Sunnudagurinn 28. febrúar 2021

Menntamála­ráðherra Breta lýsir andstöðu við óbreytta ESB-aðild - spenna vegna deilna um lög um ESB-þjóðar­atkvæða­greiðslu


12. maí 2013 klukkan 13:26
Michael Gove

Michael Gove, menntamálaráðherra Bretland, sagði í BBC sunnudaginn 12. maí að hann mundi greiða atkvæði gegn aðild Breta að ESBe væri gengið til þjóðaratkvæðis um málið nú. Hann sagðist hins vegar fylgja stefnu Davids Camerons forsætisráðherra um að semja um nýja aðildarskilmála við ESB, hafa „forystu“ um nauðsynlegar breytingar innan ESB og síðan leggja málið í dóm breskra kjósenda.

BBC segir að Gove sé hæstsetti íhaldsmaðurinn til þessa til að lýsa opinberlega yfir að hann kunni að styðja úrsögn Breta úr ESB þótt „vinir“ ráðherrans hafi áður sagt í blaðaviðtali að hann væri þessarar skoðunar.

„Ég er óánægður með stöðu okkar innan Evrópusambandsins en fyrsti kostur minn er að breyta aðildartengslum Bretlands við Evrópusambandið,“ sagði Gove í Andrew Marr-sjónvarpsþættinum á BBC.

Þingmenn innan Íhaldsflokksins hafa lagt fram tillögu til ályktunar í þinginu í tilefni af stefnuræðu drottningar þar sem þeir harma að ríkisstjórnin hafi ekki lagt til að sett verði lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildina á næsta ári. Gove sagði í BBC að þetta væri gert til að „létta á spennu“. Hann sagðist ætla að sitja hjá ef greidd yrðu atkvæði um tillöguna og bætti við:

„Mín skoðun er að forsætisráðherrann eigi að móta samningsmarkmið okkar, tryggja að hann hafi stuðnings meirihluta við þau, ég er viss um að hann mun tryggja sér hann í næstu þingkosningum og síðan skulum við ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Theresa May, innanríkisráðherra Breta, sagði einnig að hún mundi sitja hjá við atkvæðagreiðsluna í þinginu sem verður á þriðjudag eða miðvikudag fallist John Bercow þingforseti á að til hennar verði gengið.

Philip Hammond, varnarmálaráðherra Breta, gaf einnig til kynna í samtali við BBC að hann mundi sitja hjá. Hammond sagði:

„Það kemur ekki til greina að styðja þessa tillögu því að við berum sameiginlega ábyrgð á því sem segir í stefnuræðu drottningar. Ég mun þó ekki greiða atkvæði gegn og kalla á rangtúlkun í þá veru að við stöndum ekki heilshugar að áformunum um þjóðaratkvæðagreiðslu.“

David Cameron hefur lofað að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina að ESB fari fram á árinu 2017, vinni íhaldsmenn í kosningunumm 2015. Hópur þingmanna Íhaldsflokksins undir forystu Johns Barons hefur hvatt forsætisráðherrann til að herða á fyrirheiti sínu um þjóðaratkvæðagreiðslu með því setja lög um hana á þessu kjörtímabili. Vildi hópur Barons að í stefnuræðu drottningar sem flutt var í síðustu viku hefði verið gefið fyrirheit um þessa lagasetningu á næsta ári.

Innan samsteypustjórnar íhaldsmanna og frjálslyndra er engin samstaða um lög af þessu tagi og þess vegna getur David Cameron hvorki lofað frumvarpi né lagt það fram.

Andófsþingmennirnir hafa því gripið til þess óvenjulega ráðs að flytja tillögu til ályktunar í umræðunum um stefnuræðu drottningar og þannig lagt til að þingmenn greiði atkvæði gegn stefnu eigin ríkisstjórnar. Talið er að um 100 þingmenn muni styðja tillöguna.

John Baron og Peter Bone flytja tillöguna og þar er harmað að ríkisstjórnin skuli ekki hafa boðað framlagningu frumvarps til laga um ESB-þjóðaratkvæðagreiðsluna.

BBC segir að mjög ólíklegt sé að tillagan verði samþykkt Verkamannaflokkurinn, frjálslyndir og margir íhaldsþingmenn muni greiða atkvæði gegn henni. Baron segir að tillagan stuðli að umræðum um málið.

Uppnámið innan Íhaldsflokksins hefur kallað fram yfirlýsingar af hálfu Verkamannaflokksins um að Cameron hafi misst stjórn á flokki sínum. Íhaldsmenn segja á hinn bóginn að Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, vilji ekki að þjóðin fái að segja álit sitt í mikilvægu máli.

Ed Balls, skugga-fjármálaráðherra Verkamannaflokksins, sagði við Sky-sjónvarpsstöðina að flokkur sinn ætti ekki að leggjast gegn því að leitað yrði álits þjóðarinnar. Hann sagði að Verkamannaflokkurinn mundi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu ef um væri að ræða tillögu um að breyta valdahlutföllum milli Bretlands og Evrópusambandsins á þann veg að gengið yrði á vald Breta.

Hann sagði hins vegar að flokkurinn mundi ekki skuldbinda sig til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar unnið væri að umbótum innan ESB, það gæti „skapað vandræði“ og væri ekki í anda „stjórnvisku“.

Heimild: BBC

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS