Fimmtudagurinn 4. mars 2021

Ítalskur blaðamaður: Ríkis­stjórn Íslands þorði ekki að halda fram ágæti ESB af ótta við kjósendur - Íslendingar eiga ekki erindi í ESB


21. janúar 2013 klukkan 15:22
Alessio Pisanò

Alessio Pisanò, blaðamaður frá Ítalíu sem sérhæfir sig í málefnum Evrópusambandsins, birtir sunnudaginn 20. janúar grein á vefsíðu hóps ungra manna sem kalla sig The New Federalists (Nýju sambandsríkissinnarnir) þar sem biðst undan því að Íslendingar gangi í ESB á þessari stundu, sambandið þarfnist ekki annarrar þjóðar eins og Breta. Ítalski blaðamaðurinn efast um heilindin að baki umsókn Íslands og segir íslensku ríkisstjórnina ekki treysta sér til að halda ESB-málstaðnum fram í kosningabaráttunni af ótta við fylgisleysi meðal kjósenda.

Hér er greinin eftir Alessio Pisanò í íslenskri þýðingu Evrópuvaktarinnar:

„Segja má að ekki ráði annað en eigin hagsmunir þegar ríki utan ESB leita eftir fyrstu tengslum við Brusselmenn. Einmitt þess vegna eru nú fimm ESB-umsóknarríki (Ísland, Makedónía. Svartfjallaland, Serbía og Tyrkland), þess vegna eru Bretar enn í ESB og þess vegna frystu Íslendingar nýlega aðildarviðræður sína. Yfirlýsing íslensku ríkisstjórnarinnar sl. mánudag [14. janúar] um að gera hlé á viðræðum við Brusselmenn þar til eftir þingkosningar í apríl nk. ræðst aðeins af hagsmunum. Við skulum skoða hvers vegna.

Smáeyjan nálgaðist ESB fyrst eftir að bankakerfi hennar hrundi árið 2008, atburður sem skapaði vandræði í mörgum löndum. Vafasöm þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um hvort greiða ætti til baka eða ekki alþjóðlegar skuldir íslenskra banka og skapaði vanda í samskiptum þjóðarinnar við nánustu samstarfsþjóðir hennar í Bretlandi og Hollandi og setti þjóðina til hliðar innan Evrópu. Evrópusambandsdómstóllinn á enn eftir að fella dóm í málinu. Almenningur á Íslandi hefur aldrei verið hrifinn af því að ganga í ESB þar sem aðild krefst þess að farið sé að sameiginlegum reglum. Erlendum reglum um landbúnað og sjávarútveg er ekki fagnað á Íslandi.

Eftir hrun bankanna 2008 þótti Jóhönnu Sigurðardóttur, nýja forsætisráðherranum, brýnt að komast strax inn í „hjarta Evrópu“, þar sem án efa hefði Evrópusambandið og upptaka evru verið fullkomin aðgerð til að leysa skuldavanda þjóðarinnar. Hér stöndum við að nýju frammi fyrir hreinum hagsmunum. Síðan hafa Íslendingar lagt af stað í hina löngu leið til ESB-aðildar og hafa fullnægt skilyrðum 11 kafla af 30.

Nú hefur hins vegar eitthvað breyst. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tilkynnti sl. mánudag að viðræðurnar yrðu stöðvaðar „til að einbeita sér betur að þingkosningum“. Sendiherra Íslands í Brussel gerði grein fyrir því 17. janúar að í þessu felist ekki fráhvarf frá vilja landsins til að ganga í ESB og taka upp evruna. „Réttu skilaboðin eru að við hægjum á viðræðunum og við erum ekki að slíta þeim,“ sagði hann. Hann bætti síðan við: „Tilgangurinn er að tryggja hæfilega og rólega stjórn á ESB-aðildarferli Íslands á meðan háð er kosningabarátta“.

Allt kann þetta að vera rétt en við skulum líta á málið frá hinni hliðinni. Í kosningabaráttu reynir hver stjórnmálaflokkur á ná í sem mest fylgi. Við þær aðstæður ákveður ríkisstjórnin að draga ESB-spilið til baka. Hvers vegna? Greinilega vegna þess að ESB höfðar ekki lengur nægilega mikið til íslenskra kjósenda. Efnahagskreppan og óvissa um örlög evrunnar þrátt fyrir allt sem fyrir hana hefur verið gert í Brussel undanfarna mánuði varð til þess að ESB líktist gömlum dalli í ólgusjó. Íslenska ríkisstjórnin óttast að með því að berjast opinberlega fyrir ESB-málefnum dragi hún úr eigin sigurlíkum. Staðan er raunar sú að í komandi kosningum á mið-vinstri stjórnin í harðri samkeppni við stjórnmálaflokka sem hafa verulegar efasemdir um ESB.

„Við tökum mið af því sem þeir hafa ákveðið. Framkvæmdastjórn ESB er nú sem fyrr sannfærð um að aðild Íslands að ESB yrði báðum aðilum til hagsbóta og mun áfram fylgja Íslendingum á leið þeirra til ESB-aðildar,“ sagði Štefan Füle stækkunarstjóri. Íslenski sendiherrann viðurkenndi að afstaða samlanda hans til ESB-aðildar hefði breyst þar sem „kreppan hefur áhrif á viðhorf þjóða til sambandsins“. Jafnvel þótt þessi afstaða til ESB sé að einhverju leyti skiljanleg, er hún einskis virði. Takist almenningi ekki að átta sig skýrt á því hvað felst í aðild að ESB þegar litið er til réttinda og skyldna verður aðild lands þeirra að sambandinu aldrei heilbrigð og gefandi. Um þessar mundir þarfnast ESB ekki annars Bretlands.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS