Sunnudagurinn 24. janúar 2021

ESB: Fjórmenninga-skýrsla um framtíðarþróun og skipan mála kynnt - stefnt að auknu miðlægu valdi í ríkisfjármálum á kostnað þjóðþinga


26. júní 2012 klukkan 15:17

Miðlægt vald innan vébanda ESB skal eiga lokaorð um fjárlög einstakra evru-ríkja og bera ábyrgð á bankaeftirliti á innri markaðnum að tillögu forystumanna fjögurra stofnana ESB sem verður lögð fyrir leiðtogaráð ESB þegar það kemur saman til tveggja daga fundar fimmtudaginn 28. júní. Stefnt er að afgreiðslu tillögunnar í desember 2012.

José Manuel Barroso og Herman Van Rompuy

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB; José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Mario Draghi, forseti bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, og Jean-Claude Juncker, formaður ráðherraráðs evru-ríkjanna, hafa leitt vinnu við gerð tillagna um breytingar á skipan mála innan evru-svæðisins og ESB. Þeir leggja til að á „næsta áratug“ verði unnið að því að koma á kerfi þar sem vald verði flutt frá valdastofnunum í höfuðborgum ESB-ríkja til miðlægra stofnana innan sambandsins, sérstaklega eigi þetta við „fjármálakerfið, ríkisfjármál og efnahagsstefnu“.

Skýrsla fjórmenninganna var birt þriðjudaginn 26. júní. Herman Van Rompuy segir þar að á „evru-vettvangi yrði unnt að krefjast breytinga á ríkisfjármálaákvörðunum [ríkja] brjóti þær gegn ríkisfjármálareglum“.

Eins og málum er nú háttað heldur framkvæmdastjórn ESB uppi eftirliti með ríkisfjármálum einstakra ESB-ríkja og getur sektað ríki en er ekki heimilt til að grípa einhliða til uppstokkunar á fjárlögum ríkjanna.

Þá er lagt til varðandi banka að „samhæft eftirlit … komi til sögunnar eins fljótt og unnt er með því að koma á fót einu samræmdu bankaeftirlitskerfi fyrir allt ESB“ innan þess yrði „lokavald“ á ESB-vettvangi.

Enn hefur ekki verið úr því skorið hvort Bankastofnun Evrópu sem nær til allra ESB-landanna eða Seðlabanki Evrópu sem nær aðeins til evru-ríkjanna eigi að hafa forystu um eftirlitið – bankastofnunin hefur aðsetur í London og Bretar vilja að hún hafi forystu á þessu sviði, njóta þeir stuðnings Hollendinga.

Van Rompuy segir að skýrslan hafi ekki að geyma endanlegar tillögur heldur safn viðmiða sem megi nota við að móta „sameiginlegan skilning“ á hvernig best sé að stefna að meiri samruna. Talið er að í honum felist eina raunhæfa leiðin til að leiðrétta jafnvægisleysið í ríkisfjármálum og fjárhagslegan ójöfnuð sem olli skuldavandanum.

Fjórmenningarnir leggja áherslu á nauðsyn þess að treysta aukið samstarf með því að treysta betur „lýðræðislegt lögmæti og ábyrgð“. Þeir telja að almennt verði að treysta lýðræðislegan grunn myntsamstarfsins og frekari samruna undir merkjum þess.

Við kynningu á skýrslunni nefndi Van Rompuy fjórar meginstoðir sem yrðu að koma við sögu til að tengja kjarna í hópi ESB-ríkja sem notaði eina mynt og ytri hring ESB-ríkja sem ætti aðild að innri markaðnum, heimilaði frelsi í fjármálum, viðskiptum og þjónustu auk ferðafrelsis.

Í fyrsta lagi yrði að koma til sögunnar samtengd fjármálaumgjörð, sameiginlegt eftirlit í nafni ESB sem starfaði eftir reglum um sameiginleg úrræði við þrot banka og um tryggingu sparifjáreigenda.

Í öðru lagi yrði að setja samræmdar reglur um ríkisfjármál þar á meðal um sameiginlegar ákvarðanir, meiri eftirfylgni og markviss skref í átt til sameiginlegrar skuldaaðstoðar eða sameiginlegrar lántöku með svonefndum evru-skuldabréfum.

Í þriðja lagi yrði að líta til almennrar efnahagsstefnu og þar er talað um „skattasamræmingu“ án þess að útlista hana frekar.

Í fjórða lagi nefndi hann aukinn hlut ESB-þingsins og þjóðþinga einstakra landa til að ýta undir ábyrgð gagnvart almenningi.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS