Fram er komin tillaga á alþingi um að afturkalla ESB-aðildarumsóknina og ekki endurnýja hana án þess að fyrst sé leitað álits þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Atli Gíslason annar flutningsmanna tillögunnar segir að nauðsynlegt hafi verið að gera Icesave- samning með hraði og leynd vorið 2009 til að tryggja aðild vinstri-grænna að ríkisstjórn sem stæði að ESB-umsókn. Fyrsti Icesave-samingurinn hafi verið skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar.
Nú tæplega þremur árum eftir að alþingi samþykkti umsókn um aðild að ESB liggur fyrir að umsóknarferlinu verði ekki fram haldið nema vikið sé í verulegum atriðum frá þeim meginhagsmunum sem meiri hluti utanríkismálanefndar dró fram í áliti sínu segir í greinargerð tillögu til þingsályktunar frá þingmönnunum Atla Gíslasyni og Jóni Bjarnasyni sem kjörnir voru á þing fyrir vinstri-græna (VG) í kosningunum í apríl 2009. Atli hefur sagt skilið við flokkinn og Jóni var vikið úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.
Þingmennirnir segja að alþingi hafi gert meirihlutaálitið að skilyrðum sínum við samþykkt umsóknar-ályktunarinnar 16. júlí 2009. Umboð ríkisstjórnarinnar til að halda áfram aðlögunar- og aðildarvinnu sé því ekki lengur fyrir hendi og vilja þer að ESB-viðræðunum verði hætt og umsóknin afturkölluð. Aðildarumsóknin verði ekki endurnýjuð nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar. Engin rök hnígi að því að Ísland sæki um aðild að ríkjasambandi ef ekki sé almennur vilji til aðildar.
Í viðtali við Morgunblaðið 31. maí um röstuðning fyrir tillögunni segir Atli Gíslason:
„Icesave-samningurinn sem var lagður fram í júní 2009 var skilgetið afkvæmi umsóknarinnar. Samningurinn var skilyrði þess að umsóknin yrði móttekin en ekki endursend ríkisstjórninni.
Það kom flatt upp á marga að samningurinn skyldi liggja fyrir strax í júní 2009. Steingrímur J. Sigfússon sagði í apríl sama ár að það lægi ekkert á að semja. En skýringin lá í augum uppi. Samningurinn var lykill Steingríms J. að stjórnarsamstarfi og ráðherradómi og hluti af aðildarumsókninni sem aftur skýrði leyndina. Á síðari stigum málsins kom ESB með virkum hætti inn í dómsmálið fyrir EFTA-dómstólnum.“
Í greinargerð tillögunnar segir:
„Framsal á fullveldi og einhliða kröfur og skilyrði sem ESB hefur sett í viðræðunum eru með öllu óásættanlegar fyrir íslenska hagsmuni og sjálfsforræði. Kröfur ESB ganga þvert gegn þeim meginhagsmunum og skilyrðum Íslands sem Alþingi samþykkti að fylgja hinn 16. júlí 2009. Framhald aðlögunar Íslands að ESB og eftirgjöf í stórum hagsmunamálum í alþjóðaviðræðum stríðir gegn framtíðarhagsmunum Íslands.
Þá hafa ESB og fulltrúar þess nú þegar ástundað beina íhlutun í íslensk innanríkismál í skjóli umsóknarinnar, sbr. ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars sl., og krafist fylgispektar Íslands á alþjóðavettvangi sem er með öllu ólíðandi af Íslands hálfu. Efnahagsleg inngrip ESB í íslenskt þjóðfélag hafa alvarlegar afleiðingar og ekki í samræmi við forsendur umsóknarinnar. Það felur annars vegar í sér að með því er verið með peningagjöfum, sem stýrt er frá Brussel, að hafa áhrif á atvinnu, afstöðu til ESB-aðildar og almenna skoðanamyndun í landinu og hins vegar að um er að ræða falskar væntingar um áframhaldandi verkefni en þeim mun ljúka jafnskjótt og þetta gjafafé er upp urið.
Þá má nefna makríldeiluna og áform og hótanir Evrópusambandsins í garð Íslendinga um viðskiptaþvinganir, samtímis því sem aðildarviðræður standa yfir. Sýna þær hótanir best hvernig þetta ríkjasamband beitir sér gegn smáríki eins og Íslandi. Samningur ríkisstjórnarinnar um Icesave hefur ætíð verið skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar, enda hefur ESB nú gerst formlegur málsaðili og ákærandi gegn Íslandi í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum.
Jafnframt hafa forsendur á Evrópusambandssvæðinu sjálfu breyst í veigamiklum atriðum. Hið sama á við um starfshætti sambandsins og pólitísk tilræði þess við sjálfstjórnarrétt aðildarríkjanna, einkum á sviði efnahagsmála, sem felur í sér að eftirlit og ákvarðanir um þann málaflokk innan hvers ríkis eru færðar frá sambandsríkjunum sjálfum til miðstjórnarvaldsins í Brussel. Enn fremur hefur það komið í ljós að hin sameiginlega mynt, evran, sem var talin fela í sér vörn fyrir viðkomandi land, sem ætti í efnahagsörðugleikum, hefur þvert á móti magnað upp vanda ríkjanna og stefnir þeim í átt að gjaldþroti. Þar með eru brostnar eða gjörbreyttar veigamiklar forsendur sem lágu fyrir við samþykkt þingsályktunartillögunnar á sínum tíma.
Í ljósi þess hvernig umsóknar- og aðildarferlið hefur þróast þvert á vilja og hagsmuni íslensku þjóðarinnar telja flutningsmenn tillögunnar brýnt að Alþingi samþykki að afturkalla umsókn sína um aðild að ESB.“
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.