eiginlegar og alvöru viðræður um stóru hagsmunamálin þannig að við yrðum einhverju nær úr því ferli, því betra.“
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.