„Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB veitir öllum aðildarríkjum jafnan aðgang að hafsvæðum sambandsins. Þessi regla sætir þó takmörkunum og veitir ekki jafnan aðgang að veiðum. Ákvarðanir um heildarafla og veiðiheimildir einstakra aðildarríkja eru teknar af landbúnaðar- og sjávarútvegsráðinu á grundvelli reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika, sem byggist fyrst og fremst á veiðireynslu, er talin geta reynst íslenskum útgerðum hagstæð. Þó er ljóst að íslensk lög um fiskveiðar stangast á við löggjöf ESB að mörgu leyti. Spurningunni um aðgang annarra aðildarríkja að íslenskri efnahagslögsögu, gangi Ísland í ESB, verður aðeins svarað þegar aðildarsamningurinn liggur fyrir“ þetta segir í inngangi svars á Evrópuvefnum, upplýsingarveitu um Evrópusambandið og Evrópumál sem Háskóli Íslands heldur úti. Örn Johnson lagði spurningu fyrir Evrópuvefinn um það hversu mikið af heimilaðri veiði á ári hverju togarar ESB fengju að veiða í islenskri landhelgi gengi Ísland í Evrópusambandið.
Svarið ber með sér verulega óvissu um hvort nokkur trygging er fyrir því að reglan um hlutfallslegan stöðugleika haldi gagnvart Íslandi, raunar fáist ekkert svar við því nema eftir að niðurstaða í viðræðum um sjávarútvegsmál liggi fyrir. Reglunni er lýst á þennan hátt í svarinu:
„Reglan um hlutfallslegan stöðugleika miðar að því að úthluta aflaheimildum samkvæmt þeirri veiðireynslu sem fiskiskip aðildarríkjanna höfðu á árunum 1973-1978. Þegar ný aðildarríki koma inn í sambandið er yfirleitt litið til veiðireynslu undanfarinna ára. Hverju aðildarríki er úthlutað föstu hlutfalli af heildarkvóta tiltekinnar fiskitegundar en þetta hlutfall byggist á veiðireynslu landsins á tilteknum stofni. Jafnframt tekur reglan tillit til þeirra svæða sem eru sérstaklega háð fiskveiðum og þess missis á veiðitækifærum sem aðildarríkin hafa orðið fyrir vegna útfærslu efnahagslögsögu ríkja, sem standa utan ESB, í 200 mílur. Ef upp koma frávik frá stöðuga hlutfallinu í ákvörðunum ráðsins geta aðilar áfrýjað þeim ákvörðunum til Evrópudómstólsins.“
Eins og þarna kemur fram er það Evrópudómstóllinn sem á síðasta orðið um inntak reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika sé um það deilt.
Á Evrópuvefnum segir einnig:
„Reglan um hlutfallslegan stöðugleika yrði íslenskum útgerðum að öllum líkindum hagstæð þar sem veiðireynsla Íslendinga er mikil og aðliggjandi strandir og landið í heild sinni mjög háð sjávarútvegi. Erfitt er að spá fyrir um niðurstöður samninga Íslands og ESB en talið er að reglan gæti tryggt Íslendingum áfram sama hlutfall úr þeim fiskistofnum sem þeir veiða nú, þar sem Íslendingar einir hafa veiðireynslu innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands á undanförnum áratugum.
Reglan, sem hefur verið í gildi síðan 1983, á sér þó aðeins stoð í afleiddum rétti ESB (í reglugerð 2371/2002) en ekki í sáttmálum sambandsins. Hægt væri að víkja frá meginreglunni um hlutfallslegan stöðugleika með auknum meirihluta í ráðinu við úthlutun aflaheimilda hverju sinni og henni væri hægt að breyta með auknum meirihluta. Reglan nýtur þó víðtæks pólitísks stuðnings en við endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu sambandsins í lok árs 2002 var ekki hróflað við henni. Ekki er heldur líklegt að breytingar verði gerðar á henni við núverandi endurskoðun stefnunnar en engin trygging er þó fyrir því að það verði ekki gert síðar meir.
Þarna er á það bent að aukinn meirihluti sjávarútvegsráðherra ESB-ríkjanna getur ákveðið að víkja frá reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Hún er ekki njörvuð niður í neina ESB-löggjöf heldur er framkvæmd hennar háð pólitískri ákvörðun sinni.
-
Á Evrópuvefnum segir að ljóst sé að íslensk lög og reglur um fiskveiðar stangist á við löggjöf ESB í veigamiklum atriðum. Sjávarútvegur sé mikilvægari hagsmunum Íslands en nokkru aðildarríki Evrópusambandsins. Markmið íslensku samninganefndarinnar í sjávarútvegsmálum, í aðildarviðræðum Íslands við ESB, sé því að tryggja forræði íslenskra stjórnvalda yfir fiskveiðum innan íslenskrar efnahagslögsögu. Ein leið að þessu markmiði væri að skilgreina íslenska efnahagslögsögu sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði. Þannig hefðu erlend fiskveiðiskip ekki réttindi til veiða úr staðbundnum íslenskum stofnum innan hins íslenska fiskveiðistjórnunarsvæðis. Í þessum orðum Evrópuvefjarins felst að eina örugga trygging Íslendinga í sjávarútvegsmálum fáist með því að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna veiti Íslandi áfram rétt strandríkis þrátt fyrir ESB-aðild. Þá segir á vefnum:
“Hvort samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda í viðræðunum næst mun koma í ljós. Almennt virðast tímabundnar undanþágur eða aðlögunarfrestir tíðkast fremur en varanlegar undanþágur í aðildarsamningum. Þá fá ríki frest til þess að innleiða tiltekna löggjöf úr regluverki ESB eða til að afnema reglur sem ekki samræmast stofnsáttmálanum eða löggjöf sambandsins. Yfirleitt er um að ræða 3-7 ára aðlögunartíma en til eru dæmi um allt að 10-13 ára aðlögunartímabil. [...]
Af hálfu ESB er lögð áhersla á að veita ekki undanþágur frá sameiginlegri stefnu sambandsins í aðildarsamningum þar sem markmiðið er að samræma lagaumhverfi aðildarríkjanna. Því er fremur leitað afmarkaðra sérlausna fyrir umsóknarríki ef upp koma vandamál vegna sérstöðu eða sérstakra aðstæðna umsóknarríkisins.
Niðurstöður viðræðna Íslands og ESB munu leiða í ljós hvort aðildarríki ESB fái heimild til veiða innan íslenskrar efnahagslögsögu. Ef svarið við því verður nei mun samningurinn einnig upplýsa hvort það verði á grundvelli varanlegrar eða tímabundinnar undanþágu eða vegna reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika.„
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.