Föstudagurinn 23. apríl 2021

Sjálfstæðis­barátta Skota: Deilur harðna á milli skosku og bresku ríkis­stjórnanna - David Cameron sakaður um neikvæðar árásis


10. febrúar 2013 klukkan 12:53
Nicola Sturgeon, varaforsætisráðherra Skota, og Alex Salmond, forsætisráðherra Skota, kynna sjálfstæðuissjónarmið.

Skotar eiga að vera áfram í Sameinaða konungdæminu (United Kingdom, UK) segir David Cameron, forsætisráðherra Breta, á vefsíðu breska forsætisráðuneytisins. Hann telur að undir forystu tveggja ríkisstjórna sem gæti hagsmuna Skota, njóti þeir hins besta innan tvíþætts kerfis. Cameron segist munu höfða til „huga og tilfinninga“ til að halda konungdæminu áfram sameinuðu.

Breska ríkisstjórnin undirbýr útgáfu á skýrslu um stöðu Skotlands innan sameinaða konungdæmisins og er útgáfan liður í undirbúningi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu meðal Skota á næsta ári um sjálfstæði þeirra. Skoskir þjóðernissinnar hafa sakað forsætisráðherrann um að einblína á „neikvæða hlið“ málsins.

Fyrsta skýrsla ríkisstjórnarinnar í London um stöðu Skotlands verður birt mánudaginn 11. febrúar. Sama dag birtist í Skotlandi niðurstaða vinnuhóps um stöðu ríkisfjármála og efnahag sjálfstæðs Skotlands. Alex Salmond, leiðtogi skoskra þjóðernissinna og forsætisráðherra Skotlands, skipaði vinnuhópinn í mars 2012.

Af hálfu vinnuhópsins hefur verið skýrt frá að í skýrslu hans sé ekki tekin afstaða til þess hvaða leið Skotar eigi að velja í sjálfstæðismálinu en hins vegar sé gerð grein fyrir kostum sem við þeim blasi kjósi þeir sjálfstæði.

Í kynningunni á væntanlegri skýrslu á vegum stjórnar sinnar segir Cameron að hann muni beita sér fyrir að „staðreyndir“ vegna sjálfstæðis Skotlands verði birtar öllu almenningi. Skotar megi ekki taka stökk í myrkri heldur yfirvegaða ákvörðun í dagsbirtu. Hann höfðar til þess að í þrjár aldir hafi Skotar tekið þátt í að skapa stofnanir á borð við NHS, breska heilbrigðiskerfið, og BBC, breska ríkisútvarpið, sem njóti virðingar um heim allan, þeir hafi barist fyrir frelsi og lýðræði í tveimur heimsstyrjöldum undir merkjum Sameinaða konungdæmisins og verið frumkvöðlar í viðskiptum um heim allan.

Cameron segist ekki eyða orðum að sjónarmiðum þeirra sem telji að Skotar geti ekki staðið á eigin fótum. Málið snúist um hvort á Skotlandi sé öflugra, öruggara, auðugra og sanngjarnara þjóðfélag utan eða innan Sameinaða konungdæmisins. Hann segir að svarið við þeirri spurningu sé skýrt.

Skoska ríkisstjórnin birti fyrir nokkrum dögum 16 blaðsíðna „vegvísi“ frá þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 til sjálfstæðs ríkis árið 2016. Þar segir að vilji meirihluti Skota sjálfstæði verði Skotland sjálfstætt ríki í mars 2016 og kosið verði til nýs, sjálfstæðs þings í maí 2016.

David Cameron gagnrýndi Skoska þjóðernisflokkinn (SNP) fyrir að kynna lokaskref til sjálfstæðis. Hann segir að þetta kynningarstarf einkennist af fljótfærni og líkir því við að í kvikmynd birtu menn lokakynningu og þakkarlista áður en áhorfendur fengju tækifæri til að sjá sjálfa kvikmyndina.

Nicola Sturgeon, varaforsætisráðherra Skotlands, hefur snúist til varna fyrir birtingu „vegvísins“. Hún segir:

„Kosningastjórnin hefur hvatt til þess að báðir aðilar að sjálfstæðisumræðunum birti Skotum meiri upplýsingar og vinni saman að umræðum um hvað gerist eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Við erum sammála kosningastjórninni og höfum þess vegna birt upplýsingar um breytingaferlið til sjálfstæðis verði það samþykkt.

Ummæli forsætisráðherrans [Camerons] gefa til kynna að hann hafi tilmæli kosningastjórnarinnar að engu – þótt ríkisstjórnin í Westminster [London] hafi áður hvatt skosku ríkisstjórnina til að fara að ráðum kosningastjórnarinnar.

David Cameron leggur ekkert jákvætt til mála, hann lætur við það eitt sitja að stunda neikvæðar árásir. Sjálfstæðissinnar flytja jákvæðan boðskap og búa sig undir framtíðina.

Með því að skipa sér í forystu nei-sinna minnir hann almenning aðeins á að hann er í forystu ríkisstjórnar sem Skotar hafa ekki kosið og að sjálfstæði er eina leiðin fyrir Skota til að lúta ávallt ríkisstjórn sem þeir kjósa sjálfir.“

Heimild: BBC

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS