Mánudagurinn 25. janúar 2021

Úkraína: Almenn herskylda nauðvörn í Kænugarði - landið hlutað í sundur að undirlagi Rússa


1. maí 2014 klukkan 18:48

Olexander Turtsjinov, starfandi forseti Úkraínu, ákvað fimmtudaginn 1. maí að herskylda yrði að nýju tekin upp í landinu vegna vaxandi hættuástands í austurhluta þess. Um sama leyti og ákvörðun forsetans var kynnt lögðu vopnaðir Rússavinir undir sig skrifstofu saksóknara í borginni Donetsk.

Þegar vopnaðir Rússavinir tóku byggingu saksóknara í Donetsk skýldi lögregla sér undir skjaldborg.

David Stern, fréttaritari BBC í Kænugarði, segir óljóst hvernig staðið verði að fjölgun í hernum, hve margir verði kallaðir til vopna og hve fljótt. Hann segir stjórnina í Kænugarði standa höllum fæti gagnvart aðskilnaðarsinnum. Margir telji að markmið Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta sé ekki að ráðast inn í Úkraínu heldur hluta landið í sundur og skilja það eftir í sárum svo að stjórn þess megin sín einskis gagnvart þeim sem stjórna Rússlandi. Hann geti eins og málum sé nú háttað náð þessu markmiði án þess að senda einn einasta hermann yfir landamærin frá Rússlandi.

Turtsjinov forseti viðurkenndi miðvikudaginn 30. apríl að herafli hans væri „bjargarlaus“ gagnvart aðskilnaðarsinnum og uppreisnarmönnum víða í austurhluta landsins. Nú skipti mestu að halda því landi sem enn væri á valdi stjórnarinnar. Herinn væri „tilbúinn til átaka“ ef Rússar sendu her inn í landið.

Í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofunni fimmtudaginn 1. maí sagði að herskyldan væri ákveðin „vegna versnandi ástands í austri og suðri … vegna aukins afls vopnaðra sveita Rússavina og hertöku stjórnarbygginga sem ógni yfirráðarétti á landi“.

Jonathan Marcus, sérfræðingur BBC í alþjóðastjórnmálum, segir að ákvörðun forsetans sé til skamms tíma að minnsta kosti táknrænt skref þar sem fjársvelti hafi þjakað her Úkraínu árum saman og hann megi sín einskis gegn rússneska hernum. Hin raunverulega orrusta um ráð yfir landi Úkraínu fari þegar fram og stjórnin í Kænugarði eigi undir högg að sækja.

Um 130.000 menn eru í her Úkraínu og telja sérfræðingar að fjölga megi mönnum í honum í um milljón manna með almennu herútboði. Almenn herskylda var afnumin undir lok árs 2013 þegar Viktor Janúkóvitsj var enn forseti. Hann flýði til Rússlands í febrúar.

Janúkóvitsj sótti pólitískan stuðning einkum til austurhluta Úkraínu.

Angela Merkel Þýskalandskanslari ræddi við Pútín í síma fimmtudaginn 1. maí og hvatti hann til að leggja þeim málstað lið að aðskilnaðarsinnar í borginni Slovíansk slepptu sjö eftirlitsmönnum á vegum Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) úr gíslíngu. Þeir hafa verið í haldi frá því föstudaginn 25. apríl. Pútín krefst þess að Úkraínustjórn kalli liðsafla sinn frá suðaustur Úkraínu til að unnt sé að hefja sáttaviðræður milli fylkinga í landinu.

Heimild: BBC

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS