Uppsögn Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á samstarfssamningi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið um formennsku Tómasar H. Heiðars í makríl-viðræðunefnd við ESB, Norðmenn og Færeyinga kom til umræðu á alþingi og sagði Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að „óánægja og órói“ meðal ESB-aðildarsinna hér á landi og í Brussel hefði komið fram vegna starfa Tómasar og ekki væri unnt að útiloka að Evrópusambandið eða samninganefnd þess hefði krafist nýs íslensks viðmælanda.
Ummæli Jóns Bjarnasonar féllu í svari hans við fyrirspurn frá Ásmundi Einari Daðasyni, þingmanni Framsóknarflokksins í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra fimmtudaginn 26. apríl 2012.
Ásmundur Einar Daðason minnti á að samningamaður Íslands, Tómas H. Heiðar, sem hefði haldið „gríðarlega vel“ á makrílmálinu fyrir Íslands hönd hefði verið látinn hætta. Hann hefði notið trausts þingmanna og hefði ekki viljað „gefa eftir hagsmuni Íslands gagnvart hótunum Evrópusambandsins“. Vildi Ásmundur Einar vita hvort einhver undirbúningur hefði verið hafinn varðandi brotthvarf hans frá viðræðunum áður en Jón Bjarnason lét af störfum sem ráðherra eða hvort stefnubreyting hefði orðið eftir að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, tók við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason tók undir með Ásmundi Einar um að Tómas H. Heiðar hefði verið mjög fær í sínu starfi, hann hefði farið að óskum sínum sem ráðherra og ekki viljað gefa eftir gagnvart Evrópusambandinu. Þá sagði Jón Bjarnason:
„Það er síðan alveg hárrétt hjá hv. þingmanni [Ásmundi Einari] að ég vissi af óánægju og óróa innan ESB-sinna bæði í íslenskri stjórnsýslu og ég tala nú ekki um innan Evrópusambandsins varðandi þátttöku hans. Án þess að ég ætli að fara að gera honum [Tómasi H. Heiðar] upp neinar skoðanir fann ég ekki að hann væri neinn sérstakur baráttumaður fyrir inngöngu í Evrópusambandið og alls ekki, hann var fyrst og fremst fagmaður í sinni vinnu. Ég tel að það hafi verið mjög, mjög misráðið að láta hann fara. Það má vel vera að það hafi verið gert að kröfu Evrópusambandsins eða samninganefndar þeirra, það má vel vera, ég skal ekkert útiloka það, en ég tel það mjög misráðið.“
Ásmundur Einar rifjaði upp að við brottvikningu Jóns Bjarnasonar úr embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði hann sagt við fjölmiðla „að það væri hreint og klárt vegna kröfu Evrópusambandsins og það lægi ljóst fyrir að það væri vegna þess að ekki væri vilji til þess að gefa eftir grundvallarhagsmuni Íslands vegna viðræðna við Evrópusambandið“.
Steingrímur J. Sigfússon, arftaki Jóns í ráðherraembættinu, hefði hins vegar sagt að ráðherraskiptin væru ekki með „nokkrum hætti“ tengd ESB-aðildarviðræðunum „og það yrði engin stefnubreyting í veigamiklum málum við það að hann kæmi inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið“. Nú kæmu hins vegar upplýsingar frá Jóni Bjarnasyni um að „samningamanni Íslands í makríldeilunni hafi verið vikið úr embætti eða sagt upp um leið og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og hæstv. ráðherra, kom inn í ráðuneytið“.
Spurði Ásmundur Einar hvort Jón Bjarnason væri ekki sammála sér um að hafi arftaki hans hefði gefið eftir í grundvallaratriðum hvað þetta snerti. Jón Bjarnason svaraði:
„Já, það er alveg hárrétt að ein meginástæðan fyrir ráðherraskiptum er einmitt afstaða mín í Evrópusambandsmálunum og það að gefa ekki eftir fyrir fram í þeim efnum.
Það er hins vegar athyglisvert í ljósi spurningar hv. þingmanns að Evrópusambandið sjálft, Evrópuþingið, telur ástæðu til að álykta sérstaklega um ráðherrabreytingarnar um áramótin.
Í ályktun Evrópuþingsins segir að það fagni eða taki með velþóknun eftir uppstokkun í íslensku ríkisstjórninni þann 31. desember 2011 og lýsir ánægju, trausti og tiltrú á að hin nýja ríkisstjórn muni halda áfram samningum af enn meiri áherslu og þrautseigju á sviði skuldbindingar um aðildarferlið.“
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.