Fremstu sérfræðingar í Noregi segja að ekki verði neitt kapphlaup um vinnslu á olíu og gasi í Norður-Íshafi. Aðstæður séu alltof erfiðar til að stunda vinnsluna auk þess sem verð á gasi lækki. Norður-Íshafs-orkuveislan verði ekki eins glæsileg og margir væntu. Hugsanlega gildi þetta ekki á svæði Norðmanna í Barentshafi.
Þetta kemur fram í frétt frá norsku fréttastofunni NTB mánudaginn 28. janúar.
„Á okkar svæði í Barentshafi eru horfur viðunandi ef rétt er að málum staðið. Sé litið á Norður-Íshafið í heild blasa við stór vandamál,“ segir Rolf Tamnes hjá Institutt for forsvarsstudier (IFS), Rannsóknarstofnun varnarmála, við NTB.
Miklu skiptir að markaðurinn hefur tekið gífurlegum breytingum á síðustu þremur til fjórum árum. Leirsteinsbyltingin í Bandaríkjunum, það er að vinna gas úr jarðefnum, hefur gjörbreytt markaðsaðstæðum þar. Bandaríkjamenn hrópa ekki lengur á gas frá öðrum þjóðum heldur geti þeir sjálfir tekið til við að flytja út mikið magn af gasi og það gjörbreytir öllum viðhorfum í orkumálum heims.
„Það eru einnig alls staðar gerðar miklar kröfur í umhverfismálum. Rússar stefna að því að gnæfa yfir aðra við orkuvinnslu á norðurslóðum. Þar strandar hins vegar margt á stjórnkerfinu og hinum óljósu mörkum milli hins opinbera og fyrirtækja,“ segir Tamnes við NTB.
Hann dregur þessar ályktanir af því sem fram kom á fimm daga sérfræðingafundi um norðurslóðir í Tromsø í síðustu viku þar sem menn skiptust á skoðunum um geopólitíska þróun á heimskautasvæðinu á ráðstefnu undir heitinu Arctic Frontiers.
Í frétt NTB um ráðstefnuna segir að þar hafi Ingrid Opdahl, rannsóknarstjóri hjá IFS, sagt að það tefði fyrir þróun olíuiðnaðar á Norður-Íshafi að rússnesk stjórnvöld hafi veitt ríkisfyrirtækjunum Gazprom og Rosneft einkanýtingarrétt á landgrunni Rússlands.
Erlend fyrirtæki sem ráði yfir þekkingu og tækni til vinnslu á hafi úti geti við bestu aðstæður vænst þess að komast að sem minnihlutaaðilar.
„Það stuðlar ekki heldur að þróun mála í Rússlandi að engir aðrir en Gazprom og Rosneft fá leyfi til að athafna sig á landgrunninu. Fyrirtækin eru þátttakendur í valdtafli sem snýst um að breyta viðskiptaveldi í pólitísk sérréttindi,“ sagði Ingrid Opdahl í erindi í Tromsø.
Arild Moe, aðstoðarforstjóri Fridtjof Nansens Institutt, er talinn ein helsti sérfræðingur Norðmanna í málefnum sem snerta rússneska orkumarkaðinn. Hann er sammála því sem Tamnes segir og telur að á næsta leiti sé að aflýsa orkuveislunni á landgrunni Norður-Íshafs.
„Nú eru að verða algjör þáttaskil miðað við almennar væntingar fyrir fáeinum árum um að alls staðar mundu menn leita að tækifærum, afstaðan er miklu hófstilltari núna,“ segir Moe við NTB.
Hann telur að fyrir þessu séu tvær höfuðástæður:
Í fyrsta lagi hafi olíufyrirtækin leitað fyrir sér og áttað sig á hinum erfiðu heimskautaaðstæðum. Við þeim blasi að það sé mun meiri erfiðleikum bundið að stunda þarna vinnslu en þau áður töldu.
Í öðru lagi hafi gasmarkaðurinn breyst til mikilla muna og þess vegna sé ekki eins aðlaðandi og áður að hefja gasvinnslu við þessar erfiðu aðstæður. Gas sé einmitt það sem menn telji helst að finna á landgrunni Norður-Íshafs.
Moe telur hins vegar að ekki gildi hið sama um norska hluta Barentshafs og aðra hluta Norður-Íshafs. Á norska hlutanum séu aðstæður til vinnslu ekki mjög frábrugðnar því sem menn hafi kynnst sunnar við strönd Noregs. Á þessum hluta norðurskautsins minni veðrátta og annað minnst á það sem almennt sé á Norður-Íshafi. Þá hafi Norðmenn þegar hafið vinnslu á þessum slóðum á Snøhvit-svæðinu, áhuginn á henni hafi ef til vill minnkað en þegar hafi verið fest fé í öllum grunn-mannvirkjum og það sé ódýrara að stækka þau en ráðast í mannavirkjagerð á nýjum stað. Þess vegna kunni gasvinnsla á Melkøya fyrir norðan Hammerfest að aukast þótt verð á gasi lækki á heimsmarkaði, segir Arild Moe við NTB.
+Hér birtist í heild bréf sem Víglundur Þorsteinsson afhenti í Alþingishúsinu mánudaginn 10. febrúar. Áður hafði Víglundur skrifað Einari K. Guðfinnssyni forseta Alþingis um sama efni.+ Bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, Hr. formaður Ögmundur Jónasson Í framhaldi af b...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.