Laugardagurinn 16. janúar 2021

ESB-þing­nefnd samþykkir breytingar á Dublin­reglunum um afgreiðslu á hælisbeiðnum - réttarstaða hælisleitenda skýrð - endursending með brottvísun áfram megin­regla


20. september 2012 klukkan 11:16

ESB-þingmenn hafa samþykkt tillögu í nefnd um að auka réttindi hælisleitenda innan ESB eftir að málið hefur verið fjögur ár til umræðu. Um er að ræða breytingar á svonefndum Dublinreglum (Dublin II agreement) sem gilda einnig um hælisleitendur hér á landi.

Cecilia Wikstrom

Niðurstaða fékkst um málið í borgararéttindanefnd ESB-þingsins miðvikudaginn 19. september og verður breytingin á Dublinreglunum að lögum í desember ef ESB-þingið samþykkir hana. Sænski, frjálslyndi, ESB-þingmaðurinn Cecilia Wikstrom hefur leitt málið innan nefndarinnar. Hún segir að með breytingunni sé skýrð réttarstaða hælisleitenda og ábyrgð einstakra ríkja.

Í Dublinreglunum er mælt fyrir um hvaða ríki ber ábyrgð á afgreiðslu á hælisumsókn og reglunum er ætlað að koma í veg fyrir að sami maður sæki um hæli í mörgum löndum. Til dæmis má nefna að komi hælisleitandi til Evrópu á Ítalíu en ferðast þaðan til Hollands og sækir um hæli geta hollensk yfirvöld sent hann til baka vegna þess að Ítalía var fyrsta áfangaland hans og ítölsk yfirvöld verða því að afgreiða mál hans og sjá um nauðþurftir hans á meðan það er gert.

Á árinu 2011 leituðu 302.000 hælis innan ESB sem er 16,2% aukning frá 2010. Alls var rúmlega 80.000 veitt hæli, flestir komu frá Afganistan, Írak og Sómalíu.

Dublinreglurnar hafa leitt til þess að hælisleitendur eru fluttir fram og til baka og komið fyrir á stöðum sem þykja ekki hæfir mannabústaðir vegna hreinlætis, þrengsla og ofríkis yfirvalda. Þá hafa margir hælisleitenda ekki vitað hvert þeir ættu að snúa sér vegna ágreinings yfirvalda hver skuli fara með mál þeirra.

Mannréttindadómstóll Evrópu fann að við því belgísk stjórnvöld árið 2011 að þau hefðu sent afganskan hælisleitanda til Grikklands þar sem hætta væri á að gengið yrði á rétt hans. Grikkir gætu ekki að mati dómaranna tryggt hælisleitandanum að mannréttindi hans yrðu virt. Þessi dómur hefur valdið því að yfirvöld hér á landi vilja ekki endursenda hælisleitendur til Grikklands.

Mannréttindadómstóllinn hefur einnig gagnrýnt Ítali fyrir að fara illa með flóttamenn frá Afríku. Danir og Finnar hafa gert hlé á endursendingu hælisleitenda til Ítalíu.

Tillagan sem samþykkt var í borgararéttindanefnd ESB-þingsins bannar einstökum ríkjum að endursenda hælisleitanda eigi hann á hættu að hljóta „ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð“ í móttökuríkinu. Sé ekki unnt að tryggja grundvallarréttindi verður viðkomandi ríki að stöðva brottvísunarferli, afgreiða hælisumsóknina og annast um hælisleitandann.

Yfirvöldum er einnig gert skylt að ræða við hvern hælisleitanda, veita honum svar innan þriggja mánaða um allar brottvísunar-ákvarðanir og loka þá aðeins inni sem „veruleg“ hætta er á að ætli að laumast úr landi. Þá má aðeins beita varðhaldi í þrjá mánuði.

Hælisleitanda skal heimilt að áfrýja úrskurði um brottvísun og fá lögfræðilega aðstoð á tungumáli sem hann skilur óski hann þess. Hælisleitandi dvelst í viðkomandi landi á meðan áfrýjun hans er til meðferðar á æðra stjórnstigi, börn sem eru ein á ferð hafa rétt til að setjast að hjá skyldmennum sínum utan nánustu fjölskyldu.

Í tillögunum er einnig að finna ákvæði um „viðvörunarkerfi“ sem ætlað er að koma í veg fyrir að ástandið í einhverju ríki komist á stjórnlaust stig.

Verði Dublinreglunum breytt á þennan hátt gilda nýju reglurnar aðeins fyrir þá sem óska eftir hæli sex mánuðum eftir að þær taka gildi og breytingin er ekki afturvirk.

Heimild: EUobserver

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS