Sunnudagurinn 17. janúar 2021

Siena: Björgun elsta banka heims slegið á frest - logandi ágreiningur eigenda og stjórnenda - óvissa um þriðja stærsta banka Ítalíu


29. desember 2013 klukkan 15:55

Hluthafar í elsta banka heims, ítalska bankanum Banca Monte dei Paschi di Siena, samþykktu laugardaginn 28. desember að fresta endurfjármögnun bankans fram á mitt ár 2014. Stjórnendur bankans vildu að gripið yrði til aðgerða í því skyni að forða bankanum frá þjóðnýtingu strax í janúar 2014.

Antonella Mansi

Monte dei Paschi-sjóðurinn sem á 33,5% í bankanum beitti sér fyrir frestun 3 milljarða evru endurfjármögnunarinnar fram í maí/júní. Með frestuninni vilja stjórnendur sjóðsins fá meira svigrúm til að selja hlutafé hans í bankanum áður en það verður að engu.

Stjórnendur bankans hafa lýst „mikilli óánægju“ með ákvörðun hluthafanna en borgarstjórinn í Siena tekur undir með hluthöfunum og segir: „Við getum ekki látið þriðja stærsta banka þessa lands [Ítalíu] verða útlendingum að bráð.“

Alessandro Profumo

Reuters-fréttastofan segir að stjórnarformaður bankans og bankastjórinn kunni nú að segja af sér þar sem tillaga þeirra hafi ekki náð fram að ganga.

Stjórnendur elsta banka í heimi verða að fá aukið hlutafé til að greiða ítalska ríkinu til baka 4,1 milljarð evra sem það lánaði bankanum fyrr á þessu ári í stað þess að þjóðnýta hann.

Monte dei Paschi-sjóðurinn hefur lykilstöðu innan bankans í krafti hlutafjáreignar sinnar. Sjóðinn skortir hins vegar fjárhagslegt bolmagn til að leggja fram nýtt hlutafé. Sjóðstjórnin vill fá svigrúm til að selja hluta af eign sinni í bankanum til að hún geti borgað skuldir sjóðsins sjálfs.

Antonella Mansi, 39 ára fjársýslukona, tók nýlega við forystu í Monte dei Paschi-sjóðnum. Hún sagði að í kröfunni um lengri tíma til að endurfjármagna bankann fælist ekki vantraust á stjórnendur bankans. Ósk þeirra um endurfjármögnun í janúar mundi hins vegar stórskaða sjóðinn, hann mundi í raun ekki eiga neitt eftir til að greiða 340 milljóna evru skuldir sínar.

„Okkur er skylt að tryggja líf sjóðsins. Þið getið ekki beðið okkur að láta hann falla,“ sagði hún.

Alessandro Profumo, formaður bankastjórnarinnar sem áður var forstjóri UniCredit, sagði að hann og Fabrizio Viola bankastjóri tækju í janúar ákvörðun um hvort þeir segðu af sér. „Ákvarðanir af þessu tagi taka menn eftir kalt mat og á réttum stað,“ sagði Profumo á hluthafafundinum.

Á blaðamannafundi sagði Profumo: „Það sem mér er efst í huga er að ná í 3 milljarða evra af því að við verðum að endurgreiða skattgreiðendum 4 milljarða. Nú ríkir um þetta hættuleg óvissa.“

Viola sagði við blaðamennina að hann mundi gera allt „til að skipið sökkvi ekki“, hann gæti hins vegar ekki axlað ábyrgð vegna mistaka annarra.

Antonella Mansi sagði á hluthafafundinum að það væri erfitt að ímynda sér að þriðji stærsti banki Ítalíu gæti ekki fengið stuðning annarra banka til að auka hlutafé sitt eftir maí 2014.

Bankinn er stærsti atvinnurekandinn í Siena og þar óttast margir að endurfjármögnunin verði til þessa að rjúfa lífæðina milli bankans og borgarinnar. Borgarsjóðurinn er stærsti hluthafinn í Monte dei Paschi-sjóðnum. Bruno Valentini borgarstjóri sagði að með því að fresta endurfjármögnuninni tækist ef til vill að halda útlendingum frá eignarhaldi á bankanum. „Monte dei Paschi snertir ekki aðeins Siena hann er stórt mál allrar þjóðarinnar,“ sagði borgarstjórinn, þriðji stærsti banki Ítalíu mætti ekki verða útlendingum að bráð.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bréf Víglundar til stjórnskipunar- og eftirlits­nefndar: Leynimakk við kröfuhafa á svig við neyðarlögin

+Hér birtist í heild bréf sem Víglundur Þorsteinsson afhenti í Alþingis­húsinu mánudaginn 10. febrúar. Áður hafði Víglundur skrifað Einari K. Guðfinnssyni forseta Alþingis um sama efni.+ Bréf til stjórnskipunar- og eftirlits­nefndar Alþingis, Hr. formaður Ögmundur Jónasson Í framhaldi af b...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS