Ný vandræði munu steðja að Evrópusambandinu næstu daga þegar boðað hefur verið til auka-leiðtogafundar til að taka afstöðu til langtíma-fjárlaga sambandsins. Allt bendir til að viðræður leiðtoganna um málið verði árangurslausar þótt reynt verði að gera sem minnst úr ágreiningi einkum af hálfu framkvæmdastjórnar ESB sem á mest undir að útgjöld aðildarríkjanna til sambandsins hækki á næstu árum.
Leiðtogafundurinn er boðaður fimmtudaginn 22. og föstudaginn 23. nóvember. Í aðdraganda hans hafa leiðtogarnir skipst á skoðunum óformlega. Angela Merkel Þýskalandskanslari hitti David Cameoron, forsætisráðherra Breta, í London á dögunum, Þau náðu ekki samkomulagi. Deilan um fjárlögin snertir ekki aðeins árin 2014 til 2020 heldur einnig fjáraukalög ársins 2012 og fjárlög ársins 2013. Um skammtíma fjárlögin er fjallað á ESB-þinginu þar sem allt er í uppnámi vegna ágreinings. Þessi fjárlög eru í sjálfu sér ekki ákvörðunarefni leiðtoganna að þessu sinni.
„Enginn getur slegið neinar keilur á þessum leiðtogafundi,“ sagði ESB-embættismaður við AFP-fréttastofuna. „Gerist hið óvænta að sameiginleg niðurstaða náist verða allir hundóánæðir með hana.“
Annar embættismaður sagði: „Við útilokum ekki að upp úr slitni.“ Hann vildi ekki láta nafns síns getið.
Fundur leiðtoganna um fjárlögin 2014 til 2020 hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma fimmtudaginn 22. nóvember. Litið er á David Cameron sem helsta vandræðagripinn í hópunum þótt allir komi leiðtogarnir með bundnar hendur vegna hagsmuna landa sinna.
„Cameron mun birtast með stóran niðurskurðarhníf auk þess að verða harður á því að Bretar fái afslátt á greiðslum sínum til ESB,“ sagði ESB-embættismaður.
Bretar vilja að útgjöld áranna 2014 til 2020 lækki um 200 milljarða evra. Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðsins, sem stýrir fundum ráðsins reyndi að miðla málum í síðustu viku með tillögu um að 1.047 milljarða tillaga framkvæmdastjórnar ESB verði lækkuð um 75 milljarða evra. Enginn fagnaði tillögunni frá Van Rompuy. Áður höfðu Kýpverjar sem fara með forystu í ráðherraráði ESB nefnt 50 milljarða evru lækkun.
Spánverjar sögðu að tillagan frá Van Ropmuy þýddirað þeir mundu þeir tapa 20 milljörðum evra í styrkjum og Ítalir að þeir töpuðu 10 milljörðum.
Hópur Nóbelsverðlaunahafa flaug til Brussel og veifaði bréfi þar sem þess var farið á leit við Van Rompuy og aðra embættismenn ESB að þeir skæru ekki niður rannsóknar- og nýsköpunarsjóði ESB. Bréf af þessu tagi hefur gengið milli háskóla- og vísindamanna hér á landi og hafa þeir verið beðnir að hvetja stjórnendur ESB til að standa vörð um þessi útgjöld.
„Það er fagnaðarefni að leiðtogafundir af þessu tagi eru aðeins á sjö ára fresti,“ sagði Van Rompuy föstudaginn 16. nóvember þegar öll spjót stóðu á honum.
Í tillögu hans felst að Bretar missa nokkuð af 3,6 milljarða evru árlegum afslætti sínum, afsláttur Svía er minnkaður og ekki tekið tillit til óska Dana um afslátt þeim til handa.
Þessar þrjár þjóðir eru í hópi 11 ESB-þjóða sem leggja meira fé til ESB en þær þiggja þaðan. Íslendingar stækkuðu þennan hóp kæmi til aðildar þeirra að ESB. Stjórnendum þjóðanna 11 finnst nóg um útgjöld sín til ESB á tímum efnahagslegra þrenginga og niðurskurðar á heimavelli.
Forystumenn átta þjóða sem leggja ESB til fé Austurríkis, Bretlands, Danmerkur, Finnlands, Frakklands, Hollands, Svíþjóðar og Þýskalands hafa tekið höndum saman og krefjast niðurskurðar útgjalda hjá ESB, þeir eru þó alls ekki sammála um hve mikill hann eigi að vera.
Frakkar eru til dæmis sammála Ítölum um að alls ekki komi til greina að minnka framlög til landbúnaðar en útgjöldin til landbúnaðarmála eru stærsti liðurinn á útgjaldahlið ESB-fjárlaganna.
„Ekki kemur til álita að draga úr greiðslum til sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar, ekki um eina einustu evru,“ sagði Jean-Marc Ayrault, forsætisráðherra Frakka á dögunum. Stjórn hans vill að ESB afli sér nýrra tekna með skatti á fjármagnsfærslur.
Þegar litið er á hina hlið málsins eru 15 þjóðir innan ESB sem fá meira úr sjóðum sambandsins en þær greiða til þeirra. Litið er á þessa sjóði sem tæki til að jafna kjör milli íbúa auðugra og fátækra þjóða sambandsins þeir eru nefndir cohesion funds á ensku –samheldnissjóðir-. Þetta er næst stærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum ESB á eftir landbúnaðarsjóðunum.
Pólverjar og Portúgalir fara fyrir 15 ríkja hópnum en í honum eru: Búlgaría, Eistland, Grikkland, Lettland, Litháen, Malta, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland – nýlega gekk Spánn síðan í þennan flokk ríkja.
Þjóðverjar leggja mest fé af mörkum til ESB. Angela Merkel hefur heitið að leggja sig alla fram til að árangur náist á leiðtogafundinum. Frakkar sæta æ meiri tortryggni en áður eftir að sósíalistar náðu þar völdum. The Economist sagði í vikunni sem leið að Frakkland væri tímasprengja í hjarta Evrópu. François Hollande Frakklandsforseti hvetur til þess að ESB leggi áherslu á vöxt í stað niðurskurðar. Á það er hins vegar bent að fastheldni Frakka í varðstöðu þeirra vegna landbúnaðarsjóðanna muni draga úr fjárveitingum til verkefna í þágu vaxtar.
Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.