Miðvikudagurinn 24. febrúar 2021

Mannréttindadómstóll Evrópu: Fellst á framsal grunaðra hryðjuverkamanna til Bandaríkjanna - segir ofuröryggi í fangelsum ekki brot á mannréttindum


10. apríl 2012 klukkan 11:12

Mannréttindadómstóll Evrópu kynnti þá niðurstöðu sína þriðjudaginn 10.apríl að bresk stjórnvöld hefðu heimild til að framselja fimm menn grunaða um hryðjuverk frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Það fæli ekki í sér brot á mannréttindum þótt mennirnir yrðu dæmdir í ævilanga einangrunarvist í „ofuröruggu“ fangelsi.

ADX Florence ofuröryggisfangelsi í Klettafjöllum Colarado-ríkis.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fagnaði mjög ákvörðun dómaranna.

Í frétt BBC um málið segir að dómurinn sé einn hinn mikilvægasti síðan ráðist var á New York og Washington 11. september 2001 því að í honum felst viðurkenning á að kröfum um mannréttindi sé fylgt í helstu öryggisfangelsum Bandaríkjanna og þar með sé auðveldara en ella fyrir Breta að framselja grunaða menn til helstu samstarfsþjóðar sinnar.

Fræðilega má nú áfrýja málinu til yfirdeildar mannréttindadómstólsins, í reynd fara mjög fá mál til þessarar lokadeildar dómstólsins. Þriggja mánaða áfrýjunarfrestur er til yfirdeildarinnar, komi ekki til áfrýjunar verða mennirnir framseldir frá Bretlandi til Bandaríkjanna.

Fjölskylda eins mannanna, Babars Ahmads, sem setið hefur í fangelsi í átta ár án dóms, segir að hún muni berjast gegn framsali. BBC ræddi við hann í síðustu viku og fór hann þess á leit að verða dæmdur í Bretlandi þar sem hann væri sakaður um afbrot þar.

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, fagnaði niðurstöðu dómaranna í Strassborg og sagðist ætla að vinna hratt að því afhenda Bandaríkjamönnum hina grunuðu.

Mannréttindadómstóllinn sagði að ekki yrði um brot á mannréttindum að ræða ef mennirnir yrðu settir í einangrun í ADX Florence, alríkisofuröryggisfangelsi í Colorado-ríki, sem er notað fyrir þá sem eru fundnir sekir um hryðjuverkabrot. Þá bryti ekki heldur gegn mannréttindum að dæma mennina til lífstíðarvistar í fangelsi. Dómararnir sögðu að aðstæður í ADX Florence væru að sumu leyti betri en í mörgum evrópskum fangelsum.

ADX Florence fangelsið er stundum kallað Alcatraz Klettafjallanna. Sagt er að þar séu 1.400 fjarstýrðar stáldyr, hreyfiskynjarar og byssuturnar. Einangrunarvist einkennir ofuröryggisfangelsi, þar eru fangar einir í klefum sínum í 23 stundir á hverjum sólarhring. Málsvarar þessara fangelsa segja að þau hæfi vel hinum verstu meðal hinna verstu. Gagnrýnendur segja að fangelsin standist ekki mannréttindakröfur og dvöl þar jafngildi pyntingum.

Abu Hamza er sakaður um að hafa átt aðild að gíslatöku í Jemen og tilraun til að koma á fót þjálfunarbúðum fyrir hryðjuverkamenn í Bandaríkjunum. Haroon Aswat er einnig sakaður vegna tengsla við þjálfunarbúðir. Babar Ahmad og Talha Ahsan eru taldir hafa hvatt til hryðjuverka á vefsíðu í London. Þeir eru einnig sagðir hafa tekið þátt í að skipuleggja sprengjuárásir á sendiráð Bandaríkjanna í Austur-Afríku árið 1998.

Fyrr á þessu ári bannaði mannréttindadómstóllinn Bretum að framselja Abu Qatada, róttækan klerk, til Jórdaníu með þeim rökum að þar mundi hann ekki njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS