Mánudagurinn 18. janúar 2021

Kína: Fimmta kynslóð kínverskra kommúnista tekur við völdum - einn af rauða aðlinum verður leiðtogi


15. nóvember 2012 klukkan 11:52

Fastanefnd stjórnmálaráðs Kína kynnt 15. nóvember 2012.

Ný kynslóð kínverskra leiðtoga með Xi Jinping (59 ára) í fararbroddi var kynnt fimmtudaginn 15. nóvember í Höll alþýðunnar í Peking á fundi með meira en 200 fjölmiðlamönnum, kínverskum og erlendum. Sjö svartklæddir menn í fastanefnd stjórnmálaráðs flokksins röðuðu sér upp á fyrsta blaðamannafundi sínum. Hann var haldinn í tilefni af fyrsta fundi 205 manna miðstjórnar flokksins sem valin var 14. nóvember á síðasta degi 18. þings Kommúnistaflokks Kína (KK).

Xi Jinping kynnti aðra „félaga“ í fastanefnd stjórnmálaráðsins og flutti ræðu. „Flokkur okkar stendur frammi fyrir alvarlegum viðfangsefnum. Meðal flokksmanna er glímt við vanda vegna spillingar, skorts á tengslum við almenning, skrifræðis – gegn þessu verðum við að snúast,“ sagði hinn nýi leiðtogi Kína, annars mesta efnahagsveldis heims. „Við eigum að vera stoltir en ekki sjálfumglaðir, við eigum ekki að liggja á liði okkar,“ sagði hann.

Í fastanefndinni sitja fyrir utan Xi: Li Keqiang, fráfarandi varaforsætisráðherra, hann verður forsætisráðherra í mars 2013, Zhang Dejiang, hann hefur stjórnað Chonqing héraði í suðvestur Kína, Yu Zhengsheng, borgarstjóri í Shanghai, Liu Yunshan, hann hefur til þessa stjórnað áróðursdeild flokksins, Wang Qishan, fyrrverandi borgarstjóri í Peking, verkefni hans verður að berjast gegn spillingu, og Zhang Gaoli, borgarstjóri í Tianjin, hafnarborg nálægt Peking.

Undanfarna mánuði hafa menn um heim allan velt fyrir sér hverjir þessir sjö menn yrðu því að val þeirra fer fram bakvið luktar dyr flokksins og sögusagnir hafa verið á kreiki um valdabaráttu milli ólíkra hópa manna. KK er stærsti stjórnmálaflokkur heims með 82 milljónir félaga. Nú tekur við fimmta kynslóð valdamanna kommúnista frá því að hann komst til valda undir forystu byltingarmanna en þar var Maó formaður fremstur. Hann er enn hafður í hávegum í Kína þótt talið sé að enginn valdamaður hafi valdið dauða jafnmargra og hann.

Xi Jinping tekur við af Hu Jintao sem aðalritari KK og tekur einnig við yfirstjórn hersins eftir að hann hefur verið skipaður formaður hermálanefndarinnar. Legið hefur fyrir síðan 2007 að Xi tæki við af Hu Jintao ef áform kínversku valdastéttarinnar rættust.

Xi Jinping er af rauða aðlinum í Kína, hann er í hópi þeirra sem menn kalla þar erfðaprinsa (Taizi). Xi Zhongxun, faðir hans, barðist með Maó í byltingunni og var síðan einn þeirra sem stóðu að efnahagsumbótum í suðurhluta landsins í lok áttunda áratugarins. Xi er talinn hægfara umbótasinni. Hann tekur endanlega við öllum völdum og verður settur í embætti forseta í mars 2013 þegar þing Kína kemur saman. Þá verður Li Keqiang forsætisráðherra í staðinn fyrir Wen Jiabao.

Í franska blaðinu Le Monde er minnt á að ýmis spillingarmál hafi sett svip sinn á síðustu mánuði valdatímans sem er kenndur við Hu Jintao og Wen Jiabao. Stórstirni í kínverskum stjórnmálum, Bo Xilai, keppinautur Xi Jinpings, var settur út af sakramentinu skömmu áður en 18. flokksþingið hófst 8. nóvember 2012. Hann var sakaður up spillingu. Eiginkona hans hefur verið dæmd fyrir hlutdeild í morði á breskum kaupsýslumanna. Bloomberg-fréttastofan og The New York Times hafa skýrt frá því að menn nálægir Xi Jinping og Wen Jiabao hafi safnað miklum auði.

Xi Jingping er kvæntur Peng Liyuan, söngkonu í Alþýðuher Kína. Hún er þjóðkunn í Kína fyrir „kitsch“ byltingarstíl sinn. Hún hefur leikið listir sínar í nýársdagskrá kínverska ríkissjónvarpsins, kom þar síðast fram í janúar 2012 og söng klædd hvítum, glæsilegum einkennisbúningi hermanns umkringd rauðklæddum dansmeyjum. Frá því að Jiang Qing, frú Maó, setti svip sinn á kínversk stjórnmál, hafa eiginkonur forystumanna Kína ekki verið í sviðsljósinu þar til nú. Frú Maó sat síðustu æviár sín í fangelsi. Peng Liyuan er mun þekktari meðal almennings í Kína en Xi Jingping, eiginmaður hennar og verðandi forseti. Þau eiga eina dóttur Xi Mingze, 20 ára háskólanema í Harvard í Bandaríkjunum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS