Sunnudagurinn 28. febrúar 2021

Össur Skarphéðinsson: VG haldi sig við stjórnar­sáttmálann vegna ESB eða skoða verður stöðuna „algerlega upp á nýtt“


12. ágúst 2012 klukkan 21:43

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði ríkisútvarpinu að kvöldi sunnudags að teldu stjórnarflokkarnir sig ekki geta staðið við sáttmála sinn um ESB við myndun ríkisstjórnarinnar þyrftu menn „menn auðvitað að skoða stöðuna algerlega upp á nýtt“.

Össur Skarphéðinsson á blaðamannafundi í Brussel.

Nokkuð uppnám hefur orðið vegna ummæla tveggja ráðherra vinstri-grænna (VG) í fréttum ríkisútvarpsins laugardaginn 11. ágúst um að ræða þurfi á vettvangi ríkisstjórnarinnar stöðuna í ESB-aðildarferlinu í ljósi umróts innan Evrópusambandsins og lengd viðræðnanna sem lýkur ekki fyrir þingkosningar hér á næsta ári.

Í tilefni af orðum VG- ráðherranna Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur um endurskoðun á ESB-aðildarferlinu hefur því sjónarmiði verið hreyft að um pólitískt bragð sé að ræða til að friða gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar innan VG fyrir flokksráðsfund eftir tæpar tvær vikur.

Viðbrögð Össurar Skarphéðinssonar sýna að hann vill bregðast við af hörku og taka af skarið um að annaðhvort haldi ESB-ferlið áfram eða stjórnarsamstarfið sé í uppnámi. Össur sagði í fréttum ríkisútvarpsins að kvöldi sunnudags 12. ágúst að VG geti ekki vikið frá stjórnarsáttmálanum og bætti við að sögn ruv.is:

„Við gerðum ákveðinn stjórnarsáttmála, hann var samþykktur af Samfylkingunni, sömuleiðis af hinum stjórnarflokknum. Ef sú staða kemur upp að stjórnarflokkarnir telja sig ekki geta búið við þann sáttmála sem þeir gerðu þá þurfa menn auðvitað að skoða stöðuna algerlega upp á nýtt.“

Á ruv.is segir einnig að fréttastofan hafi heimildir fyrir því að óformlegar viðræður hafi átt sér stað milli stjórnarflokkanna um ESB-málið. Össur segir hins vegar að ósk um formlegar viðræður hafi ekki komið fram. Hann vildi ekki svara spurningu ríkisútvarpsins hvort Samfylkingin mundi gefa kost á slíkum viðræðum. „Menn verða að taka afstöðu til þess þegar menn standa andspænis því,“ sagði Össur.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 10. maí 2009 segir að ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem muni greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra leggi fram á alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi, gekk það eftir og var ályktunin samþykkt 16. júlí 2012.

Í stjórnarsáttmálanum er tekið fram að stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggi fyrir sé háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Tekið er fram að víðtækt samráð verði á vettvangi alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Þá segir orðrétt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

„Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma.“

Af viðbrögðum utanríkisráðherra við ummælum tveggja samráðherra hans úr VG má draga þá ályktun að hin tilvitnuðu orð heimili forráðamönnum VG ekki að óska eftir formlegum viðræðum um stöðuna í ESB-viðræðunum vegna efasemda um að þær séu á réttu róli.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS