Miðvikudagurinn 3. mars 2021

Merkel og Hollande árétta sérstaka vináttu þjóða sinna í dómkirkjunni Reims - feta í 50 ára fótspor Adenauers og de Gaulles


7. júlí 2012 klukkan 17:06

Angela Merkel Þýskalandskanslari og François Hollande Frakklandsforseti hittast í dómkirkju frönsku borgarinnar Reims sunnudaginn 8. júlí og minnast þess að 50 eru liðin frá því að forverar þeirra Konrad Adenauer og Charles de Gaulle innsigluðu þar frið og sættir milli Þjóðverja og Frakka eftir síðari heimsstyrjöldina.

Konrad Adenauer Þýskalandskanslari (t.v.) og Charles de Gaulle Frakklandsforseti (t.h.) í dómkirkjunni í Reims 8. júlí 1962.

Merkel sagði laugardaginn 7. júlí í vikulegu sjónvarpsávarpi sínu að sættir þjóðanna væru meðal mikilvægustu atburða veraldarsögunnar. Adenauer og de Gaulle hefðu haft einstæðan kjark til að hefja nýjan kafla í sögunni. Hann hefði getið af sér eina mikilvægustu vináttu milli þjóða sem mannkyn hefði kynnst.

Leiðtogarnir tveir hefðu sýnt „hugrekki og framsýni“ og blásið á margar efasemdaraddir. Þeir hefðu stigið örlagaríkt skref í átt til endursameiningar Evrópu og þess vegna ynnu Frakkar og Þjóðverjar nú saman.

Le Monde segir að Merkel verði aðeins þrjár klukkustundir í Reims en Konrad Adenauer hafi dvalist viku í Frakklandi á sínum tíma. Þá kemur fram í grein blaðsins í tilefni af athöfninni í Reims að Merkel skorti sannfæringu forvera sinna fyrir nánara samstarfi ESB-þjóða. Hún líti frekar á samrunaþróunina sem tæknilegt viðfangsefni en hugsjónamál sem hún sinni af ástríðu. ESB-ástríðumaðurinn í stjórn Þýskalands sé Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra.

Blaðið rifjar upp að í janúar 2012 hafi nokkur evrópsk blöð, þ. á m. Le Monde birt viðtal við Angelu Merkel þar sem hún kynnti þá sýn að framkvæmdastjórn ESB yrði ríkisstjórn ESB en leiðtogaráðið einskonar öldungardeild.

Frakkar og Þjóðverjar hafa unnið náið saman undanfarin ár og lagt fram sameiginlegar tillögur um lausn á skuldavanda evru-svæðisins. Merkel og Nicolas Sarkozy voru í sameiginlegri flokkafjölskyldu, hægra megin við miðju. Hollande er hins vegar sósíalisti með aðrar pólitískar áherslur en Merkel. Efasemdir eru um að þau nái að stilla saman strengi sína á þann veg að auðveldi lausn evru-vandans.

Það var í lok hinnar vikulöngu (2. til 8. júlí 1962) opinberu heimsóknar Konrads Adenauers Þýskalandskanslara til Frakklands í boði Charles de Gaulles forseta sem leiðtogarnir tóku saman þátt í kaþólskri messu í dómkirkjunni í Reims. Staðarvalið var táknrænt fyrir sættir milli þjóðanna og hafði aldagamla sögulega skírskotun.

Fyrsti konungur hinnar germönsku þjóðar Franka frá Niðurlöndum og vesturhluta Þýskalands sem náði að leggja Gallíu (nú Frakkland) undir sig var salísk-frankverski konungurinn Klóvis 1, sem ríkti frá 481 til 511. Klóvis var af ætt hins goðsagnakennda konungs Merovech og því hefur ættarveldi hans verið kallað Mervíkingar (eða Meróvingar). Hann lagði mikinn metnað í það að stækka ríki sitt og árið 486 lagði hann undir sig síðustu leifar Vestrómverska ríkisins en það var svæði í Gallíu sem rómverski hershöfðinginn Syagrius stjórnaði. Í tveimur herferðum, árin 496 og 501, innlimaði hann einnig svæði Alemanna þar sem nú er Suðvestur-Þýskaland. Í fyrri herferðinni, árið 496, snerist Klóvis til kaþólskrar trúar og var skírður í Reims. Varð hann þar með fyrsti germanski kóngurinn sem var trúbróðir páfans í Róm. Klóvis lagði undir sig svæði Vestgota í Gallíu. Hann sigraði þá árið 507 í bardaganum við Vouillé og hrakti þá út úr Gallíu, suður yfir Pýreneafjöllin.

Lúðvík 1., sonur Karlamagnúsar, var krýndur í Reims. Öldum saman voru konungar Frakklands krýndir í dómkirkjunni í Reims. Þjóðverjar unnu mikið tjón með stórskotaárásum á dómkirkjuna í fyrri heimsstyrjöldinni. Þýski herinn lýsti uppgjöf sinni í kirkjunni hinn 7. maí 1945.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS