Miðvikudagurinn 21. apríl 2021

Frétt á Bloomberg um að Huang Nubo vænti mikils af nýrri ríkis­stjórn á Íslandi


14. ágúst 2013 klukkan 10:02

Á Bloomberg-fréttavefnum birtist fimmtudaginn 13. ágúst frétt eftir Ómar R. Valdimarsson, fréttaritara á Íslandi, um að Huang Nubo, kínverski milljarðamæringurinn, sé tilbúinn til að fjárfesta á Íslandi þegar tilkynnt sé um að ný ríkisstjórn ætli að endurskoða lög um fjárfestingar sem hafi komið í veg fyrir fyrri áform hans. Fyrirsögn Bloomberg fréttarinnar er: Chinese Billionaire Huang Readies Iceland Bid on Power Shift - það er að Huang láti að sér kveða að nýju eftir valdaskipti á Íslandi.

„Ef við fáum jákvætt svar frá ríkisstjórninni getum við hafið undirbúningsvinnu,“ segir Halldór Jóhannsson, talsmaður Huangs á Íslandi, í símtali við Ómar R. Valdimarsson. „Við erum að bíða eftir viðbrögðum frá stjórnvöldum.“

Í fréttinni er minnt á að samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi unnið þingkosningar í apríl og hún hafi tilkynnt að hún ætlaði að rýmka reglur um eignarhald útlendinga á landi sem hafi staðið í vegi fyrir Huang til þessa. Milljarðamæringurinn hafi ætlað að festa 200 milljónir dollara til að kaupa og þróa fjallagarð á vegum fyrirtækis síns, Beijing Zhongkun Investment Group Co. Frá þessum 300 ferkílómetrum lands ætlaði hann síðan festa fé víðar á Norðurlöndum að hans sögn árið 2011.

Fréttaritari Bloomberg vitnar í símtal við Gísla Frey Valdórsson, talsmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, sem hafi sagt að ráðherrann hafi hitt „fulltrúa Huangs Nubos og skýrt fyrir þeim að þörf sé á að endurskoða löggjöfina um beina erlenda fjárfestingu í heild. Ekki í ljósi þessa eina máls; þessi endurskoðun verði gerð á næsta vetri.“

Í fréttinni á Bloomberg segir að til að fara í kringum reglur um eignarhald útlendinga á landi hafi fulltrúar sveitarstjórna reynt að kaupa landið og leigja til Huangs. Sú aðferð hafi einnig mætt andstöðu af hálfu fyrri ríkisstjórnar undir forystu jafnaðarmanna. Milljarðamæringurinn geri sér nú vonir um að nýja ríkisstjórnin samþykki leigusamnings-lausnina að sögn Halldórs Jóhannssonar.

Í fréttinni segir að Huang eigi eignir í Kaliforníu og Tennessee og hann sé kunnur fyrir að hafa lagt lið við endurreisn 200 ára gamalla þorpa, Xidi og Hongcun, við Huangshan-fjall í Anhui-héraði í Austur-Kína en þorpin séu nú á heimsminjaskrá UNESCO. Komi fram á vefsíðu Beijing Zhongkun að fyrirtækið reki ferðamannaþjónustu í nágrenni við þorpin.

Minnt er á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi sagt að 14 milljarða dollara hagkerfi í Íslands þarfnist meiri fjárfestingar til að ýta undir vöxt. Þjóðin sé enn að ná sér eftir fjármálahrunið 2008 þar sem stærstu bankar hennar hafi orðið gjaldþrota vegna 85 milljarða dollara skulda. Við þetta hafi krónan lent í frjálsu falli og ríkisstjórnin hafi orðið að óska eftir neyðarláni og setja á gjaldeyrishöft.

Landið sem Huang vilji leigja á Norður-Íslandi sé að þremur fjórðu í eigu sex einstaklinga en ríkið eigi hinn hluta þess. Upphaflegu tilboði Huangs árið 2011 hafi að sögn ríkisútvarpsins verið hafnað eigendum 2,8% landsins.

„Það kann að taka tvö ár að deiliskipuleggja landið,“ segir Halldór Jóhannsson. „Ég er einnig sannfærður um að önnur verkefni sem hafa verið rædd og kynnt sem hugsanleg verkefni munu komast á rekspöl um leið og þessu verkefni er hleypt af stokkunum.“

Rétt er að geta þess í viðbót við ofangreinda frétt á Bloomberg-vefsíðunni að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur sagt að fyrir sér vaki ekki að breyta neinu í íslenskum lögum sem bæti réttarstöðu Huangs Nubos frá því sem nú er.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS