Francisco Alvarez Cascos, fyrrverandi héraðsstjóri í Asturias á Spáni, hefur orðið fyrstur áhrifamanna landsins til að krefjast róttækrar stefnubreytingar og slita á evru-samstarfinu nema því sé breytt á róttækan hátt. Cascos er fyrrverandi framkvæmdastjóri Lýðfylkingarinnar (PP), flokks Marianos Rajoys forsætisráðherra. Hann sakar forsætisráðherrann um að niðurlægja Spán með því að ganga um Evrópu með „betlistaf“ í hendi.
Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðaviðskiptaritstjóri The Daily Telegraph, segir frá þessum viðbrögðum héraðsstjórans í blaðinu fimmtudaginn 26. júlí og minnir á að Luis de Guindos, fjármála- og efnahagsmálaráðherra Spánar, hafi í vikunni leitað ásjár í Berlín og París í von um að knýja fram lækkun á lántökukostnaði spænska ríkisins sem farið hafi yfir 7,5%.
De Guindos brást reiður við og neitaði að hann hefði sætt sig við kröfur Þjóðverja um afskipti af efnahagsstjórn Spánar í skiptum fyrir 300 milljarða evru aðstoð úr björgunarsjóði evrunnar.
Cascos segir ríkisstjórnina „algjörlega óhæfa“ en hitt sé jafnvel enn verra að við lýði sé „sjúklegt“ peningakerfi þar sem fjármagn flýi frá vandræðaþjóðum til ríkja sem borgi núll vexti en láni síðan hinum skuldsettu þjóðum með vöxtum. „Þetta getur ekki varað lengi, við hljótum að íhuga að losa okkur við evruna áður en okkur er kastað á dyr,“ segir Cascos.
Hann lét af embætti héraðsstjóra í Asturias í maímánuði 2012 eftir að hafa gegnt því í eina tíu mánuði.
Cascos var afar valdamikill í tíð J. M. Aznars, þáverandi forsætisráðherra, m.a. ráðherra opinberra framkvæmda (ministro de fomento), senator, þingmaður og framkvæmdastjóri flokksins (PP). Hann lenti upp á kant við flokkinn og sagði formlega skilið við hann í janúar 2011.
F.A. Cascos stofnaði þá „Vettvang Asturias“ (Foro Asturias). Hann varð formaður minnihlutastjórnar í Asturías í kjölfar kosninga í júlí 2011 og gegndi því embætti þar til í maí á þessu ári. Flokkur hans tapaði fylgi í kosningum sem efnt var til 25. mars á þessu ári.
Sósíalistinn Javier Fernandez er nú forseti Asturias.
Hvert sem litið er á Spáni má sjá merki um niðursveifluna. Telefonica, fjarskiptafyrirtæki með yfirburðastöðu, féll frá arðgreiðslum og lækkaði laun stjórnenda um 30%. Fremstu fyrirtæki á Spáni og Ítalíu hafa undanfarna tvo daga orðið að sæta mun verri lánskjörum en áður. Álag á lán til Telefonica hefur hækkað um 60 punkta og á lán til Telecom Italia um 40 punkta. Hlutafbréf í Fiat hafa snarfallið undanfarnar tvær vikur.
Suki Mann hjá Société Générale segir að á mörkuðum óttist menn að Moody‘s muni enn lækka lánshæfiseinkunn Spánar um tvö brot sem jafngildi því að fyrirtæki lendi í ruslflokki. „Þetta lítur mjög illa út þarna,“ segir hann.
Spánverjar vona að þeim takist að fá ríkisstjórnir í Suður-Evrópu til að beita meirihlutavaldi sínu í bankastjórn Seðlabanka Evrópu (SE) og knýja fram stefnubreytingu hjá bankanum í þá veru að hann hefji að nýju kaup á skuldabréfum ríkja sem búa við óbærilega ávöxtunarkröfu. Þjóðverjar standa gegn því.
Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, vill að SE lækki vaxtakúfinn hjá skuldsettum ríkjum sem standa að niðurskurði og umbótum í ríkisfjármálum. François Hollande Frakklandsforseti hefur hvatt til meiri afskipta bankans en óljóst er hvort hann vilji ganga á hólm við Angelu Merkel Þýskalandskanslara í málinu.
Haft er eftir bankastjórnarmanni hjá SE að skuldabréfakaup á vegum bankans hafi verið sett í „djúpfrysti“. Bankanum sé mjög óljúft að standa að „hálfgerðum“ ríkisfjármálabjörgunaraðgerðum án þess að hafa til þess heimild. Það sé hlutverk ríkisstjórna að ákveða björgunaraðgerðir í þágu einstakra ríkja. Frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington heyrast hins vegar nú raddir um að SE eigi að hefja skuldabréfakaup. Talið er að Mario Draghi, forseti bankastjórnar SE, undirbúi stefnubreytingu í kyrrþey. „Við erum opnir fyrir öllu og hjá okkur eru engin bannorð,“ sagði Draghi í viðtali við Le Monde laugardaginn 21. júlí. Bankanum bæri að standa vörð um evruna.
Ambrose Evans-Pritchard segir að Luis de Guindos hafi ekkert orðið ágengt varðandi SE í viðræðum sínum í París þótt honum hafi tekist að knýja fram sameiginlega yfirlýsingu með Pierre Moscovici, frönskum starfsbróður sínum, þar sem allir aðilar séu hvattir til að „framkvæma að öllu leyti“ ákvarðanir leiðtogafundar ESB frá 29. júní.
Ráðherrarnir tveir vilja að tillögur um sameiginlegt evrópskt bankaeftirlit liggi fyrir í september en með því yrði spænskum bönkum gert fært að endurfjármagna sig í gegnum varanlegan björgunarsjóð evrunnar, ESM. Markmið þessarar ákvörðunar var að skera á tengslin milli lána til banka annars vegar og ríkisábyrgðar skuldsettra ríkja hins vegar. Þýska þingið hefur hins vegar samþykkt lög þar sem segir að allt að 100 milljarða evru lán til að bjarga spænskum bönkum sé til spænska ríkisins hvað sem segi í niðurstöðum ESB-leiðtogafundarins. „Til þess líta markaðarnir,“ segir Ambrose Evans-Pritchard í lok greinar sinnar í The Daily Telegraph.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.