Miðvikudagurinn 27. janúar 2021

Reiði á þingi Evrópu­sambandsins vegna stjórnar­skrárbreytinga í Ungverjalandi - krafist íhlutunar framkvæmda­stjórnar ESB


12. mars 2013 klukkan 14:59

Á þingi Evrópusambandsins hafa menn brugðist reiðir við stjórnarskrárbreytingum í Ungverjalandi. Þingmennirnir segja að með þeim sé vegið að mannréttingum í Evrópu. Ungverska þingið samþykkti nýjar breytingar á stjórnarskránni mánudaginn 11. mars en á ESB-þinginu hefur verið unnið að úttekt á eldri breytingum sem einnig sættu gagnrýni innan ESB.

Martin Schulz, forseti ESB-þingsins, sagði mánudaginn 11. mars á fundi þingsins að ungverska þingið hefði tekið ákvarðanir sem „kunna að veikja lýðræðiskröfur í landinu“.

Atkvæðatafla ungverska þingsins við afgreiðslu stjórnarskrárbreytinga.

Í Jyllands-Posten er þriðjudaginn 12. mars rætt við Thorsten Borring Olesen, prófessor í evrópskri nútímasögu við Árósar-háskóla, sem segir að undir stjórn þjóðernissinnaðra hægrimanna hafi stjórnlagaþróunin í Ungverjalandi undanfarin ár verið á skjön við lýðræðishefðir.

„Með breytingunum eru stjórnlög landsins til þess fallin að færa stjórnarhætti frá hefðbundnu þingræði og sé litið á það í heild sem gerst hefur undanfarin ár miða aðgerðirnar að því að festa sitjandi ríkisstjórn í sessi, sauma að stjórnarandstöðunni og leggja steina í götu annarra sem vilja komast til valda,“ segir prófessorinn.

Hann bendir á að á ungverska þinginu sé að finna einn flokk til hægri við þjóðernissinnaðan íhaldsflokk Viktors Orbans forsætisráðherra og þessum flokki hafi tekist að draga stjórnmálaumræður og ákvarðanir til hægri.

„Orban virðist leggja hart að sér til að blása lífi í nokkur gömul ungversk gildi frá árunum milli stríða þegar einræði var í Ungverlandi. Þau lúta að því að styrkja fjölskylduna, kirkjuna og þjóðina og áherslur á þessum sviðum eru skerptar vegna þess að hægrisinnaði Jobbik-flokkurinn er í lykilstöðu í ungverskum stjórnmálum um þessar mundir,“ segir Thorsten Borring Olesen.

Nýjustu breytingar á ungversku stjórnarskránni fela meðal annars í sér bann við að sofa á götum úti, þá er námsmönnum bannað að flytja úr landi í nokkur ár að námi loknu hafi þeir fengið opinberan fjárstuðning til að stunda nám í Ungverjalandi auk þess er fjölskylda skilgreind sem hjúskapur milli karls og konu.

Thorsten Borring Olesen vekur sérstaka athygli á að valdsvið stjórnlagadómstóls landsins sé þrengt. Hann hafi átt síðasta orð um hvort lagasetning eða athafnir ríkisstjórnarinnar samræmist stjórnarskránni. Úr þessu valdi sé nú dregið. Hann telur að þetta sé versta breytingin.

Framvegis hefur stjórnlagadómstóllinn ekki heimild til að lýsa lög andstæð stjórnarskránni hafi þau verið samþykkt með tveimur þriðju hluta atkvæða í þinginu. Dómstóllinn hefur aðeins heimild til að segja álit á formreglum vegna framtíðarbreytinga en ekki fella dóm um efnisþætti reglnanna.

Martin Schulz segir að hann hafi árangurslaust hvatt Orban til að leita álits hjá Evrópuráðinu en þar starfar Feneyjanefndin við ráðgjöf vegna stjórnarskrárbreytinga. Þingforsetinn sagðist óttast að gengið væri of nálægt grunnreglum réttarríkisins og mannréttindum með breytingunum. Hann vænti þess að Evrópuráðið og framkvæmdastjórn ESB gerðu ítarlega úttekt á stöðu stjórnskipunarmála í Ungverjalandi.

Guy Verhofstadt, formaður ESB-þingflokks frjálslyndra, sagði að framkvæmdastjórn ESB ætti að láta málið sig varða. „Það er tímabært að menn átti sig á hinu raunverulega eðli ríkisstjórnar Orbans – hún er ríkisstjórn sem beitir minnihlutann meirihlutavaldi og vinnur þannig gegn gildum Evrópusambandsins.“

Verhofstadt hvatti Janos Adler, forseta Ungverjalands, til að hafna breytingunum á stjórnarskránni og sagði að stofnanir ESB ættu tafarlaust að láta að sér kveða vegna málsins: „Ég hvet framkvæmdastjórnina til að grípa til tafarlausra aðgerða og taka til við að meta breytingarnar,“ sagði hann. „Leiðtogar ESB-ríkjanna verða einnig að ræða málið við Orban þegar þeir hittast á fundum í Brussel fimmtudaginn 14. og föstudaginn 15. mars í Brussel.“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS