Laugardagurinn 16. janúar 2021

Mario Draghi: Það verður ekki snúið frá evrunni! - Evrópu­vaktin birtir viðtal Le Monde við seðlabanka­stjóra Evrópu


21. júlí 2012 klukkan 19:11

Þrátt fyrir leiðtogafundi og ráðherrafundi evru-ríkja breytist staðan ekki evrunni í hag. Fram til þessa virðist Seðlabanki Evrópu vera eini aðilinn sem geti róað markaðina. Nú er hann sakaður um að halda að sér höndum. Þetta segir í upphafi viðtals Le Monde við Mario Draghi, forseta bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, sem birtist laugardaginn 21. júlí. Viðtalið birtist hér aðeins stytt í lauslegri þýðingu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur endurskoðað spár sínar um hagvöxt og er nú svartsýnni en áður vegna stöðunnar í Evrópu. Erum við að sigla inn í efnahagslægð?

Mario Draghi

Nei. Frá upphafi árs hefur vissulega komið fram hluti þeirrar hættu á samdrætti í efnahagslífinu sem varað var við af okkur. Ástandið hefur versnað stig af stigi en ekki á þann veg að efnahagslægð eða fall muni herja á öll ríki myntsamstarfsins. Við erum enn þeirrar skoðunar að staðan muni frekar batna fyrir lok ársins og í upphafi næsta árs.

Má þakka það Seðlabanka Evrópu (SE)?

Lækkun vaxta á lok árs 2011 og í júlí ætti að hafa áhrif. Sömu sögu er að segja um lán til þriggja ára sem veitt voru til að draga úr hættu á að bankarnir hættu að veita lán.

SE ætti ekki að ýta undir efnahagsstarfsemina eins og AGS krefst?

„Við erum opnir fyrir öllu og hjá okkur eru engin bannorð. Við höfum ákveðið að lækka vexti niður fyrir 1% af því að við teljum að verðbólga verði um eða innan við 2% í upphafi 2013. Það er þó líklegt að hún lækki eftir árslok 2012.

Hlutverk okkar er að viðhalda stöðugu verðlagi til að koma í veg fyrir of mikla verðbólgu en einnig að hindra að almenn lækkun verði á vörum og þjónustu. Ef við sjáum hættu vegna verðhjöðnunar grípum við til okkar ráða.

Markaðurinn brást vel við niðurstöðum leiðtogaráðs ESB sem fundaði 28. og 29. júní en síðan komu fram efasemdir...

Leiðtogafundurinn heppnaðist vel. Mér virðist að þar hafi í fyrsta sinn verið mótuð skýr stefna: að komast út úr kreppunni með því að auka Evrópusamstarfið. Þar var settur upp vegvísir í átt til sambands sem reist verði á fjórum þáttum: fjármálalegum, ríkisfjármálalegum, efnahagslegum og stjórnmálalegum. Þetta verði gert með eftirfarandi tækjum: fjármálasambandi, bankaeftirliti, björgunarsjóðum og með því að endurfjármagna banka þegar eftirlitið er komið til sögunnar. Þá var tímasett framkvæmdaáætlun kynnt.

Þetta eru langtímaaðgerðir. Þarf ekki að taka strax til hendi?

Leyfið mér að lýsa eigin reynslu fyrir ykkur. Árið 1988 hafði Delors-nefndin markað leiðina að myntsambandi með markmiði, tímasettri áætlun og því sem ríkjum bar að virða. Þessi stefna birtist síðan á Maastricht-sáttmálanum árið 1992.

Á þessum tíma bjuggu Ítalir við mjög háa ávöxtunarkröfu. Vextirnir lækkuðu hins vegar hratt jafnvel áður en tókst að lækka hallann á ríkissjóði, hann var 11% af VLF, af því að Ítalir stefndu að þátttöku í myntsamstarfinu. Þessi reynsla veldur því að ég tel að einsetji ríki sér að ná ákveðnu markmiði, jafnvel eftir langan tíma, hafi það skammtímaáhrif.

SE er gagnrýndur fyrir að leggja ríkjum ekki nægilegt lið. Bíður bankinn eftir því að ríkisstjórnir geri meira áður en hann lætur að sér kveða?

Þessi hugmynd um að viðskipti eigi sér stað milli ríkja og SE er út í bláinn. Hlutverk okkar er ekki að leysa fjármálavanda ríkja heldur tryggja verðstöðugleika og stuðla að fjármálastöðugleika samkvæmt sjálfstæðri ákvörðun bankans.

Hvaða álit hafið þér á vaxtarsáttmálanum sem er áhugamál François Hollandes?

Hann er örugglega til góðs. Það verður þó að ganga lengra, hvert ríki verður að leggja sitt af mörkum.

Þér viljið frekar ráðast í kerfisbreytingar en fara að hugmyndum um vöxt í anda Keynes?

Já, jafnvel þótt menn einblíni of oft á breytingar á vinnumarkaðinum sem leiðir ekki alltaf til þess að samkeppnishæfni aukist því að fyrirtækin hagnast stundum af einokun eða góðri aðstöðu. Það ber einnig að líta á markað fyrir vörur og þjónustu og auka frelsi þar þegar það er nauðsynlegt.

Erfitt er að taka ákvarðanir um þetta á stjórnmálavettvangi. Evrópsk stefna og stuðningur við framkvæmd ákvarðana sem teknar eru sameiginlega á evrópskum vettvangi hefur mikið gildi á þessum sviðum.

Þetta er sem sé sigur kenninga frjálshyggjunnar?

Nei. Að binda enda á forskot vegna aðstöðu snýst um réttlæti fyrir starfsmenn, stjórnendur og allan almenning.

[...]

Þér eruð einu áhrifamesta embætti í Evrópu en þér hafið ekki verið kosnir til þess. Veldur þetta ekki vanda þegar hugað er að hinu lýðræðislega lögmæti og umboði?

Ég er meðvitaður um nauðsyn þess að menn standi öðrum reikningsskil. Ég fer tæplega tíu sinnum á ári í ESB-þingið og við leggjum mikla áherslu á að miðla upplýsingum. Við munum enn auka áherslu á þann þátt verði okkur falið stærra hlutverk.

Við hinar sérstöku aðstæður sem nú ríkja er nauðsynlegt að SE taki afstöðu til mála sem ekki er unnt að leysa með peningastefnu, þar má nefna of mikinn ríkissjóðshalla, skort á samkeppnishæfni eða óbærilegt ójafnvægi, þetta getur skapað hættu fyrir fjármálalegan stöðugleika. Vernd evrunnar er hluti af því sem okkur ber að sinna.

Þegar þér voruð valdir í forsæti innan SE var litið á yður sem þann Ítala sem stæði næst Þjóðverjum. Er staðan en sú sama?

Þið verðið að dæma um það! Okkur ber að viðhalda verðstöðugleika á tvennan hátt, takast á við þann vanda sem er hverju sinni og gera það fordómalaust.

Þér eruð á sinn hátt mjög hallur undir Þjóðverja þegar þér styðjið kröfu Angelu Merkel um að komið verði á pólitísku sambandi undir merkjum ESB...

Að mínu áliti er óhjákvæmilegt að ríki þokist í átt til nánara samstarfs á sviði fjármála, ríkisfjármála og stjórnmála og þessi þróun mun leiða til þess að nýjar yfirþjóðlegar stofnanir koma til sögunnar.

Í sumum löndum er framsal fullveldis – ég tala frekar um sameiginlegt fullveldi – sem þessu fylgir mörgum mikill þyrnir í augum, annars staða er þetta ekkert vandamál. Þegar litið er til hnattvæðingarinnar ber að hafa í huga að með sameiginlegu fullveldi eiga ríki auðveldara en ella með að varðveita fullveldi sitt. Þegar til langs tíma er litið ber að reisa evruna á meiri samruna.

Er réttmætt að ræða nú um brottför Grikkja af evru-svæðinu?

Við viljum afdráttarlaust að Grikkir verði áfram þátttakendur í evru-samstarfinu. Þetta er hins vegar mál grísku ríkisstjórnarinnar. Hún hefur tekið á sig skuldbindingar og henni ber nú að standa við þær. Þegar rætt er um breytingar á aðhaldssamningnum [skilyrði fyrir neyðarlánum Grikkja] vil ég bíða eftir niðurstöðum þríeykisins áður en ég lýsi skoðun minni.

Fjármálaráðherrar evru-ríkjanna samþykktu endanlega björgunaráætlun fyrir spænsku bankana föstudaginn 20. júlí. Dugar hún til að bjarga ríkinu frá strandi?“

Mikilvægt er að huga að einu atriði varðandi hlutdeild stærstu lánveitenda banka: SE telur að hún eigi að koma við sögu við greiðsluþrot banka. Það á að verja sparifjáreigendur en lánveitendur verða að eiga aðild að lausn krísunnar til að takmarka þátttöku skattgreiðenda. Þeir hafa þegar lagt mikið fé af mörkum.

Farið þér áhyggjulaus í leyfi nú í sumar?

Ég skipulegg aldrei sumarleyfi til langs tíma og fer ekki frá nema fáeina daga. Eitt er víst ég mun ekki fara til Polynesíu, það er of langt.

Evran er sem sagt enn í hættu?

Nei, alls ekki. Maður sér greinendur ímynda sér sviðsmyndir sem eru reistar á því að evru-svæðið splundrist. Þar er litið fram hjá því pólitíska kapítali sem stjórnendur landa okkar hafa fest í þessu samstarfi og stuðningi Evrópubúa. Það verður ekki snúið frá evrunni!

Viðtal Le Monde: Claire Gatinois, Erik Izraelewicz og Philippe Ricard.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS