Frakkar sögðu mánudaginn 1. júlí að ásakanir um að bandarískar stofnanir njósnuðu um bandamenn sína í Evrópu yllu vandræðum og ógnuðu viðræðum um hinn mikilvæga fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna. Barack Obama Bandaríkjaforseti segist muni svara Evrópumönnum þegar hann hafi fengið allar nauðsynlegar staðreynir á hreint.
„Þegar við höfum efni í svar munum við leggja upplýsingar sem bandamenn okkar vilja fá á borðið,“ sagði Obama á blaðamannafundi mánudaginn 1. júlí í Tanzaníu þar sem hann í opinberri heimsókn.
Obama viðurkenndi ekki að Bandaríkjamenn stunduðu njósnir en sagði: „Í höfuðborgum Evrópulanda hafa menn ef til vill ekki áhuga á hvað ég fæ mér í morgunverð en þeir vilja hins vegar helst vita hvaða talpunkta ég er með þegar ég hitti leiðtoga þeirra.“
François Hollande Frakklandsforseti hafði fyrr mánudaginn 1. júlí krafist svara frá Washington vegna frásagna um að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hefði sett hlerunarbúnað í skrifstofur ESB og sendiráð Evrópuríkja.
„Við getum ekki þolað slíka framkomu í samskiptum samstarfsaðila og bandamanna,“ sagði Hollande við blaðamenn þegar hann heimsótti borgina Lorient í vesturhluta Frakklands. „Við viljum að þessu verði tafarlaust hætt. Það fara ekki fram neinar viðræður á neinu sviði fyrr en við höfum fengið þetta staðfest varðandi Frakkland og einnig fyrir Evrópusambandið í heild.“
Steffen Seibert, talsmaður ríkisstjórnar Þýskalands, sagði að ráðamenn í Berlín hefðu látið í ljós „undrun“ og „mikla óánægju“ í samtölum við fulltrúa bandaríska forsetaembættisins vegna fréttanna um hleranirnar sem birtust í Der Spiegel laugardaginn 29. júní og raktar eru til bandaríska uppljóstrarans Edwards Snowdens, sem talinn er dveljast á flugvellinum í Moskvu og hefur sótt um hæli í Rússlandi.
„Evrópa og Bandaríkin eru samstarfsaðilar, vinir og bandamenn. Traust verður að búa að baki samvinnu okkar og traust verður að endurreisa á þessu sviði,“ sagði Seiffert. „Við erum ekki lengur á tíma kalda stríðsins.“
Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB, sagði að fríverslunarviðræðum ESB og Bandaríkjanna kynni að vera stofnað í voða vegna þessa, fulltrúar ESB gætu ekki tekið þátt í þeim ríkti „minnsti vafi um að viðræðuaðilinn hleraði skrifstofur“ þeirra. Stefnt hefur verið að fyrsta viðræðufundi hinn 8. júlí í Washington.
Litháar tóku við forsæti í ESB mánudaginn 1. júlí. Utanríkisráðherra þeirra sagði „skiljanlegt“ að grunur um njósnir Bandaríkjamanna setti menn út af laginu en hann mætti ekki eyðileggja tengslin milli aðila.
Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, sagði við AFP-fréttastofuna: „Ég held að það skili ekki miklum árangri að ræða um fréttir fjölmiðla um trúnaðarskjöl sem enginn hefur séð… Ekki má skaða sterk stjórnmála- og efnahagsleg tengsl ESB og Bandaríkjanna.“
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur gefið fyrirmæli um að allar skrifstofur ESB hvar sem er í heiminum skuli fínkembdar í leit að njósnabúnaði.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.