Mánudagurinn 18. janúar 2021

Heimsráð­stefna um fjarskipti: Tekist á um framtíð internetsins - fá ríkis­stjórnir rétt til íhlutunar í netheimum?


3. desember 2012 klukkan 13:55

Heimsráðstefna um alþjóðleg fjarskipti er hafin í Dubai og þar verður meðal annars tekist á um stöðu internetsins, hvort áfram beri að líta á netheima sem „heimsþorp“ eða ekki. Rússar vilja að stjórn í netheimum verði færð í hendur einstakra ríkja. Bandaríkin og ESB leggjast eindregið gegn því.

Hamadoun Touré

Fulltrúar 193 landa sem aðild eiga að Alþjóðafjarskiptasambandi Sameinuðu þjóðanna (ITU) koma saman til 13 daga aðalþings í Dubai mánudaginn 3. desember. Talið er að hugsanlegar nýjar reglur um internetið muni setja mestan svip á umræður á þinginu.

Átakalínur skýrðust í aðdraganda Dubai-þingsins eftir að Rússar lögðu fram tillögu um meiri stjórn einstakra ríkja í netheimum. Fréttum af tillögu Rússa var lekið til fjölmiðla af aðgerðarsinnum sem krefjast meiri upplýsinga um það sem gerist á bakvið luktar dyr Alþjóðafjarskiptasambandsins. Aðgerðarsinnarnir kalla sig WCITIleaks og skírskota með því til Wikileaks og lekans sem birst hefur fyrir tilstilli þess.

„Aðildarríki skulu hafa fullveldisrétt til að setja reglur … um þann hluta internetsins sem fellur undir þau,“ segir í tillög Rússa. Með þessu vilja þeir breyta gildandi Internet Telecommunications Regulations (ITR) frá 1998.

Yrði tillagan samþykkt ættu einstök ríki auðveldara með að skrá internet umsvif og hugsanlega leggja gjöld á risa í netheimum eins og Google og Yahoo vegna alþjóðlegrar starfsemi þeirra. Flest stærstu netfyrirtæki heims eiga lögheimili í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn leggjast eindregið gegn því að internetið verði sett á einn eða annan hátt undir ITU eða samninga á þess vegum. Þeir vilja ekki að ríkisstjórnir hafi heimild til afskipta af efni sem sett er inn á netið, þær geti bannað fólki að kynna sér efni í netheimum eða segja þar skoðun sína.

Dr. Hamadoun Touré (frá Malí), framkvæmdastjóri Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU), vill ekki að menn geri of mikið úr tillögu Rússa um að ITU fái stjórn internetsins í sínar hendur og taki völdin í netheimum úr höndum aðila í Bandaríkjunum eins og Icann. „Það er engin þörf á að ITU taki að sér stjórn internetsins,“ sagði Touré en einnig: „Hinn bitri sannleikur er að einum ríki hluti heims nýtur þeirra sérréttinda að nota netið. ITU vill breyta því.“

Evrópusambandið hefur lagst gegn tillögu Rússa. Framkvæmdastjórn ESB sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að ESB teldi ekkert réttlæta slíkar tillögur, þær mundu hafa neikvæð áhrif á nýsköpun og rekstrarkostnað og skaða bæði fyrirtæki og notendur.

Neelie Kroes, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB sem fer með málefni tengd netstarfsemi fyrir hönd ESB, lýsti andstöðu við tillögu Rússa á Twitter og sagði:

„Internetið er starfhæft, óþarft er að setja það undir alþjóðafjarskiptareglur. Ef það er í lagi á ekki að eiga við það. […] Netið er alheimseign sem ekki verður metin til fjár og á að vera opin fyrir alla hvar sem er í heiminum.“

Hlutverk Alþjóðafjarskiptasambandsins er að móta, semja og samræma vinnureglur (staðla) sem aðildarríkin vilja skuldbinda sig til að starfa eftir. Stofnunin leggur þar með grunn að tækniþróun í fjarskiptum á heimsvísu.

Grunnurinn að samtökunum var lagður árið 1865 og hafa þau alla tíð verið brautryðjandi í alþjóðasamstarfi á fjarskiptasviði. Í júlí árið 1948 voru Alþjóðapóstsambandið (UPU) og Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) gerð að undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Aðalþing ITU eru haldin á fjögurra ára fresti. Þar er mörkuð meginstefna samtakanna fram yfir næsta aðalþing og kosið í stjórn. Póst- og fjarskiptastofnun er formlegur aðili Íslands að ITU. Að þessu sinni er í fyrsta sinn síðan 1988 sem aðalþing ITU hefur heildarreglur um fjarskipti til endurskoðunar. Rúmlega 900 breytingartillögur hafa verið kynntar.

Meðal þess sem ríki vilja breyta eru síur gegn dreifibréfum, lækkun á reikigjöldum í síma og forgangur neyðarhringinga. Niðurstaðan verður sett saman í alþjóðasamning sem gildir þó ekki gagnvart einstökum ríkjum nema þau samþykki hann.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS