Þing Evrópuráðsins samþykkti samhljóða (með 86 atkvæðum) ályktun föstudaginn 28. júní um að halda beri pólitískri ábyrgð og refsiábyrgð aðskildum. Pieter Omtzigt (hollenskur þingmaður í mið-hægri flokki EPP/CD) samdi tillöguna að lokinni rannsókn á tveimur refsimálum í aðildarríkjum Evrópuráðsins: landsdómsmálinu á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sakamálinu á hendur JúlíuTymosjenko, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu og Júrí Lutsenko, fyrrverandi innanríkisráðherra landsins.
Omtzigt segir í skýrslu sinni til þingsins að ekki sé alfarið unnt að leggja málin frá Íslandi og Úkraínu að jöfnu enda hafi Geir H. Haarde ekki verið hnepptur í fangelsi, hann sé því ekki „pólitískur fangi“ eins og hin tvö. Hann hafi einnig verið sýknaður af meginákærunni um að hafa sýnt „aðgerðaleysi“ við að hindra bankakreppuna á Íslandi. Hins vegar sé ekki unnt að líta fram hjá því að Geir hafi einn verið ákærður í atkvæðagreiðslu þar sem flokkshagsmunir réðu hjá nýjum meirihluta á alþingi, einnig verði að líta til þess að hinn sérstaki saksóknari í landsdómsmálinu hafi gengi lengra en góðu hófi gegnir við að knýja fram að Geir yrði refsað fyrir brot á formsatriði sem reist var á langri venju sem rekja mátti til þess tíma að Ísland var ekki sjálfstætt ríki og fleiri atriði sem þingmaðurinn lýsir í skýrslu sinni til Evrópuráðsþingsins og valda því að hans mati að í málinu hafi verið brotið gegn þeirri meginreglu sem hann áréttar í tillögu sinni um að greina beri á milli pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar þegar ákveðið sé að sækja mál á hendur stjórnmálamanni.
Geir H,. Haarde sendi frá sér tilkynningu sunnudaginn 30. júní vegna ályktunar Evrópuráðsþingsins. Þar segir:
„Þessi ályktun þings Evrópuráðsins er stórsigur fyrir mig og minn málstað og ég fagna henni. Tilefni hennar og þeirrar vinnu sem að baki liggur eru landsdómsmálaferlin gegn mér og réttarhöldin yfir Júlíu Tymoshenko fyrrv. forsætisráðherra Úkraínu.
Niðurstaðan lýsir fordæmingu á pólitískum sakamálaréttarhöldum þar sem fólk er ákært fyrir pólitískar ákvarðanir eða skoðanir. Það er sannarlega dapurlegt að Íslandi skuli með landsdómsmálinu hafa verið komið í slíkan félagsskap af þáverandi ráðamönnum þjóðarinnar.
Jafnframt er raunalegt hvernig þáverandi formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, Þuríður Backman, sem var einn ákærenda í landsdómsmálinu, varð sér til minnkunar á þessum alþjóðlega vettvangi með séráliti sínu og undirstrikaði enn frekar það póltíska ofstæki sem að baki lá.“
Þrír alþingismenn sátu fundi þings Evrópuráðsins þar sem tillaga Pieters Omtzigts var afgreidd: Karl Garðarsson (F), formaður þingmannanefndarinnar, Brynjar Níelsson (S) og Ögmundur Jónasson (VG). Atkvæðaupplýsingar á vefsíðu Evrópuráðsþingsins sýna að Karl tók þátt í lokaafgreiðslu tillögunnar og greiddi atkvæði með henni. Enginn íslensku þingmannanna tók til máls í umræðum um tillöguna.
Í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins sunnudaginn 30. júní sagði Karl Garðarsson að ekki væru tilgreind nein lönd í lokatexta tillögunnar, hún ætti að ná til allra landa og þinga. Skilaboðin séu skýr frá Evrópuráðsþinginu: Menn hafi ekki viljað að stjórnmálamenn gætu hefnt sín á pólitískum andstæðingum. Þá sagði hann þingmenn hafa lýst þó nokkurri undrun á málatilbúnaði gegn Geir í umræðum á Evrópuráðsþinginu föstudaginn 28. júní. „Það sem mönnum þótti sérstaklega undarlegt var að Geir Haarde skyldi einn hafa verið dreginn fyrir dómstóla, landsdóm. Menn skildu ekki hvað lá að baki þeirri ákvörðun,“ sagði Karl Garðarsson.
Hér fer ályktun Evrópuráðsþingsins í heild í lauslegri þýðingu Evrópuvaktarinnar:
1. Þing Evrópuráðsins telur að lýðræði og réttarríkið sé reist á því að veita beri stjórnmálamönnum virka vernd gegn ákæru til refsingar vegna pólitískra ákvarðana þeirra. Þeir eiga að bera pólitíska ábyrgð á pólitískum ákvörðunum og í því efni er lokadómur í hendi kjósenda.
2. Þingið áréttar einnig grundvallar-andstöðu sína við alls konar undanþágum frá lögsókn eins og lýst er í ályktun 1675 (2009) um stöðu mannréttinda í Evrópu, þörfin fyrir að uppræta undanþágu frá lögsókn. Af þessu leiðir að kalla ber stjórnmálamenn til ábyrgðar vegna saknæmra verka þeirra eða aðgerðaleysis hvort heldur um er að ræða einkalíf þeirra eða opinber verkefni.
3. Skil milli pólitískra ákvarðana og saknæmra verka eða aðgerðaleysis ber að reisa á stjórnlögum ríkja og sakamálalögum. Í þeim skal hins vegar virða eftirfarandi grunnreglur í samræmi við niðurstöður Evrópunefndarinnar um lýðræði í krafti laga (Feneyjanefndarinnar):
3.1 Sakamálaréttarfar á ekki að nota til að refsa fyrir pólitísk mistök eða ágreining;
3.2 stjórnmálamenn bera sömu ábyrgð og almennir borgarar vegna almennra afbrota;
3.3 efnislegar lagareglur einstakra ríkja um refsiábyrgð ráðherra verða að vera í samræmi við 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir nefndur sáttmálinn) og aðrar meginreglur réttarríkisins þar á meðal lögfræðilega vissu, fyrirsjáanleika, skýrleika, meðalhóf og jafnræði í málsmeðferð;
3.4 sérstakur vandi kann að skapast vegna víðtækra og óljósra ákvæða í sakamálalögum einstakra ríkja „misbeitingu opinbers valds“ bæði við túlkun í ljósi 7. gr. sáttmálans og annarra grunnreglna og þá eru þau sérstaklega viðkvæm gagnvart pólitískri misbeitingu;
3.5 ákvæði í lögum einstakra ríkja um „misbeitingu opinbers valds“ ber að skýra þröngt og aðeins beita í undantekningartilvikum (orðrétt þýðing: eftir að farið er yfir háan þröskuld) með vísan til annarra skilyrða, má þar nefna í málum um fjárhagsleg efni að fyrir hendi sé ásetningur um eigin hagnað; þeim skal aðeins beita gegn stjórnmálamönnum þegar ekki er annarra kosta völ og refsiaðgerðir eiga að taka mið af lögbrotinu og ekki ráðast af pólitísku mati;
3.6 þegar litið er til réttarfars í málum þar sem stjórnmálamaður er sóttur til saka fyrir „refsivert athæfi“ með vísan til 6. gr. sáttmálans ber að gæta sömu reglna um sanngjarna málsmeðferð hvort sem um er að ræða venjulegt sakamál eða sérstakt sakamál að tilstuðlan þjóðþings eins og heimilt er að höfða í ýmsum ríkjum Evrópuráðsins;
3.7 sérstakar reglur um málshöfðun á hendur ráðherrum mega ekki brjóta gegn grundvallarreglum réttarríkisins. Þar sem hætta er á að slíkum reglum verði misbeitt í pólitískum tilgangi ber að gæta sérstakrar varúðar og aðgæslu við túlkun þeirra og beitingu.
4 Með vísan til ofangreinds vill þingið:
4.1 hvetja stjórnarmeirihluta í aðildarríkjum til að forðast að misbeita sakamálaréttarfari til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum;
4. 2 leggja til við löggjafarþing í aðildarríkjum þar sem enn eru í gildi viðtæk ákvæði í sakamálalögum um misnotkun opinbers valds að þau kanni leiðir til að afnema eða endurorða slík ákvæði með það fyrir augum að þau falli að ábendingum Feneyjanefndarinnar;
4.3 leggja til við viðkomandi stjórnvöld í aðildarríkjum þar sem ákvæði stjórnarskrár gera ráð fyrir sérstakri aðferð við að ákæra ráðherra fyrir refsiverðan verknað að tryggja að þau séu túlkuð og þeim sé beitt af þeirri varúð og aðgæslu sem fellur að ábendingu Feneyjanefndarinnar;
4.4 hvetja viðkomandi yfirvöld í aðildarlöndunum sem hlotið hafa dóm fyrir brot á 18. gr.sáttmálans (takmörkun á skerðingu réttinda) til að grípa til sérstakra aðgerða til að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og grípa skjótt til nauðsynlegra aðgerða í því skyni að framkvæma viðkomandi dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.