Sunnudagurinn 24. janúar 2021

ESB-þingið samþykkir nýja landbúnaðar­stefnu - niðurstaðan hörmuleg að mati sænskra ESB-þingmanna


14. mars 2013 klukkan 18:57

Sænskir ESB-þingmenn eru þungorðir um samþykkt ESB-þingsins um landbúnaðarmál miðvikudaginn 13. mars. Snerist hún um umboð af hálfu þingsins í viðræðum við ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn ESB um nýja landbúnaðarstefnu ESB.

Christofer Fjellner, ESB-þingmaður fyrir Moderatarna, sænska hægrimenn, segir að í meðförum þingsins hafi slæm tillaga frá framkvæmdastjórn ESB orðið enn verri. Það hafi til dæmis verið ákveðið að framlengja reglur um sykurkvóta en framkvæmdastjórnin hafi viljað að þeir hyrfu smátt og smátt eins og ýmsar niðurgreiðslur. Stefnt hafi verið að afnámi kvótanna árið 2015 en þingið vilji að þeir gildi til 2020.

Sykurframleiðsla í Evrópu er stunduð í vernduðu umhverfi og sykurverð innan ESB er næstum tvöfalt hærra en á heimsmarkaði.

Þá samþykkti ESB-þingið að í öllum greinum landbúnaðar gætu menn sótt um framleiðslustyrki og ákvörðun um það skuli tekin í hverju landi fyrir sig en ekki af framkvæmdastjórn ESB. Í þessu felist til dæmis að grískir eða ítalskir tóbaksræktendur geti fengið styrki frá ESB sem Fjellner telur fráleitt.

Sænski vinstri ESB-þingmaðurinn Mikael Gustafsson lýsir miklum vonbrigðum með afgreiðslu þingsins og segir hana hörmulega í mörgu tilliti. Offramleiðsla sé stunduð á þann veg að spillt sé fyrir mörkuðum annarra og þetta sé unnt að gera án tillits til líffræðilegrar fjölbreytni og loftslags.

ESB-þingið samþykkti meðal annars að halda áfram að styrkja evrópska bændur til að stunda útflutning. Að mati Gustafssons leiðir þetta til að ríkir evrópskir bændur geti haldið áfram að selja niðurgreiddar vörur í Afríku og ganga þannig á hlut bænda í þróunarlöndunum.

Þetta er haft eftir sænsku þingmönnunum á sænsku vefsíðunni Europortalen en þar segir einnig að fulltrúar landbúnaðarnefndar ESB-þingsins líti afgreiðslu málsins allt öðrum augum. Ítalski jafnaðarmaðurinn Paolo De Castro, formaður landbúnaðarnefndarinnar, sagði í yfirlýsingu eftir afgreiðslu málsins að í samþykkt þingsins fælist hæfilegt jafnvægi milli framleiðslu matvæla og verndunar umhverfisins, hin nýja landbúnaðarstefna ESB mundi því nýtast ESB-borgurum enn betur en hin eldri. Þá hefði verið dregið úr skriffinnsku.

Atkvæðagreiðslan tók rúmar tvær klukkustundir enda voru breytingartillögurnar 1117. Að lokinni atkvæðagreiðslunni fékk Georgios Papastamkos, varaforseti ESB-þingsins, aðsvif og féll til jarðar. Var líðan hans enn alvarleg fimmtudaginn 14. mars.

Lokaviðræður um efni landbúnaðarstefnunnar verða fyrstu dagana í apríl þegar fulltrúar ESB-þingsins hitta landbúnaðarráðherra ESB-ríkjanna og fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB.

ESB-þingið hefur aldrei fyrr tekið þátt í ákvörðunum um efni sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar ásamt með ráðherraráðinu. Endurskoðun stefnunnar hefur staðið yfir í mörg ár og er stefnt að gildistöku hennar árið 2014 náist samkomulag í komandi viðræðum. Síðast var stefnunni breytt árið 2003.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS