Mánudagurinn 18. janúar 2021

Sjálfstæðis­barátta Skota: Tekist á um stöðuna gagnvart Evrópu­sambandinu - þarf að semja frá gunni eða innan ESB-hópsins?


11. febrúar 2013 klukkan 14:11

Tveir mikils metnir lögfræðingar segja í álitsgerð til bresku ríkisstjórnarinnar að ákveði Skotar að slíta tengslin við Sameinaða konungdæmið (UK) verði þeir að sækja um aðild að Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum eins og hver önnur sjálfstæð þjóð. Aðildarferlið kynni að taka nokkur ár.

David Cameron, fortsætisráðherra Bretlands og Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands.

Í The Guardian segir að álitsgerðin hafi verið kynnt ríkisstjórninni sem trúnaðarmál en hún verði síðar birt opinberlega. Þar komi fram að Skotum verði gert að taka upp evru, þeir glati afsláttarkjörum sem Bretar njóta við greiðslur ESB-aðildargjalda. Þá muni þeir ekki lengur standa utan Schengen-samstarfsins. UK er aðili að 14.000 alþjóðasamningum. Lögfræðingar skoskra yfirvalda verða grandskoða þúsundir þeirra.

Ákvörðun Davids Camerons, forsætisráðherra Breta, um að birta trúnaðarskýrsluna sætir miklum tíðindum og að mati The Guardian má rekja hana til viðleitni til að auka þrýsting á Alex Salmond, forsætisráherra Skotlands. Kannanir sýna að sjálfstæðiskröfur Skota njóta minni stuðnings en áður.

Michael Moore, Skotlandsmálaráðherra í London, segir að niðurstöður lögfræðiálitsins séu alvarleg áminning fyrir Alex Salmond sem hafi hvað eftir annað fullyrt að sjálfstæðisferlið yrði stórtíðindalaust, Skotar mundu með hraði ganga frá ESB-aðild, samhliða sjálfstæðisviðræðum við bresku ríkisstjórnina.

Skoska ríkisstjórnin hefur reynt að draga athygli frá lögfræðiáliti bresku ríkisstjórnarinna með að flýta birtingu á skýrslu eigin sérfræðinga um efnahagslegan ávinning sjálfstæðis og áhrif þess á ríkisfjármál Skotlands.

Bandaríkjamaðurinn Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, er meðal höfunda skýrslunnar fyrir skosku ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að það yrði UK í hag að samþykkja formlegt gjaldmiðlasamband sem heimilaði Skotum að nota sterlingspund áfram og að Englandsbanki verði áfram seðlabanki Skotlands.

James Crawford, prófessor við Cambridge-háskóla, og Alan Boyle, prófessor við Edinborgar-háskóla, rituðu hina 57 blaðsíðna lögfræðilegu álitsgerð sem snýst um stjórnskipuleg áhrif sjálfstæðis Skota. Þetta er fyrsta skýrsla bresku ríkisstjórnarinnar í ritröð sem breskir ráðherrar segi að muni sanna Skotum að þeim verði betur borgið innan Sameinaða konungdæmisins en utan.

Í The Guardian er haft eftir lögfræðingi sem sagður er hafa innanbúðar vitneskju að breskir ráðherrar séu ekki fyllilega vissir um að niðurstaða Crawfords standist gagnrýni. Heimildarmaðurinn segir að ráðherrarnir viðurkenni í einkasamtölum að David Edward, fyrrverandi ESB-dómari, sem dregur álit Crawfords í efa kunni að hafa rétt fyrir sér þegar hann segir að ESB mundi ekki neyða Skota til að sækja um sem ríki á fyrsta reit utan ESB-hópsins heldur fengju þeir að semja innan hans og ekki sem byrjendur.

Nicola Sturgeon, varaforsætisráðherra Skotlands, segist hafa hlegið þegar hún heyrði Michael Moore ræða um Skotland og óvissa aðild að ESB. Einu óvissuna í því efni megi rekja til ákvörðunar Davids Camerons um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina. Skoska stjórnin hafi sagt afdráttarlaust að samþykktu Skotar sjálfstæði í atkvæðagreiðslunni 2014 yrðu þeir að taka upp viðræður við ESB en þær færu fram innan ESB en ekki við Skota sem þjóð utan sambandsins.

Í umræðunum um þennan þátt sjálfstæðismála Skota kemur einnig til álita að yrði litið á sjálfstætt Skotland sem ríki utan ESB sem yrði að skipa sér í röð umsóknarríkja gæti hvert einstakt ESB-ríki beitt neitunarvaldi gegn aðildarviðræðum. Bent er á að ríkisstjórn Spánar óttist sjálfstæði Katalóníu og vilji halda stjórnvöldum þar í óvissu um aðild að ESB ef til sjálfstæðis kæmi, hið sama megi raunar einnig segja um ríkisstjórn Frakklands sem vilji ekki ýta undir sjálfstæðisvilja Baska og því síður Bretóna.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS