Fimmtudagurinn 21. febrúar 2019

Grikkland: Alexis Tsipras kastar þýskum blaðamanni á dyr


29. júlí 2013 klukkan 18:09

Leiðtogi grísku stjórnarandstöðunnar Alexis Tsipras, formaður Syriza, bandalags grískra vinstrisinna, sleit samtali við blaðamann þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) þegar hann spurði um and-þýsk ummæli Tsipras. Hann vísaði blaðamanninum á dyr fyrir brot á siðareglum með ummælum sínum, ritstjórn FAZ vísar ásökuninni á bug.

Alexis Tsipras

Samtalinu lauk eftir fimmtu spurningu blaðamanns FAZ, Michaels Martens, sem þá hafði rætt við Alexis Tsipras í sjö mínútur og 50 sekúndur. Blaðamaðurinn spurði hvað Tsipras hefði meint þegar hann sagði í júní 2012 að stjórnarflokkarnir, Nýtt lýðræði og PASOK „hefðu svívirt gríska fánann og afhent hann Angelu Merkel“.

Tsipras móðgaðist við spurninguna. Hann hefði „aldrei“ sagt þetta. Þýska blaðið segir hins vegar að til sé sönnun á þessum orðum hans. Benti blaðið á myndbandsbút frá gríska sjónvarpinu frá fundi Syriza 14. júní 2012 í Aþenu og fréttatilkynningu frá Syriza.

Tsipras og Syriza leggjast gegn aðhaldsstefnunni sem samaðilar Gríkkja að evru-samstarfinu hafa knúið þá til að fylgja til að njóta neyðarlána í evru-kreppunni. Alið hefur verið á hatri í garð Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Grikklandi og margir telja hana bera ábyrgð á þrengingum þjóðarinnar og niðurskurði.

FAZ hefur gagnrýnt Tsipras í leiðurum og hvatt til framhalds á aðhaldsaðgerðum í Grikklandi. Í leiðara í maí 2012 var því meðal annars hreyft að brotthvarf Gríkkja úr evru-samstarfinu kynni að „stuðla að aga meðal annarra þjóða“.

Í Avgi, flokksblaði Syriza hafa birst teiknimyndir sem sýna Merkel taka við fyrirmælum frá Adolf Hitler. Þá var Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, nýlega lýst sem „Gauleitir“ sem er heiti á héraðsforingja innan nasistaflokksins. Þjóðverjar hafa reiðst þessum tilvísunum til nasista í griskum fjölmiðum og mótmælaaðgerðum þar sem Merkel er sýnd í einkennisbúningi nasista.

Eftir að viðtalinu við blaðamann FAZ var slitið sendi blaðafulltrúi Tsipras tölvubréf til eins af helstu ritstjórum FAZ og sakaði Martens um að hafa farið „langt út fyrir siðareglur blaðamanna“ og reisa samtal á „orðrómi, yfirlýsingum þriðja aðila og upplýsingum sem ekki hafa verið sannreyndar“.

Tsipras hefði ákveðið að slíta samtalinu af því að hann tæki ekki þátt í viðtölum við „æsingablöð“ segir í tölvubréfinu. Síðar birtist grein í Agvi um Marten, blaðamann FAZ, þar sem sagði:

„Martens virðist hafa smitast af landstjóra-viðhorfinu sem samlandar hans, stjórnmálamenn og embættismenn þríeykisins tileinka sér þegar þeir spígspora um skrifstofur grískra stjórnvalda (…) Hann hélt þess vegna að leiðtogi stjórnarandstöðunnar væri almennt fús til að taka þátt í samtali sem væri pólitískt ábyrgðarlaust.“

FAZ svaraði með því að birta endurskrift viðtalsins og spyrja:

„Segi Alexis Tsipras og félagar hans að blaðamaður brjóti siðareglur með því að bera eigin yfirlýsingar undir þá – lýsir það ekki í raun betur þeim sjálfum og eðli pólitískrar framgöngu þeirra en þeim sem vitna til þeirra?“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS