Föstudagurinn 15. janúar 2021

Seðlabanka­stjóri Frakka varar við fjármagnsfærsluskatti - segir niðurskurð bíða frönsku ríkis­stjórnar­innar


28. maí 2013 klukkan 18:52

Christian Noyer, seðlabankastjóri Frakklands, segir að fyrirhugaður ESB-skattur á fjármagnsfærslur geti „skaðað“ efnahagslífið sé hann ekki lögfestur og innheimtur á réttan hátt. Fyrr á þessu ári voru Frakkar í hópi 11 þjóða innan ESB sem ákváðu að taka sjálfar frumkvæði að þessari skattheimtu (svonefndum Tobin-skatti).

Christian Noyer

Sir Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands, hefur eindregið varað við skatti af þessu tagi og hann sagði fyrr í þessum mánuði að hugmyndin um hann nyti ekki einu sinni heilshugar stuðnings ráðamanna hinna 11 ríkja sem segist vilja sjá hana í framkvæmd. Hann sagð að „miklar efasemdir“ settu svip sinn á afstöðu stjórnmálamanna í þeim ríkjum sem hefðu lýst áhuga á að lögfesta skattinn. Hann sagðist ekki finna neinn meðal stjórnenda seðlabanka sem teldi þetta góða hugmynd.

Í The Daily Telegraph segir þriðjudaginn 28. maí að ummæli Noyers staðfesti skoðun Sir Mervyns. Noyer sem situr í stjórn Seðlabanka Evrópu hefur sagt:

„Það skiptir höfuðmáli að skilgreina grunninn, hlutfallið og umfang hugsanlegs skatts á fjármagnsfærslur til að forðast hættuna á að eyðileggja ákveðinn hluta fjármálaþjónustu okkar eða flytja störf til útlanda og koma í veg fyrir mjög eyðileggjandi áhrif á lántökur ríkisins og fjármögnun efnahagslífsins.“

Núverandi hugmyndir gera ráð fyrir að 0,1% gjald verði lagt á færslur á höfuðstól og skuldum og 0,01% á afleiður. Þjóðverjar, Frakkar, Ítalir og Spánverjar eru í hópi þeirra sem hafa samþykkt þessa skattheimtu. Framkvæmdastjórn ESB telur að hún skili 35 milljarða evru tekjum á ári og vill að hún komi til sögunnar á árinu 2014.

Í tillögunum er kynnt fyrirkomulag sem reist er á ákvæði um „útþenslu yfirráðasvæðis“ til að sporna gegn því að skatturinn flæmi fyrirtæki úr landi. Skatturinn yrði lagður á allar tilfærslur í evrum jafnvel í löndum sem ekki eru aðilar að skattheimtunni. Bretar ætla að láta á gildi þessa ákvæðis reyna fyrir evrópskum dómstólum, Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir hafa lýst yfir að þær muni ekki sætta sig við ákvæðið. Talið er að þar með verði fjármagnsfærsluskatturinn markleysa.

Sir Mervyn hefur gefið til kynna að ESB muni grípa til þess ráðs að slá skattahugmyndina út af vellinum til að tefja fyrir innleiðingu hennar. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, ýtti undir vangaveltur um þetta fyrr í þessum mánuði þegar hann gerði lítið úr gildi skattsins. „Við höfum aðeins lítillega rætt málið. Þetta er ekki efst á listanum í hreinskilni sagt,“ sagði Schäuble. „Á þessu ári, næsta ári … það er ekki mikið vandamál.“

Ummæli Noyers féllu þegar hann ræddi almennt um hættuna sem steðjar að efnahag Frakklands, þar ríkir nú efnahagslægð annað árið í röð. Talið er að í ár verði 0,1% samdráttur eftir engan hagvöxt 2012.

Seðlabankastjórinn sagði að François Hollande forseti og ríkisstjórn sósíalista yrði nú að skera niður útgjöld og líta þá til óvinsælla aðgerða eins og lækka eftirlaun og útgjöld til félagsmála auk þess að fækka opinberum starfsmönnum og lækka laun þeirra. Hann sagði:

„Félagsleg útgjöld eru um 30% af landsframleiðslu og ekki er unnt að halda áfram á þeirri braut.

Í upphafi beindist athygli að hækkun skatta og félagslegra framlaga í því skyni að ná skjótum árangri. Nú verður ríkisstjórnin hins vegar að beina athygli sinni að ríkisútgjöldum til að ná markmiði sínu, skattheimtan er orðin mjög mikil og nýjar álögur á atvinnuveitendur munu aðeins draga enn frekar úr umsvifum þeirra og fækka störfum.“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS