Allt frá dögum menningarbyltingarinnar fyrir tæpri hálfri öld hefur ekki verið fylgst með neinum kínverskum réttarhöldum af meiri áhuga en þeim sem lauk fimmtudaginn 9. ágúst. Dómsorð verður kveðið upp síðar um hvort Gu Kailai, eiginkona stjórnmálamannsins Bos Xilais, sem nú er fallinn í ónáð, hafi myrt breskan kaupsýslumann.
Embættismaður dómstólsins sagði að við réttarhöldin sem stóðu í um sjö klukkustundir hafi hvorki Gu Kailai né aðstoðarmaðurinn Zhang Xuaojun, sem sætir ákæru með henni, andmælt morðákærunni gegn þeim.
„Réttarhöldunum lauk nú síðdegis og dómþinginu var slitið,“ sagði Tang Yigan, embættismaður dómstólsins, við fréttamenn. „Hinn fjölskipaði dómur mun tilkynna niðurstöðu sína síðar. Gefin verður út tilkynning um birtingu dómsorðsins. Hin ákærðu Kailai og Zhang Xiaojun hreyfðu engum andmælum gegn sönnunum og ákæru um morð af ásetningi.“
Í fréttum segir að margir Kínverjar kunni að telja Gu seka um að hafa eitrað fyrir Neil Heywood, breskum kaupsýslumanni, þeir líti hins vegar á málaferlin sem lið í aðför að eiginmanni hennar Bo Xilai, framagjörnum lýðskrumara sem hafi aflað sér öflugra andstæðinga í baráttu sinni fyrir að komast í fremstu röð í nýjum leiðtogahópi kínverska kommúnistaflokksins.
Lögreglan sagði upphaflega að Gu og Zhang hefðu drepið Heywood vegna ólögmætrar færslu á fé sem Gu vildi að hann lyki fyrir sig. Þegar Gu var formlega ákærð var hin opinbera ásökun á hendur henni hins vegar sú að um persónulegan tilgang hafi verið að ræða, Heywood hafi haft uppi óljósar hótanir gegn syni hennar, Bo Guagua.
Fórnarlambið í þessu máli er breskur ríkisborgari og því var sú fátíða undantekning gerð við réttarhöldin að tveimur breskum stjórnarerindrekum var heimilað að hlusta á þau í Hefei, höfuðborg austurhéraðsins Anhui. Fréttamenn fengu hins vegar ekki aðgang að réttarsalnum.
Bretar höfðu hvatt til þess að málið yrði rekið af sanngirni og með það fyrir augum að upplýsa hið sanna um dauða Heywoods. Þær óskir voru að engu hafðar og vörn kvennanna var falin tveimur héraðslögfræðingum með litla eða enga reynslu af refsimálum. Þetta þykir benda til þess að Gu verði örugglega sakfelld. Gu er sjálf lögfræðingur og fjölskylda hennar hafði vonað að hún fengi sjálf að ráða sér verjanda.
Gu kann að verða dæmd til dauða. Sérfróðir menn telja þó líklegra að hún verði dæmd í 10 til 15 ára fangelsi. Það verði talið henni til málsbóta að hún hafi óttast um líf sonar síns og því gripið til örþrifaráða. Gu er af góðum ættum, faðir hennar var frægur hershöfðingi úr röðum kommúnista. Talið er að ætterni hennar verði til að búa henni þægilegar aðstæður í fangavistinni.
Þetta morðhneyksli varð til þess að Bo, eiginmaður Gu, var settur út af sakramenti kínverska kommúnistaflokksins. Hann hafði áunnið sér frægð fyrir harðar aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi og „rauðri endurvakningu“ í anda Maós formanns. Hófsömum mönnum í kínversku forystusveitinni þótti nóg um framgöngu hans og framgang.
Bo sætir rannsókn fyrir spillingu. Talið er að máli hans verði ekki lokið fyrr en skipt hefur verið um forystu innan Kommúnistaflokks Kína í haust.
Heimild: dw.de
Á vefsíðu Le Monde er sagt frá samtali við ónefndan heimildarmann sem sat í réttarsalnum. Hann segir að einn furðulegasti þáttur málsins tengist Wang Lijun, „ofur-lögreglumanni“ í Chongqing, þar sem Bo-hjónin réðu öllu. Wang leitaði hælis í ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Chengdu 6. febrúar 2012 og varð kveikjan að hneykslismálinu sem varð Bo Xilai að falli.
Heimildarmaður Le Monde segir að við réttarhöldin hafi Wang Lijun verið kynntur til sögunnar sem maðurinn sem upplýsti um morðið. Hann hafi þó einnig verið kynntur sem aðili að málinu frá upphafi, Gu Kailai hafi sagt honum frá fyrirætlan sinni um morðið og frá verknaðinum að honum loknum.
Saksóknari hafi lagt fram sannanir um að Neil Heywood hafi hótað Bo Guagua, syni Bo og Gu, sem hefur stundað nám í Harrow á Englandi, síðan Oxford og nú í Harvard. Því sé haldið fram að Heywood hafi hótað Bo að „eyðileggja“ hann ef hann léti sig ekki hafa 13 milljónir punda. Hótunin hafi verið kynnt í bréfi eða orðsendingu frá Heywood til Bo Guagua. Hann hafi framsent orðsendinguna til móður sinnar sem taldi sér ógnað.
Leitaði hún til Wang Lijun vegna hótunarinnar? er spurt í Le Monde. Ákæruvaldið hafi kynnt áætlun um að myrða Heywood. Hún hafi verið samin af Wang Lijun og Xu Ming, milljarðamæringi í borginni Dalian, forstjóra Shide fyrirtækisins. Hugmyndin hafi verið sú að Xu Ming léti berast að mikill eiturlyfjasali yrði í Chonqing, lögregla yrði kölluð á vettvang og Heywood drepinn af því að hann neitaði að hlýðnast henni. Þetta gekk aldrei eftir.
Fram kom að mál Wang Lijun yrði tekið fyrir sérstaklega. Gu Kailai er sökuð um að hafa eitrað fyrir Heywood en ekki hafa að sögn heimildarmanns Le Monde verið færð fram nein sönnunargögn um hvernig hún varð sér úti um eitrið.
Þá segir Le Monde að Gu Kailai hafi ekki sagt neitt annað við réttarhöldin en að játa að hún hefði drepið Heywood. Heimildarmaður blaðsins sagði að mat geðlækna á sakhæfi Gu leiddi í ljós að hún væri ábyrg gerða sinna. Tvo vitni hafa sagt að Gu Kailai hafi ekki farið að heiman frá sér nema um tuttugu sinnum allt árið því að hún sé haldin þunglyndi.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.