Laugardagurinn 27. febrúar 2021

Noregur: Nýskipan við stjórn Evrópu­mála með nýrri ríkis­stjórn - EES-mál eru innanríkismál en ekki utanríkismál


17. nóvember 2013 klukkan 13:36

Við stjórnarskiptin í Noregi um miðjan október þegar Erna Solberg, formaður Hægriflokksins, varð forsætisráðherra, skipaði hún Vidar Helgesen, flokksbróður sinn sem Evrópuráðherra auk þess sem hann fer með stjórn innri mála í forsætisráðuneytinu hjá Solberg. ´

Vidar Helgesen

Á norsku er embættisskyldum Vidars Helgesens lýst á hann þann veg að hann sé „statsråd og stabssjef ved Statsministerens kontor. Han har også ansvar for samordning av arbeidet med EØS-saker og forholdet til EU, i Utenriksdepartementet“.

Í norskum fjölmiðlum er hann kallaður Evrópuráðherra. Hann hefur aðsetur í forsætisráðuneytinu en eins og segir hér að ofan er starfsliðið sem sinnir EES-málum og samskiptum við ESB í utanríkisráðuneytinu.

Vidar Helgesen er fæddur í Bodø 21. nóvember 1968, hann ólst upp á Nøtterøy i Vestfold. Helgesen er cand. jur. frá Universitetet i Oslo i 1998. Hann var „statssekretær“ , staðgengill ráðherra, í utanríkisráðuneytinu 2001-2005 þegar Kjell Magne Bondevik var forsætisráðherra öðru sinni. Helgesen var sérstakur ráðgjafi hjá Rauða krossinum í Genf 1998–2001. Frá 2006 var hann forstjóri International Institute for Democracy and Electoral Assistance (IDEA) í Stokkhólmi.

Árið 1994 þegar tekist var á um aðild Noregs að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu stjórnaði Helgesen baráttu Hægriflokksins sem vildi aðild. Þess vegna telja margir að í starfi sínu sem Evrópuráðherra verði hann hallari undir sjónarmið og óskir ESB en samræmist norskum hagsmunum og andstöðu Norðmanna við ESB-aðild.

Hann segir við ABC Nyheter laugardaginn 16. nóvember að ástæðulaust sé að óttast nokkuð í þá veru. Hann muni gæta hagsmuna Noregs í hvívetna. Hann segist líta á framkvæmd EES-, Schengen- og 70 annarra samninga sem Norðmenn hafi gert við ESB sem innanríkismál. Það sé ekki unnt að standa við alla þessa samninga án þess að til komi virk þátttaka allra ráðuneyta. Utanríkisráðuneytið eitt eigi með öðrum orðum ekki hlut að máli. Norðmenn verði að láta meira að sér kveða gagnvart ESB til að gæta hagsmuna sinna.

Í viðtalinu lofar hann að nýja ríkisstjórnin muni gæta hagsmuna Norðmanna betur í Brussel en gert hafi verið af utanríkisráðherrum Verkamannaflokksins Jonas Gahr Støre og Espen Barth Eide.

„Ég starfa á grundvelli þeirra tengsla sem Norðmenn hafa við ESB og mun ekki stofna til neinna umræðna um ESB-aðild,“ segir Helgesen.

Hann segir að það sé til marks um nýjar áherslur í samskiptum við ESB að embætti sitt sé vistað hjá forsætisráðherranum. Hann eigi ekki síður að líta inn á við en út á við og kynna sér hvað sé að gerast á vettvangi einstakra ráðuneyta. Honum beri að sjá til þess að tímanlega liggi fyrir afstaða til þeirra mála á vettvangi ESB sem snerti norska hagsmuni. Hann segir að til þessa hafi menn ekki lagt nægilega mikla áherslu á slíka hagsmunagæslu innan norska stjórnarráðsins.

Hann segir dæmi um að Norðmenn hafi ekki fylgst nægilega vel með dagskrármálum hjá ESB og stundum hafi Norðmenn verið of fljótt á ferðinni til að hafa áhrif þegar mestu skipti. Þeir geti ekki fylgst með alls staðar en verði að standa vel á verði.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS