Olaf, and-spillingarstofa ESB, segir að ekki liggi fyrir sannanir um að John Dalli, fyrrv. heilbrigðismálastjóri ESB, hafi sjálfur átt hlut að mútumáli vegna tilrauna til að aflétta banni ESB gegn munn- og neftóbaki (snus). Þó er margt sem bendir til að Dalli hafi vitað um gang málsins. Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslu á vegum Olaf sem lekið hefur verið til fjölmiðla.
Í skýrslu Olaf sem lekið var í vikunni og sagt hefur verið frá í ýmsum fjölmiðlum eru ekki færðar fram neinar sönnur á að John Dalli hafi vitað um að munntóbaksfyrirtækið Swedish Match eða Estoc, hagsmunamiðlari fyrir reyklaust tóbak, hafi boðið Silvio Zammit, fésýslumanni á Möltu, mútur til að fá snus-banninu aflétt.
John Dalli hætti sem framkvæmdastjórnarmaður hjá ESB 16. október 2012 vegna ásakana um að hann tengdist þessu mútumáli. Dalli segir að José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafi lesið úr skýrslunni sem nú hefur verið lekið og eftir það hafi hann hvatt Dalli til að segja af sér sem hann gerði.
Í skýrslunni segja rannsakendur Olaf að vísbendingar séu um að John Dalli hafi vitað um að Slivio Zammit, náinn vinur hans, sem hefur verið ákærður á Möltu, hafi ámálgað fjárgreiðslur við fulltrúa Swedish Match og Estoc og nefnt annars vegar 60 og hins vegar 10 milljón evrur og hann hafi nefnt Dalli og stöðu hans til að styrkja kröfu sína.
Sönnun fyrir því að Dalli hafi vitað um málið er færð í skýrslunni með að nefna 17 símtöl milli Johns Dallis og Slivios Zammits á fyrri helmingi árs 2012, misvísandi ummæli Dallis og hann hafi látið hjá líða að segja frá „óopinberum“ fundi með þeim sem höfðu hagsmuna að gæta í snus-málinu. Af þessu öllu dregur Olaf þá ályktun að Dalli hafi „í raun vitað um laumuspil Zammits og þá staðreynd að hann notaði nafn hans [Dallis] og stöðu til að hagnast fjárhagslega“.
Á fundi á Möltu hinn 13. mars 2012 fór Slivio Zammit þess á leit við Johan Gabrielsson frá Swedish Match að hann greiddi sér 60 milljónir evra fyrir að hitta John Dalli og sannfæra hann um að afnema snus-bannið. Eftir þennan fund fékk Johan Gabrielsson fyrirmæli frá Patrik Hildingsson, forstjóra sínum og jafnframt stjórnarformanni í Estoc, um að hætta öllum samskiptum við Silvio Zammit segir í skýrslu Olaf.
Gayle Kimberely, hagsmunamiðlari og lögfræðingur, sat einnig þennan fund með Zammit. Kimberley hafði áður unnið hjá lögfræðiþjónustu Evrópuráðsins en sinnti nú erindrekstri fyrir Swedish Match í því skyni að sannfæra John Dalli um að afnema snus-bannið innan ESB.
Í skýrslu Olaf kemur auk þess fram að Gayle Kimbereley hafi gegnt meira hlutverki í málinu en vitað hefur verið til þessa.
„Fyrirliggjandi sönnunargögn sýna að Kimberley sagði ekki rétt frá gangi þess máls sem um er að ræða,“ segir í skýrslunni og því er slegið föstu að Kimbereley og Zammit kunni að hafa unnið saman að kröfum um fjárgreiðslur frá snus-hagsmunamiðlurunum. Áður lá fyrir að Gayle Kimbereley laug um fund með John Dalli.
Þótt Swedish Match sliti öllum samskiptum við Silvio Zammit reyndi hann að sannfæra fulltrúa Estoc um að greiða sér fé fyrir fund með John Dalli.
Í samtali sem Slivio Zammit átti 29. mars 2012 við Inge Delfosse, framkvæmdastjóra hjá Estoc, spurði Delfosse hvort unnt væri að hitta John Dalli. Zammit á að hafa svarað spurningunni jákvætt. Zammit hringi þá til Gayle Kimberley og síðan í John Dalli, talaði við hann í 8 sekúndur og síðan hringdi Zammit til Kimberley að nýju.
Um hálftíma síðar hringdi Zammit í Delfosse sem þá tók upp símtalið en í því fór hann fram á að fá 10 milljónir evra fyrir að útvega fund með John Dalli enda yrði það fyrsta skrefið til að sannfæra hann um að afnema snus-bannið.
„Þetta er verðið sem hann setur,“ sagði Zammit í samtalinu við Delfosse sem til er í upptöku. Það er ekki ljóst hver „hann“ er en Olaf telur að þar sé um Dalli að ræða. Við yfirheyrslur hefur Zammit sagt að 10 milljón evrurnar séu ráðgjafartaxti sinn.
Sagt er að Johan Gabrielsson og Inge Delfosse hafi bæði túlkað fyrirspurnina frá Zammit á þann veg að um mútufé fyrir John Dalli væri að ræða. Í skýrslunni segir hins vegar að ekki sé unnt að taka af skarið um að svo hafi verið. Ekki sé unnt að útiloka að fyrir Silvio Zammit hafi alveg eins vakað að ná einn eða í samvinnu við Gayle Kimbereley í peninga frá snus-hagsmunamiðlurunum án vitneskju Dallis. Olaf segir hins vegar í skýrslunni að hvað sem því líði kunni John Dalli að hafa „farið á svig við siðferðilegar skyldur“ sínar.
Í síðustu viku gagnrýndu menn í eftirlitsnefnd Olaf og margir ESB-þingmenn að efni í trúnaðarskýrslu Olaf um afsögn Johns Dallis skyldi hafa lekið. Var þess meðal annars krafist af sumum að Giovanni Kessler, forstjóri Olaf, yrði látinn hætta störfum.
Í febrúar 2013 kærði John Dalli meðferðina á sér til undirdeildar innan ESB-dómstólsins og krafðist þess að uppsögn sín sem ESB-framkvæmdastjóra yrði afturkölluð.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.